SIV Friðleifsdóttir umhverfisráðherra vill ekkert um það segja hvort yfirlýsing norska forsætisráðherrans um áramótin, Jens Stoltenbergs, að hætta ætti við þrjár vatnsaflsvirkjanir í landinu vegna umhverfisskaða, gæti haft áhrif á fyrirhugaða þátttöku...

SIV Friðleifsdóttir umhverfisráðherra vill ekkert um það segja hvort yfirlýsing norska forsætisráðherrans um áramótin, Jens Stoltenbergs, að hætta ætti við þrjár vatnsaflsvirkjanir í landinu vegna umhverfisskaða, gæti haft áhrif á fyrirhugaða þátttöku Norðmanna í stóriðju hér á landi. Norðmennirnir verði sjálfir að svara fyrir það og koma sínum skilaboðum til Reyðaráls, sem þeir eiga aðild að.

Ávinningurinn af virkjun- unum ekki nægjanlegur

Í samtali við Morgunblaðið sagði Siv að sér litist ágætlega á þessi áform frænda vorra. Þeir væru í sérstökum sporum. Þrátt fyrir að hætta við þrjár virkjanir hefðu þeir nokkra virkjanakosti á borðinu sem væru mjög umdeildir.

"Samkvæmt mínum upplýsingum töldu Norðmenn að orkan og ávinningurinn af þessum þremur virkjunum væri ekki nægjanlegur. Þær hefðu samanlagt framleitt sambærilega orku og Sultartangavirkjun.

Þessar virkjanir eru í jaðri þjóðgarðs þar sem eru sagðar einstakar jarðmyndanir, plöntur og dýr. Norðmenn hafa virkjað nær alla sína möguleika og eiga aðallega erfiða virkjanakosti og náttúruperlur eftir. Þegar þeir hófu á sínum tíma vinnu við rammaáætlun í umhverfismálum höfðu þeir virkjað yfir tvo þriðju af sínum kostum en við höfum virkjað innan við fimmtung af okkar kostum. Þrátt fyrir þetta svara þeir ekki orkuþörf sinni eins vel og við með vistvænum og endurnýtanlegum orkugjöfum, þar sem við erum heimsmeistarar.

Tæplega 70% af okkar orkunotkun er endurnýjanleg og vistvæn vatns- og jarðvarmaorka. Mannkynið kallar á slíka orkugjafa og vill minnka notkun á kolum, olíu og kjarnorku," sagði Siv og benti á að Norðmenn væru einnig undir þrýstingi um að reisa gasorkuver, sem ekki væru vistvæn.