[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ENGINN fugl er jafn eftirsóttur meðal veiðimanna hér á landi og rjúpan og eflaust hefur svo verið allt frá upphafi byggðar.
ENGINN fugl er jafn eftirsóttur meðal veiðimanna hér á landi og rjúpan og eflaust hefur svo verið allt frá upphafi byggðar. Elstu rituðu heimildir um slíkar veiðar á Íslandi eru frásagnir af Droplaugarsonum á Arnheiðarstöðum í Fljótsdal, Helga og Grími, sem "höfðu það jafnan til skemmtanar að fara að rjúpum".

Áður fyrr voru rjúpnaveiðar töluvert stundaðar í atvinnuskyni og er talið að öldum saman hafi landsmenn veitt á bilinu 150-300 þúsund rjúpur á ári, allt eftir því hvað stofninn var stór, og var talsvert flutt út af þeim. Ekki mun það vera gamall siður að borða rjúpur á jólum hér, en hann virðist elstur á Austurlandi. Hefur Guðmundur Þorsteinsson frá Lundi leitt að því getum, að rjúpur hafi fyrrum aðallega verið jólamatur fátæklinga, sem ekki höfðu ráð á að slátra til jólanna. En nú á tímum er málum öðruvísi háttað, því áætlað er að um 10 þúsund Íslendingar haldi til fjalla í upphafi vetrar ár hvert, til að reyna að næla sér í þá villibráð á hátíðarborðið. Árið 1998 voru skotnar um 110 þúsund rjúpur, sem er um 10% af stofninum. Er litið á rjúpnaveiðar fremur sem tómstundagaman og hafa fáir af þeim miklar tekjur. Á seinni árum hafa miklar deilur staðið um réttmæti þessara veiða og hafa menn skipst þar í tvær fylkingar.

Hánorrænn fugl

Rjúpan er hánorrænn fugl, aðlagaður lífi í vetrarhörkum. Heimkynnin eru í löndunum allt í kringum norðurpólinn en einangraðir rjúpnastofnar finnast auk þess í háfjöllum suður um Evrópu, t.d. í Ölpunum og Pýreneafjöllum, og líka í fjallgörðum Síberíu að Altaífjöllum í Mongólíu, í hæstu fjöllum í Mið-Honshu í Japan, í Skotlandi og á Nýfundnalandi. Íslenska rjúpan er skyldust norður-amerískum rjúpum og hefur samkvæmt því numið land hér úr vesturátt einhvern tímann á jökultímanum, hefur líklega notfært sér ísalög til að komast yfir Grænlandssund til Vestfjarða. Og enn gerist það að rjúpur frá Norðaustur-Grænlandi flækjast hingað á vetrum, annað slagið.

Íslenska fuglsheitið rjúpa er æði gamalt í málinu, kemur þegar fyrir á 13. öld, í Snorra-Eddu. En önnur heiti þessarar tegundar eru m.a. fjall(a)rjúpa, háfjallarjúpa, heiðarjúpa og snærjúpa. Á meðal rjúpnaskyttna er stundum notað orðið hvítlóa. Karlfuglinn er að auki nefndur hróker(r)i, karri, ker(r)i, rjúp(u)karri, rjúp(u)ker(r)i og ropkarri.

Íslenska þjóðtrúin

Íslensk þjóðtrú hefur ýmislegt af rjúpunni að segja. Eðlilegast er að geta í fyrstu kynna hennar og almættisins, en þau áttu eftir að verða afdrifarík. Í þjóðsagnasafni Sigfúsar Sigfússonar er eftirfarandi sögu um það að finna:

"Rjúpan, sem er systir fálkans, er snotur fugl og hraðfleygur. Það er vörn hennar móti bróður sínum, fálkanum, að hún verður samlit snjónum á vetrin, en jörðinni á sumrin, og gengur honum því illa að sjá hana. Það er gömul sögn, að Guð bauð Sankti Maríu að kalla saman alla fugla og prófa hlýðni þeirra við sig, með því að leggja fyrir þá ýmsar þrautir. María bauð þeim að vaða logandi bál. Hlýddu þeir allir, nema rjúpan. Hún bar það fyrir sig, að hún sviði fiðrið af fótum sér. "Sértu þá héðan frá loðin um fæturna," sagði María. "En af því að þú óhlýðnaðist boðinu, þá skal bróðir þinn sitja um líf þitt og drepa þig sér til matar, og þó sér óvitandi, en kenna ætíð, þá kemur að hjartanu." Þetta varð."

