Hjónin Anna  Pálína og Aðalsteinn Ásberg eru Berrössuð á tánum.
Hjónin Anna Pálína og Aðalsteinn Ásberg eru Berrössuð á tánum.
Hjónin Anna Pálína og Aðalsteinn Ásberg sendu nýlega frá sér barnaplötuna Bullutröll. Ásgeir Ingvarsson leit inn í morgunkaffi og tók þau tali.

ÞAU mæta mér brosmild og hlýleg í dyrunum á fallegu húsi við Laufásveginn, Berrössuð á tánum, þau hjónin Aðalsteinn Ásberg og Anna Pálína.

"Þetta er önnur barnaplatan okkar en við höfum gefið út sjö plötur með alls konar tónlist: djassplötur, sálmaplötur og svo barnaplötur," segir Anna Pálína, á meðan ég gæði mér á dýrindis kaffi og piparkökum við borðstofuborðið.

Fyrir þessi jól gefa þau út barnaplötuna Bullutröll, í framhaldi af hinum vinsæla diski Berrössuð á tánum sem kom út fyrir tveimur árum. Síðan þá hefur nafnið fest við þau sem hljómsveitarnafn þegar þau spila fyrir börn. Efni beggja barnaplatnanna sker sig frá öðrum að því leyti að efnið fellur ekki síður í kramið hjá börnum en fullorðnum. "Okkur hefur tekist að búa til efni sem foreldrarnir verða ekki brjálaðir á þegar börnin biðja: "Aftur, aftur!"," segir Anna Pálína, og Aðalsteinn bætir við: "Það má segja um svona barnaefni að það verður að þola meiri síspilun á heimili heldur en annað efni. Maður verður að hafa það í huga að ef það fellur í kramið hjá krökkum þá verður það að gera það líka hjá foreldrum." Anna Pálína kinkar kolli: "Já, því annars verður það til þess að krakkarnir eru sendir inn í herbergi með sínar græjur, í stað þess að vera með foreldrum sínum - sem flestir krakkar vilja helst gera: þau vilja horfa á og hlusta með fullorðnum - barnið vill ekki vera eitt."

Ég er heillaður upp úr skónum og langar mest að taka viðtal í allan dag við þetta indælisfólk. Ég spyr Aðalstein nánar út í lögin: "Yfirleitt sem ég textana fyrst og síðan er tónlistin samin til að styðja textann. Þetta er sem sagt textatónlist." En af hverju að semja barnatónlist? "Við höfum fundið hjá fólki að þetta efni hefur verið kærkomið, vegna þess að það var svo tilfinnanlegur skortur á efni fyrir börn," segir Aðalsteinn. Við ræðum um hversu lítið er um nýsköpun í tónlist tileinkaðri börnum og hvað mest virðist vera um endurútgáfur á sígildum barnalögum. "Það vantar líka efni sem er á "plani" barna, eitthvað sem er ekki uppeldislegt, kemur ekki að ofan og er ekki að leggja þeim lífsreglurnar, heldur kemur til þeirra og upplifir - með þeim - hvað heimurinn er skrítinn og skringilegur," segir Anna. Upphaflega byrjuðu þau á söng og sagna dagskrá sem þau fluttu á leikskólum. Eftir að hafa spilað dagskrána í þrjú ár ákváðu þau að gefa út Berrössuð á tánum sem nú hefur selst í um fimm þúsund eintökum.

Með geisladiskinum fylgir lítil og fallega myndskreytt bók með textum laganna. "Við vorum að velta fyrir okkur hvort við ættum að búa til bók sem með fylgdi geisladiskur eða öfugt" viðfangsefni geisladisksins er nefnilega íslenskar þjóðsögur og þjóðvísur og efni í ágætis barnabók. Bullutröllin tvö ákváðu að leysa þetta með því að hafa geisladiskshulstrið með bókarformi og hafa textaheftið í vasa á hulstrinu. "Við hefðum samt þurft að láta þrjár textabækur fylgja með því börnin nota þær venjulega upp til agna og foreldrar hringja í okkur og eru að biðja um nýjar bækur."

Ég spyr bullutröllin sem sitja andspænis mér í borðstofunni hvernig þeim líki að spila fyrir börn. "Það er algjört æði að spila fyrir börn!" segir Anna Pálína "mér finnst mjög gaman að hafa áheyrendur sem eru svona nálægt mér". "Þau vilja helst sitja í fanginu á manni," segir Aðalsteinn og Anna bætir við: "...og maður finnur hvernig efnið og sögurnar sem maður er að segja hrífa þau um leið, og það er hægt að leiða þau út um allan heim þess vegna og þau eru alltaf að velta fyrir sér "er hún klikkuð, eða er hægt að trúa henni?""

Í dag, sunnudag, munu þau halda söngvastund í tilefni af útgáfunni, á Kaffileikhúsinu klukkan 16. Það kostar 700 kr. inn og þau Anna sPálína og Aðalsteinn bjóða alla velkomna. Það er ókeypis fyrir fullorðna í fylgd með börnum og blaðamaður er þess fullviss að þeir fullorðnu verða ekki síður hugfangnir af sögum og söng þessa indælisfólks en smáfólkið sem enn er eðlislægt að gleyma sér og láta sig dreyma, um stund, yfir heillandi sögum um drauga og tröll.