VILDARFARÞEGUM breska flugfélagsins British Airways gefst í lok janúar tækifæri á því að innrita sig í flug með WAP-síma sínum og er BA því fyrsta flugfélag í heimi sem býður upp á slíka þjónustu.

VILDARFARÞEGUM breska flugfélagsins British Airways gefst í lok janúar tækifæri á því að innrita sig í flug með WAP-síma sínum og er BA því fyrsta flugfélag í heimi sem býður upp á slíka þjónustu.

Fram til þessa hefur farþegum með WAP-síma einungis verið gefið færi á því að bóka flug í gegnum símana en Flugleiðir voru fyrsta flugfélag í heiminum sem bauð upp þann möguleika í mars á síðasta ári. Síðan þá hafa yfir 500 flugfélög bæst í hópinn.

Vildarfarþegar BA geta einnig notað WAP-tæknina til þess að velja sér sæti í vélinni með hjálp uppdráttar af sætisskipan vélarinnar sem birtist á símaskjánum.

Farþegar sem innrita sig með aðstoð WAP sækja brottfararspjöld sín í sjálfsafgreiðslu á

flugvellinum og skilja farangur sinn eftir við sérstaka hraðþjónustu.

Með þessari nýju þjónustu, sem er að hluta til þróuð af tölvufyrirtækinu IBM, geta þeir fengið upplýsingar um áætlaðan brottfarartíma sé um seinkun að ræða.

Sem stendur gefst einungis vildarfélögum BA tækifæri á því að sleppa við að standa í röð við innritunarborð félagsins, en verið er að vinna í því að bjóða öllum farþegum upp á þennan möguleika.