Útgáfa Jóns Árnasonar þjóðsagnasafnara er svona, í ritverkinu Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri:

"Einu sinni boðaði María mey alla fuglana á fund sinn. Þegar þeir komu þangað skipaði hún þeim að vaða bál. Fuglarnir vissu að hún var himna drottning og mikils megandi. Þeir þorðu því ekki annað en hlýða boði hennar og banni og stukku þegar allir út í eldinn og í gegnum hann nema rjúpan. En er þeir komu í gegnum eldinn voru allir fæturnir á þeim fiðurlausir og sviðnir inn að skinni og svo hafa þeir verið síðan allt til þessa dags og hlutu þeir það af því að vaða bálið fyrir Maríu.

En ekki fór betur fyrir rjúpunni sem var sú eina fuglategund sem þrjóskaðist við að vaða eldinn, því María reiddist henni og lagði það á hana að hún skyldi verða allra fugla meinlausust og varnarlausust, en undireins svo ofsótt að hún ætti sér ávallt ótta vonir nema á hvítasunnu, og skyldi fálkinn sem fyrir öndverðu átti að hafa verið bróðir hennar ævinlega ofsækja hana og drepa og lifa af holdi hennar.

En þó lagði María mey rjúpunni þá líkn að hún skyldi mega skipta litum eftir árstímunum og verða alhvít á vetrum, en mógrá á sumrum, svo fálkinn gæti því síður deilt hana frá snjónum á veturna og frá lyngmóunum á sumrum."

Aðrir segja frá viðskiptum Maríu og rjúpunnar á þessa leið:

"Einhverju sinni áttu allir fuglar að vaða yfir eld og þá brann loðið eða fiðurhýjungurinn af fótum þeirra því þeir voru áður allir loðfættir sem enn nú er rjúpan. En það var henni til liðs og líknar að hún fór til Maríu meyjar og bað hana ásjár og kvaðst ei mega missa fótadúnsins þegar hún þyrfti að ganga úti í öllum mestu vetrarhörkum. María bað hana að setja fót sinn í lófa sér; síðan fór hún fingrum um fætur henni og kvað hana nú ei saka mundi. Og svo vóð rjúpan eldinn sem aðrir fuglar og sakaði ekki og því er hún ein fugla loðfættust."

Vor og sumar

Næst er að athuga það sem tengist vori og sumri.

"Þegar maður finnur fyrst á vorin rjúpuhreiður skal ekki taka eggin undan henni heldur láta hana verpa við," skrifar Jón Árnason. "En það má með því móti, að maður setji lítinn staur upp á endann niður, sumir segja í mitt hreiðrið milli eggjanna en aðrir utan við hreiðrið og hinir þriðju segja að það nægi að leggja tréspæni í hreiðrið svo hærra beri á þeim en eggjunum. Þegar búið er að þessu og maðurinn er genginn burtu sest rjúpan á eggin og verpir við þangað til hún hefur orpið svo mörgum eggjum að staurinn fer í kaf eða að eggjahrúgan taki jafn hátt honum, sé hann settur fyrir utan hreiðrið, og þaðan er orðskviðurinn að "rembast eins og rjúpan við staurinn" dreginn. Sagt er að rjúpan haldi áfram að verpa þangað til hún hefur orpið 19 eggjum en deyi af hinu 20. Skal því hafa gætur á að taka burt staurinn og eggin úr hreiðrinu þegar 19 eru komin því níðingsverk þykir það að pynta fyrst rjúpuna með þessu til að verpa og láta hana síðan bíða dauða af því."

