STARFSMENN Sameinuðu þjóðanna sögðust í gær hafa orðið varir við aukna geislavirkni á stöðum í Kosovo sem urðu fyrir sprengjuárásum herþotna Atlantshafsbandalagsins, NATO, árið 1998. Bandalagið notaði svonefnt rýrt úran í sprengjurnar.

STARFSMENN Sameinuðu þjóðanna sögðust í gær hafa orðið varir við aukna geislavirkni á stöðum í Kosovo sem urðu fyrir sprengjuárásum herþotna Atlantshafsbandalagsins, NATO, árið 1998. Bandalagið notaði svonefnt rýrt úran í sprengjurnar.

Talsmaður Sameinuðu þjóðanna sagði að ástæða væri til að gera sérstakar öryggisráðstafanir á þessum stöðum til að fyrirbyggja að fólk yrði fyrir heilsutjóni. Talsmaður breska varnarmálaráðuneytisins sagði hins vegar að það teldi ekki ástæðu til að hafa áhyggjur af málinu því lítil hætta stafaði af rýru úrani.

Stjórnvöld í Frakklandi, Belgíu, Portúgal og á Ítalíu hvöttu á dögunum til tafarlausrar rannsóknar á því hvort úransprengjurnar væru orsök hvítblæðis meðal nokkurra friðargæsluliða í Kosovo og Bosníu.

Hópur vísindamanna á vegum Sameinuðu þjóðanna hefur skoðað ellefu af þeim 112 stöðum í Kosovo sem urðu fyrir sprengjuárásum Atlantshafsbandalagsins. Á átta þessara staða fundust annaðhvort leifar af rýrðu úrani eða merki um aukna geislavirkni.

Pekka Haavisto, sem fer fyrir hópnum, sagði að vísindamennirnir hefðu séð leifar úransprengna í nokkrum þorpum og það hefði komið þeim á óvart að þær hefðu ekki enn verið fjarlægðar þótt tæp tvö ár væru liðin frá hernaðaraðgerðunum í Kosovo. "Börn sem leika sér á þessum svæðum geta hæglega tekið þessar sprengjuleifar," sagði Haavisto. "Jafnvel fullorðið fólk hefur tekið nokkrar stríðsminjar og geymt þær í húsum sínum - og af þeim kann að stafa hætta á geislamengun."

Vísindamennirnir segja að rannsókninni sé ekki lokið og því sé ekki hægt að fullyrða neitt um áhrif sprengjuleifanna á heilsu fólks. Þeir leggja þó áherslu á að gera þurfi varúðarráðstafanir til að tryggja að íbúum Kosovo og friðargæsluliðum stafi ekki hætta af sprengjuleifunum.

Einnig er talin hætta á að geislavirkt ryk hafi mengað jarðveg og vatn á þeim stöðum sem urðu fyrir árásunum. Í sprengjurnar var notað rýrt úran og geislavirkni þess er 40% minni en í auðguðu úrani sem notað er í kjarnorkusprengjur og brennt í kjarnorkuverum.

Genf. AP, Reuters.