Íslenzkar mæðgur bíða líffæraígræðslu í Lundúnum Móðirin þarf hjarta og lungu ­ dótturinni nægir eitt lunga ÍSLENZKAR mæðgur, kona um fimmtugt og dóttir hennar á þrítugsaldri, bíða þess nú báðar að hægt verði að græða í þær líffæri á Brompton-sjúkrahúsinu...

Íslenzkar mæðgur bíða líffæraígræðslu í Lundúnum Móðirin þarf hjarta og lungu ­ dótturinni nægir eitt lunga

ÍSLENZKAR mæðgur, kona um fimmtugt og dóttir hennar á þrítugsaldri, bíða þess nú báðar að hægt verði að græða í þær líffæri á Brompton-sjúkrahúsinu í Lundúnum, þar sem þegar hafa verið grædd líffæri í þrjá Íslendinga.

Mæðgurnar báðar eru með sjaldgæfan, arfgengan lungnasjúkdóm, sem getur einnig lagzt á hjartað. Eldri konan mun þurfa lungna- og hjartaígræðslu, en dr. Magdi Yacoub, hjartaskurðlæknir, vonast til að dótturinni muni nægja að skipt verði um annað lungað. Móðirin bíður aðgerðar á Bromptonsjúkrahúsinu, en dóttirin er komin heim til Íslands aftur eftir að hafa farið út til rannsókna og er viðbúin að fara utan, ef heppilegt líffæri býðst.

Ein íslenzk kona til viðbótar bíður líffæraskipta hér heima. Í byrjun ágúst var skipt um hjarta í Elínu Birnu Harðardóttur, og er líðan hennar nú með ágætum, að sögn sr. Jóns Baldvinssonar, sendiráðsprests í Lundúnum. Hún gekkst undir aðgerðina í byrjun ágúst, og er nú flutt í íbúð í nágrenni sjúkrahússins með manni sínum. Þaðan gengur hún daglega til sjúkrahússins í eftirlit og æfingar.

Sr. Jón sagði að hjartalæknar í Lundúnum, einkum dr. Magdi Yacoub, sem skorið hefur upp og annazt alla Íslendingana, sem fengið hafa líffæri, biðu þess nú í ofvæni að Alþingi hæfi störf í byrjun október. Fyrir þinginu liggur frumvarp um að taka upp sömu skilgreiningu dauða hér á landi og gert hefur verið í mörgum nágrannalöndum. Hingað til hefur fólk verið úrskurðað látið þegar hjartað er hætt að slá, en í frumvarpinu er miðað við að fólk teljist látið er öll heilastarfsemi er hætt. Þá geta önnur líffæri hins vegar í sumum tilfellum starfað eðlilega, og er þá hægt að nema þau á brott úr hinum látna og græða í aðra. Brezkir læknar hafa óskað líffæra til ígræðslna og boðizt til að fljúga til Íslands og halda líffærunum lifandi á fluginu til Bretlands aftur.