Listakonan Róska "bar suðrið með sér".
Listakonan Róska "bar suðrið með sér".
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
YFIRLITSSÝNING helguð lífi og starfi listakonunnar Rósku verður opnuð í dag í Nýlistasafninu við Vatnsstíg. Róska hét réttu nafni Ragnhildur Óskarsdóttir og fæddist 1940 í Reykjavík.
YFIRLITSSÝNING helguð lífi og starfi listakonunnar Rósku verður opnuð í dag í Nýlistasafninu við Vatnsstíg.

Róska hét réttu nafni Ragnhildur Óskarsdóttir og fæddist 1940 í Reykjavík. Sjálf sagðist hún vera fædd 1946 og gat framvísað fölsuðu vegabréfi sínu upp á það. "Hún tilheyrði þeirri kynslóð róttækra, evrópskra listamanna sem vildi afmá mörkin milli lífs og listar og barðist gegn listasnobbi borgarastéttarinnar, pólitísku andvaraleysi almennings og áróðursvél atvinnustjórnmálamanna. Hún var listmálari, ljósmyndari, ljósmyndafyrirsæta, kvikmyndaleikstjóri en umfram allt uppreisnarmaður; rauði þráðurinn í lífi hennar var "sífelld uppreisn í lifandi póesíu og pólitík", segir Hjálmar Sveinsson sýningarstjóri.

"Hún bjó í Róm stærstan hluta ævi sinnar en á Íslandi fékk líf hennar ævintýralegan blæ vegna persónutöfra hennar, listrænna hæfileika og pólitískrar róttækni. Engu að síður snerist líf hennar í harmleik vegna þungbærs sjúkdóms sem hún átti við að stríða frá unga aldri, auk þess sem hún og maðurinn hennar Manrico villtust af leið í móðu vímuefnanna," segir Hjálmar ennfremur.

Útlit hennar bar suðrið með sér

"Útlit hennar bar suðrið með sér," skrifar Guðbergur Bergsson í bók sem fylgir sýningunni, "og um leið varð lífið í Reykjavík fyrir suma eins og sykursoðnir ávextir í ávaxtaköku. Hárið, brosið, hvað eina í fari Rósku var einhvern veginn sjálfsagt, áhyggjulaust, fagurt og hæfileikarnir ótvíræðir."

Róska vakti fyrst athygli með sýningu sinni á málverkum og teikningum í Casa Nova 1967 og með Súper-þvottavélinni sem hún tyllti sama ár upp á Skólavörðuholt og breytti í skotpall fyrir eldflaugar. Sama ár gerðist hún meðlimur í SÚM og sagði í hispurslausu blaðaviðtali að sér þætti ekki mikið varið í Fagurlistaskólann í Róm, þar sem hún hafði verið við nám, en lét þess jafnframt getið að sér virtist ekki auðvelt að lifa listamannslífi í Reykjavík vegna þess að allir væru þar "þvældir í peningakerfinu". Tveimur árum síðar, þegar Róska hafði stigið sitt pólitíska skref til fulls, með verkum sínum á SÚM III, skrifaði ritari FÍM blaðagrein sem hófst með þessum orðum: "Hingað er komin fokill stelpa frá Róm."

Á sýningunni í Nýlistasafninu verða sýnd málverk og teikningar eftir Rósku, ljósmyndir og pólitískir skúlptúrarar, veggspjöld og pólitísk barátturit. Einnig verða sýndar kvikmyndir eftir Rósku sem aldrei áður hafa verið sýndar á Íslandi.

Vegleg bók fylgir sýningunni með fjölda mynda, greinum eftir Guðberg Bergsson, Ólaf Gíslason, Birnu Þórðardóttur og fleiri; einnig eru þar viðtöl við Einar Má Guðmundsson og Hrein Friðfinnsson, grein um súrrealismann eftir Rósku og umræður um pólitíska list.

Útgefendur Nýlistasafnið og Mál og Menning; Sýningin er styrkt af Reykjavík, menningarborg Evrópu.

Sýningin stendur til 19. nóvember og verður opin alla daga nema mánudaga frá klukkan 14 til 18. Fimmtudaga, föstudaga og laugardaga verður einnig opið fram eftir kvöldi á pólitísku kaffihúsi sem hefur verið komið upp í salarkynnum Nýlistasafnsins í tilefni sýningarinnar.