Íbúar á Haui-eyju, þar sem Kim Dae-jung er fæddur og uppalinn, fögnuðu ákaflega er það fréttist að Kim hefði fengið friðarverðlaunin.
Íbúar á Haui-eyju, þar sem Kim Dae-jung er fæddur og uppalinn, fögnuðu ákaflega er það fréttist að Kim hefði fengið friðarverðlaunin.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
KIM Dae-jung, forseti Suður-Kóreu, fékk í gær friðarverðlaun Nóbels fyrir að vinna að sáttum við Norður-Kóreu og koma á friði á þessum síðustu vígstöðvum kalda stríðsins.

KIM Dae-jung, forseti Suður-Kóreu, fékk í gær friðarverðlaun Nóbels fyrir að vinna að sáttum við Norður-Kóreu og koma á friði á þessum síðustu vígstöðvum kalda stríðsins. Var tíðindunum ákaflega fagnað í landi hans og sjálfur kvaðst hann mundu halda áfram að vinna að friði, ekki aðeins á Kóreuskaga, heldur í Asíu og um allan heim.

Gunnar Berge, formaður norsku nóbelsnefndarinnar, sagði, að enginn hefði lagt meira af mörkum við að koma á friði milli kóresku ríkjanna en Kim og kvaðst hann viss um, að verðlaunin yrðu honum og öðrum hvatning til að halda því verki áfram.

Sögulegur fundur

Kim kvaðst taka við verðlaununum klökkum huga en þau væru í raun allra þeirra, sem unnið hefðu að lýðræði, mannréttindum og sáttum með Kóreumönnum. Í Suður-Kóreu var fréttinni fagnað með dansi, söng og flugeldasýningum og segja má, að öll þjóðin hafi klappað er sjónvarpið kom með hana.

Kim Dae-jung er 76 ára að aldri og í 40 ár fór hann fremstur í flokki þeirra, sem börðust fyrir lýðræði í S-Kóreu. Er hann varð forseti setti hann sér að vinna að sáttum milli Kóreuríkjanna en þau hafa formlega átt í stríði í hálfa öld og herirnir standa gráir fyrir járnum hvor gegn öðrum við landamærin. Í júní síðastliðnum átti hann sögulegan fund með Kim Jong Il, leiðtoga Norður-Kóreu, í Pyongyang og síðan hafa ríkin hætt að útvarpa áróðri hvort gegn öðru, leyft sundruðum fjölskyldum að hittast og ákveðið að taka upp lestarsamgöngur.

Kim Dae-jung hóf afskipti af stjórnmálum í landi sínu á sjötta áratugnum en 1961 var hann kjörinn á þing. Kjörbréfin fékk hann þó ekki í hendur fyrr en 1963 því að þremur dögum eftir kosningarnar rændi herinn undir forystu Park Chung-hee völdunum í landinu. Verulega kunnur varð hann fyrst tíu árum síðar þegar við lá, að hann sigraði Park Chung-hee í kosningum þrátt fyrir margs konar kosningasvindl einræðisstjórnarinnar.

Bjargað á síðustu stundu

Kim var nú mesti óvinur valdhafanna og er Park kom á herlögum í landinu flýði hann til Tókýó í Japan. Þar var hann í ágúst 1973 er s-kóreska leyniþjónustan rændi honum og átti að fyrirkoma honum með því að kasta í sjóinn. Útsendarar bandarísku leyniþjónustunnar gátu komið í veg fyrir það.

Kim var síðan ýmist í fangelsi eða stofufangelsi þar til þáverandi yfirmaður s-kóresku leyniþjónustunnar réð Park af dögum í október 1979. Herstjórinn, sem þá tók við, Chun Doo-hwan, lét handtaka Kim aftur og nú var hann dæmdur til dauða fyrir að hvetja til uppreisnar í landinu. Við það var þó hætt vegna harðra viðbragða erlendis og Kim fór til Bandaríkjanna eftir að hafa setið inni í hálft þriðja ár. Sneri hann aftur heim 1985.

Sterkari staða

Stjórnmálaskýrendur í S-Kóreu segja, að friðarverðlaunin muni styrkja stöðu Kims og deyfa þá gagnrýni innanlands, að hann hafi verið of eftirlátssamur við stjórnvöld í N-Kóreu. Þá er líka talið, að þau muni auðvelda honum umbætur í efnahagslífinu, ekki síst hvað varðar banka- og fyrirtækjarekstur í landinu.

Ósló. AP, AFP.