Hér má nefna, að áþekk sögn, erlend, er til um æðarfuglinn.

Hitt er svo annað, að fleiri skýringar eru til á uppruna orðtaksins sem Jón nefnir. Ein er sú, að það komi frá þeim tíma er menn veiddu rjúpur með því að leggja snörur í bithagana. Gekk þessi veiðiaðferð út á, að snörurnar lentu um háls fuglanna og kæfðu þá misfljótt; ef fuglarnir rembdust við að losna, gekk þetta hraðar fyrir sig. Og þriðja skýringin er rakin til þess, að menn tjóðruðu gjarnan rjúpur við staura og notuðu sem agn við fálkaveiðar á öldum áður. Var þá spotti bundinn í annan fót þeirra, nógu langur til að þær gætu flögrað örlítið um og vakið þannig athygli ránfuglanna.

Sagt er að fjöldi eggja í rjúpuhreiðri endi alltaf á oddatölu, og eins hitt að ef fyrstu eggin sem maður finnur á ævinni eru í rjúpuhreiðri eigi hann að eignast jafnmörg börn og þar eru. Aðrir segja að einu gildi hvaða hreiður maður rambi fyrst á, barnatalan fari eins eftir eggjafjöldanum fyrir það. Taki maður eggin verður að fara gætilega, því jafnmörg börn manns koma til með að deyja og eggin eru sem brotna. Og sé um einhver fúlegg að ræða, á maður að eignast jafnmörg lausaleiksbörn.

Í bók Ingólfs Jónssonar frá Prestsbakka, Þjóðlegar sagnir og ævintýri, er saga þessu tengd, höfð eftir öldruðum Austfirðingi. Hún fjallar um Pál nokkurn og kynni hans af rjúpuhreiðri, en orð lá á, segir þar, að Páll vissi meira en aðrir menn. Frásögnin, sem er í dæmisögustíl, er annars á þessa leið:

"Eitt vorið, þegar óvenju hart var í ári, gekk Páll út á heiðina til að huga að eggjum. Fann hann þá rjúpuhreiður með tólf eggjum. Rjúpan barði vængjum og bar sig illa. Fannst Páli hann skynja hugsanir hennar eins og töluð orð, en þær voru: "Þú, Páll, átt börn og getur því skilið mig. Lofaðu mér að halda sem flestum mínum."

Páli fannst þetta sanngjarnt og tók aðeins fjögur egg. Hélt hann svo brátt heim og leið þetta atvik senn úr huga. Seint á túnslætti vaknaði Páll einn morgun við vængjablak á glugga yfir rúmi sínu. Klæddi hann sig og fór út. Var þá komin rjúpan, sem hann hafði hitt á liðnu vori, með unga sína átta talsins. Gerði hún Páli skiljanlegt, að hún vildi fá hann með sér niður túnhallann. Lét Páll það eftir henni, en neðan við túnið rann á. Var þar stundum veiðivon, en stopul mjög. Rjúpan stefndi að ánni og staðnæmdist með ungahóp sinn við dálítinn hyl. Áin var vatnslítil eftir langvarandi þurrka og hylurinn nánast sem pollur. Páll ætlaði ekki að trúa sínum eigin augum, þegar hann sá átta væna laxa liggja í hylborunni, jafnmarga og börn rjúpunnar, þau er hann hlífði fyrr. Hann lét ekki langan tíma fara til ónýtis, heldur óð út í hylinn og hafði innan skamms náð öllum löxunum með berum höndum og komið þeim á þurrt land. Eftir að hafa þrætt laxana á snæri, sem hann tók úr vasa sínum, fór hann að huga að rjúpunni. Hún var farin sína leið með fjölskyldu sína. Páll kom þennan morgun færandi hendi heim í bæinn sinn og varð þar hin bezta laxaveizla eins og nærri má geta.

