Flugvélin er enn í Fljótavík en beðið færis að flytja hana til Ísafjarðar.
Flugvélin er enn í Fljótavík en beðið færis að flytja hana til Ísafjarðar.
EINS hreyfils flugvél hlekktist á við lendingu í sandfjöru í Fljótavík í friðlandi Hornstranda hinn 8. október sl. Nokkru áður en vélin nam staðar sökk nefhjól hennar nokkuð í gljúpan sand með þeim afleiðingum að skrúfa hennar rakst til jarðar.

EINS hreyfils flugvél hlekktist á við lendingu í sandfjöru í Fljótavík í friðlandi Hornstranda hinn 8. október sl. Nokkru áður en vélin nam staðar sökk nefhjól hennar nokkuð í gljúpan sand með þeim afleiðingum að skrúfa hennar rakst til jarðar. Við það bognaði annað skrúfublaðið. Að auki rakst vinstri vængur vélarinnar í sandinn.

Örn Ingólfsson, flugstjóri vélarinnar segir flugvélina hafa verið á "skokkhraða" þegar óhappið varð og því afar lítil hætta á ferðum. Tveir voru í vélinni auk Arnar. Þar sem ekki var hægt að fljúga vélinni frá Fljótavík var hringt eftir báti sem kom og sótti þá félaga.

Tveimur dögum síðar fór Örn aftur til Fljótavíkur ásamt flugvirkja sem skipti um skrúfu á vélinni. Eftir ítarlega skoðun á væng hennar komu í ljós skemmdir í vængbita. Vélinni var því ekki flogið til Ísafjarðar eins og til stóð. Örn sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að vélin yrði líklega flutt með báti til Ísafjarðar til viðgerðar.

Hann líkir ástandi flugvélarinnar við bíl með brotið drifskaft. Flugvélin sé í raun afar lítið skemmd.

Örn hefur lent um 30 sinnum í sandfjörunni í sumar. Umrædd ferð átti að verða sú síðasta í ár en ætlunin var að ganga frá sumarbústöðum og símstöð í Fljótavík. "Það eru ekki allar ferðir til fjár," sagði Örn.