Um veturinn, þegar jarðbönn urðu á heiðinni, kom rjúpan, vinfugl Páls, með unga sína stóra og fullfleyga. Páll miðlaði þeim moði úr fjárhúsi sínu og hélzt vinátta þeirra um hríð. Það bar svo við einn daginn, að rjúpnahópurinn fyllti tuginn og varð Páll þá argur í skapi, því að ekki hafði hann ætlazt til, að ókunnugum fuglum yrði boðið á moðjörðina. Þá gerði rjúpnamóðirin honum skiljanlegt, að hér væri ekki neinn utanveltufugl kominn, heldur sjálfur karrinn, húsbóndi fjölskyldunnar. Lét Páll það sér vel líka og hélzt moðgjöfin til vordaga, því að það vorar líka um síðir á heiðinni, þó að hún verði seinna örísa en lágbyggðin."

Einnig þekktist sú trú, að ef ófrísk kona borðaði rjúpu eða egg hennar átti barnið að verða freknótt. Og legði ófrísk kona sér til munns valslegna rjúpu, þ.e.a.s. drepna af fálka, átti barn hennar að fæðast með valbrá. Hér mætti kannski skjóta því inn, að þegar valur hefir drepið rjúpu og er farinn að rífa hana á hol, rekur hann upp ámátlega skræki. Menn segja að það sé vegna þess, að þegar hann kemur að hjarta rjúpunnar, uppgötvar hann að hún er systir hans; þetta er m.ö.o. sorgarvein.

Ekki mátti þunguð kona nota sæng með rjúpnafiðri í, þá átti fæðingin að verða "mjög treg ella ómöguleg" að því er Jón Árnason segir. Hins vegar mátti greiða fyrir örðugri fæðingu með því að skipta um sæng, bætir Jón við; eða leggja undir konuna rjúpnafjaðrir, að því er Jónas Jónsson frá Hrafnagili upplýsir. Ekki gat maður dáið, ef eintómt rjúpnafiður var í sæng hans.

Ef karri ropar drjúgum á morgnana veit það á blotveður, en að kvöldlagi hins vegar á gott, ritar Sigfús Sigfússon á einum stað í þjóðsagnasafni sínu, en á öðrum stað í ritverkinu snýst þetta algjörlega við. En þar segir: "Þegar rjúpkarri ropar mikið á morgnana veit á gott, en ef hann gerir það á kveldin er misjafnt veður í vændum."

Haust og vetur

Haustið er ekki eins áberandi í íslenskri þjóðtrú um rjúpuna og vor eða sumar. Eitt af því fáa sem varðveist hefur, er, að væru rjúpur brúnar lengi frameftir, væri það fyrirboði um mildan vetur. Ef þær hins vegar tóku hvíta litinn snemma á haustin, boðaði það harðan vetur og mikinn snjó.

Í Eyjafirði, á Meðallandi í Vestur-Skaftafellssýslu og í Hvítársíðu í Borgarfirði var mælt, að sæktu rjúpur mjög í heimahaga eða að bæjum að hausti boðaði það harðan vetur, snjóasaman.

"Þegar rjúpur fljúga af heiðum ofan niður á láglendi, er það oftast í harðindum og hagbönnum fyrir þær og fénað allan, en þá er eigi þess að vænta, að harðviðrin linni," segir Jóhann Pálsson í bókinni Austantórur. "Í hægviðri og stillum drítur rjúpan aflöngum, hörðum spörðum, en flytji hún sig til hálendis, hlíða og fjalla, má af slóð hennar sjá, að hún hefur þá þunnlífi mikið, og er það talið órækt merki um linviðri og vætu. Fyrir harða vorið 1881 komu rjúpur snemma vetrar heim á fjallabæi," bætir hann við. Í Laugardal í Árnessýslu var merki um harðan vetur framundan, ef rjúpur komu snemma í skógana þar. Og í Eyjafirði sagði margt eldra fólk á öðrum og þriðja tug 20. aldar, að ef rjúpur héldu sig við bæi snemma vetrar vissi það á harðindi.

Þegar svo líða tekur á þann árstíma fjölgar sögnum um rjúpuna, enda kannski ekki að furða; um það leyti er hún mest áberandi í lífi og starfi fólks, enda ekki við margar fuglategundir aðrar að keppa um athyglina þá. Og hitt var náttúrulega ekki síðra, að hún þótti einkar góður veðurspáfugl. Kona ein í Öxarfirði í Norður-Þingeyjarsýslu, fædd 1886, segir t.d.: "Ég held að almennt hafi verið álitið að ef rjúpum fjölgaði í byggð að vetrarlagi væru hörkur í nánd."

Í bók Jónasar Jónassonar frá Hrafnagili, Íslenzkir þjóðhættir, segir, að ólánsvegur hafi þótt og illa gert að stunda rjúpnaveiðar, enda álit manna að þær væru aldrei gróðavegur. Ætíð átti að vera "sultur og seyra í því búi sem mikið er veitt af rjúpum". Jón Árnason þjóðsagnaritari kannast við þetta líka. En ekki tóku allir mark á þessu. Og eitt af því sem veiðimenn fylgdust náið með, var sarpur rjúpunnar. Töldu þeir sig geta ráðið af honum um veðurfar komandi daga og vikna og jafnvel mánaða. Hin almenna skoðun var sú, að það boðaði illt ef rjúpur voru styggar og ólmar að tína og mikið var í sarp þeirra, en ef þær voru gæfar og sarpur þeirra tómur, vissi það á gott. Um aldamótin 1900 var sú trú við lýði í Hörgárdal, að gengju rjúpur fremur venju mjög ötullega að beit merkti það að snjókoma væri í nánd. Og væru sarpir veiddra rjúpna þá fullir, mátti búast við mikilli snjókomu næsta dag. Svipað var upp á teningnum í Aðaldal og Ljósavatnshreppi. "Meðan margt var af rjúpum," segir bóndi einn af þeim slóðum, fæddur 1897, "tóku fjármenn mark á því ef þær gerðust nærgöngular við beitarféð og sóttu fast í krafstrana, þar sem kindurnar kröfsuðu burt snjóinn til þess að ná til jarðar. Þá töldu menn líkur á stórhríðum og jarðbönnum. Nú taka menn síður eftir þessu. Ber tvennt til, sauðfé er nú miklu minna beitt en áður var, og rjúpur mega nú teljast til sjaldgæfra fugla hér um slóðir. Þegar rjúpur voru veiddar var sarpurinn athugaður. Ef mikið var í honum, hafði fuglinn vitað á sig illt veður. Tómur sarpur boðaði gott." Og maður einn, fæddur árið 1910, sem er með Tjörnes í huga, ritar: "Um rjúpuna er það að segja að hún virðist furðu næm fyrir veðurbreytingum. Tala ég þar af eigin reynslu, meðan ég stundaði rjúpnaveiðar. Ef vont veður var í aðsigi, hópuðust rjúpurnar saman og söfnuðu af mikilli ákefð í sarpinn, hlupu gjarnan um og voru oft fremur óvarar um sig. Er þær höfðu tínt í sig um hríð, hófu þær sig á loft og hreinsuðust burt og jafnan undan veðuráttinni, oft um langan veg, þangað sem skjólsælla var."

Eins virðist þetta hafa verið á Austurlandi. A.m.k. segir bóndi af Fljótsdalshéraði, fæddur 1896, að þegar rjúpan hafi verið sérstaklega örðug við að tína í sarpinn á vetrum, hafi það vitað á hríðarveður. Og annar, í Vopnafjarðarhreppi, fæddur 1910, segir: "Rjúpurnar tína í sarpinn fram í rauðamyrkur ef snjóhríð er í aðsigi." Og í framdölum Skagafjarðar og framhluta Eyjafjarðar var sagt, að rjúpur kroppuðu mikið og fylltu sig vel á undan illviðrum. Eins var með Hálsasveit, Reykholtsdal, Borgarfirði syðra, en þar segir maður fæddur 1927: "Hátterni rjúpu gat og getur verið athugandi í sambandi við veður: Þegar hún tínir af kappi í góðu veðri veit það á hagleysu og eins þegar hún færir sig á undan stormi í skjól."

"Rjúpan er venjulega þögul mjög í vetrarkælum og safnar þá í kyrrþey í sarp sinn. Kemur það þá oft á tíðum fyrir, að ein rjúpan í stórum hópi rekur upp ámátlegt ýlfur og flýgur hátt í loft, ein út af fyrir sig, en brátt bætast fleiri við, unz allur hópurinn er floginn á brott. Er þá segin saga, að í vændum er verri tíð en áður og snjókoma mikil," ritar áðurnefndur Jóhann Pálsson í viðbæti í Austantórum.

En í Árneshreppi í Strandasýslu horfðu menn enn lengra fram í tímann. Ef mikið var í sarpnum, boðaði það einfaldlega harðan vetur.

Sarpur rjúpunnar gagnaðist líka með öðrum hætti til að ráða í veðrið, því nota mátti hann uppblásinn fyrir veðurvita, að sögn Jónasar Jónssonar frá Hrafnagili. Ef sarpurinn var harður boðaði það storm, en ef hann var linur þá hægviðri og stillingu. Annað atferli mátti líka hafa til vísbendingar, segir hann. Ef menn t.d. sáu rjúpur í gili og þær héldu sig öðrum megin í því, mátti eiga von á illu veðri og sátu rjúpurnar þeim megin sem hlé veitti.

Þá segir Guðmundur L. Friðfinnsson á Egilsá í bók sinni, Þjóðlíf og þjóðhættir: "Í ljósaskiptum heyrðist tíðum vængjablak í lofti og rjúpur vældu eða ropuðu í brekkunni að bæjarbaki. Ef mikið kvað að, var þetta talið boða veðurbreytingu, allt eftir flugstefnu og hljóði."

Og gamall maður í Árnessýslu ritar á einum stað: "Rjúpan er elskulegur fugl. Enginn vafi var á því að hún vissi á sig vond veður. Ég tók eftir því sjálfur þegar ég var í sveit, sem var á Rangárvöllum, þá kom rjúpan og gróf sig í snjóinn í grasigrónum kálgarðsgörðunum sem voru hlaðnir úr sniddu og sneri sér alltaf í veðrið af hvaða átt sem var. Ég gleymi aldrei hvað ég vorkenndi henni. Hún var svo spök og elskuleg. En aldrei brást að þetta vissi oftast á langar hörkur, því máttum við trúa."

Annað

Til lækninga var ýmislegt af rjúpunni gagnlegt: "Við augnveiki er gott að bera í augun jafnt af hvoru rjúpugall og hunang. Við vatnsrennsli úr augum skal bera í augun rjúpugall, pipar og engifer samblandað," má lesa hjá Jónasi Jónssyni frá Hrafnagili. "Við minnisleysi eða ónæmi er gott að bera rjúpugall eða rjúpuheila á gagnaugun á hverjum mánuði; einnig er gott við þessu sama að borða rjúpulifur," bætir hann við. "Við augnavosi. Tak rjúpnagall og ryð," upplýsir Sigfús Sigfússon.

"Til að kona elski bónda sinn, skal gefa henni rjúpuhjarta að eta, saxað í mat," ritar Jónas frá Hrafnagili ennfremur, "eða hafa tvær (rjúpu)tungur undir tungu sér og kyssa hana."

Að dreyma rjúpur var yfirleitt fyrir snjókomu.

Að síðustu má nefna, að þegar menn eru hálfdottandi er það ýmist kallað að "rota rjúpur" eða "draga ýsur".

Erlend þjóðtrú

Í Noregi þekktist sú trú, eins og hér, að yrðu rjúpur snemma hvítar, benti það ótvírætt til harðs vetrar. Ef mikið heyrðist í rjúpum um hábjartan dag eða væru þær óvenju styggar, mátti búast við ofankomu. Kæmu hópar úr fjöllum og niður í skóg, boðaði það óveður; tækju rjúpur upp á því að nálgast hús var ill tíð í vændum (eins í Norður-Svíþjóð), og menn gátu átt á hættu að missa búpening. En leituðu þær til fjalla, vissi á gott. Í Valdres í Austur-Noregi snérist þetta við; kæmu rjúpurnar heim á bæi var milt veður framundan. Á Hálogalandi sögðu menn, að ef heyrðist í rjúpum árla dags, hátt og skýrt, í óveðurstíð, myndi létta til innan skamms.

Hvítur litur rjúpunnar var einnig táknrænn; þetta var litur sálarinnar. Af þessu leiddi, að flygju rjúpur með óhljóðum yfir húsum manna boðaði það feigð (eins í Norður-Svíþjóð), og lægi einhver deyjandi með rjúpnafiður í fleti sínu átti það að gera banaleguna lengri og erfiðari en ella. Samanber hér. Og að dreyma rjúpu var einnig feigðarboði. Á Hálogalandi var hún beinlínis kölluð "feigðarfuglinn".

Samar í Finnmörku í Norður-Noregi (í Karasjok Kautokeino, Tana, Nesseby og víðar) notuðu egg á brunasár, og þóttu rjúpueggin best. Ekki dugðu fersk egg; þau urðu að vera fúl, annaðhvort frá síðsumri eða hausti.

Í Japan er rjúpan helguð þrumuguðinum og kölluð "raicho", sem merkir þrumufuglinn.

Á árlegri hausthátíð inúíta á Grænlandi er sagt að eigist við í reiptogi "endur" (þ.e.a.s. menn fæddir um vor eða sumar) og "rjúpur" (menn fæddir um haust eða vetur) og ráðist af úrslitum þeirrar viðureignar hvernig tíðarfarið verður; séu endurnar hlutskarpari er góður vetur framundan, en aftur á móti harður ef rjúpur fara með sigur af hólmi.

Einnig skoðuðu menn þar á haustin og í vetrarbyrjun í sarp rjúpunnar, eins og tíðkaðist hér á landi, til að komast að því hvernig myndi viðra. Fullur sarpur merkti strangan vetur. Þar var sagt, að veidda rjúpu mætti ekki bera inn um dyrnar, heldur yrði að fara með hana inn um strompinn; þetta var til þess að sjávardýrin yrðu ekki reið. Og þegar hún var reytt, skyldu fjaðrirnar teknar út þá sömu leið, og einungis mátti kasta þeim á bak við húsið.

Landfugl, og þá einkum rjúpuna, mátti ekki sjóða í potti ásamt með sjófugli, eins og t.d. hávellunni, því slíkt bauð heim óveðri.

Á Nýfundnalandi réðu menn af fótabúnaði rjúpunnar hvernig komandi vetur yrði. Því loðnari sem hún var niður um tær, þeim mun harðara var framundan.

Um það hvernig rjúpan varð til, er svo að lokum eftirfarandi sögu að finna meðal inúíta við Hudsonflóa:

"Einu sinni bjó gömul kona í snjóhúsi ásamt með barnabarni sínu.

- Amma, segðu mér sögu!

- Æ, ég kann enga sögu! Farðu nú að sofa!

En svo ákvað hún að galsast aðeins og sagði allt í einu:

- Nei, sjáðu! Þarna er hárlaus læmingi! Og þarna er annar! Og einn enn!

Og amma stökk hátt í loft upp og æpti og lét sem hún væri dauðskelkuð. En þá varð barnið svo hrætt, að það skrapp saman og varð að lokum að tístandi smáfugli og flaug á braut. Nú varð amma miður sín yfir að hafa gert barnabarni sínu þennan óleik, svo að hún klóraði sig í andlitið, hengdi framan á sig poka og stakk nálum í stígvélin. Í sömu andrá breyttist hún í snærjúpu; pokinn varð að maga hennar og nálarnar að fótum. Og síðan þá hefur amman flogið vítt um norðurhvel jarðar í leit að barnabarni sínu, kallandi í sífellu: Hvar? Hvar? Hvar?"

Sigurður Ægisson