Pétur Reimarsson, framkvæmdastjóri Sæplasts á Dalvík: Álver á Suðurnesjum felur í sér möguleika fyrir aðra landshluta
PÉTUR Reimarsson, framkvæmdastjóri Sæplasts á Dalvík, sagði á ráðstefnu um samstarf fyrirtækja á Norðurlandi, um síðustu helgi, að það að álver yrði reist á Suðurnesjum, eins og allt benti nú til, fæli í sér ákveðna möguleika fyrir aðra landshluta. Benda mætti bæði á jákvæðar og neikvæðar hliðar þess að álver yrði ekki reist við Eyjafjörð. Þá sagði Pétur tíma til kominn að draga úr opinberumafskiptum af atvinnurekstri, og gagnrýndi m.a. Akureyrarbæ fyrir þátttöku í atvinnurekstri í bænum.
Pétur sagði marga þá sem stóðu fyrir atvinnurekstri í Hafnarfirði og þar um slóðir þegar uppbygging álversins í Straumsvík stóð yfir minnast þess tíma með hryllingi. Mjög erfitt var að fá fólk til starfa við sjómennsku, fiskvinnslu, almennan iðnað og þjónustu, og af þeim sökum lentu fjölmörg fyrirtæki í miklum vandræðum. Það sama mun að sjálfsögðu gerast nú og það felast verulegir möguleikar í að bjóða fyrirtækjum upp á aðstoð við flutning og uppbyggingu úti á landi auk þess sem mörg fyrirtæki verða áreiðanlega föl," sagði Pétur. Við getum líka, hér á svæðinu, átt frumkvæði að viðræðum við erlenda aðila sem hugsanlega hafa hug á fjárfestingu í atvinnurekstri hér á landi í stað þess að láta slíkar viðræður fara í gegnum miðstýringarkerfi hins opinbera fyrir sunnan. Ég þykist vita að hjá ýmsum aðilum liggi fjölmargar fyrirspurnir sem vel gæti verið áhugavert fyrir okkur að kanna nánar."
Pétur sagði það staðreynd að flutningskostnaður og fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu væri ekki það sem réði úrslitum um hvort fyrirtækjum gengi vel eða illa. Það er fyrst og fremst það hvernig staðið er að rekstrinum, hvort starfsfólkið er hæft, stjórnendur duglegir og áræðn ir ásamt vöruþróun og markaðsstarfi í fyrirtækjunum sem ræður velgengni þeirra. Hér á þessu svæði eigum við nóg af þessu öllu og með markvissu starfi og samstilltu átaki fyrirtækja, sveitarfélaga og einstaklinga þurfum við engu að kvíða."
Dregið verði úr opinberum afskiptum
Pétur ræddi einnig í erindi sínu um opinber afskipti af atvinnurekstri, og sagði tíma til kominn að draga úr honum. Hann sagði að stöðva yrði það að fyrirtæki í erfiðleikum gætu hlaupið til ríkisins eftir aðstoð. Það á að losa fyrirtæki, sem ríkið á, undan þeirri eignaraðild, og koma þeim í hendur manna sem vilja taka áhættu og standa á eigin fótum í rekstri.
Við höfum tvö dæmi hér á Akureyri um ríkisfyrirtæki sem átt hafa við erfiðleika að etja síðustu misserin. Slippstöðin hf. er að meirihluta skipuð fulltrúum ríkisins og hefur tekið ákvörðun um að byggja skip sem ekki selst enda hefur það engan kvóta. Þetta hefur gert það að verkum að fyrirtækið á í verulegum erfiðleikum. Er nú ekki ráð að athuga hvort starfsmenn eða aðrir áhugasamir aðilar hafi áhuga á að eignast þetta fyrirtæki? Ekki verður séð að ríkið þurfi að verðleggja hlutabréfin mjög hátt þar sem fyrirtækið skilar engum arði eins og er. Það er í öllu falli óþolandi að fylgjast með því að fyrirtækið eigi í þessum erfiðleikum og að eigandinn skuli ekki tilbúinn til að gera þær ráðstafanir sem þarf." Hitt fyrirtækið sem Pétur nefndi er Álafoss, en ríkið á það að hálfu. Hann spurði hvort ekki gæti verið unnt að finna aðila sem væru tilbúnir að taka yfir verksmiðjuna á Akureyri og sjá hvort ekki væri unnt að láta hana bera sig. Miðað við þær fréttir sem borist hafa um afkomu þessa fyrirtækis er ekki ástæða til að ætla að verksmiðjan verði mjög dýr. Ég er þess fullviss að unnt sé að finna fólk sem getur annast þennan rekstur hér á Akureyri, hvað sem líður yfirlýsingum forráðamanna fyrirtækisins.
Pétur lýsti þeirri skoðun sinni að með beinni þátttöku í áhættusömum atvinnurekstri væru sveitarfélög komin töluvert út fyrir starfssvið sitt. Vilji sveitarstjórnir styrkja uppbyggingu atvinnulífs geta þau veitt fyrirtækjum almennan afslátt afgjöldum, svo sem aðstöðugjöldum í ákveðinn tíma, lóðagjöldum og fasteignagjöldum, þannig að allir geti gengið að þessu sem vísu að uppfylltum einhverjum tilteknum skilyrðum. Með því að leggja fram fé í einstök fyrirtæki með beinum framlögum er verið að ýta undir mismunun, hygla einum en ekki öðrum og ala á tortryggni. Auk þess sýnist mér að það geti í mörgum tilvikum verið þannig, að eftir eina björgunaraðgerð, komi önnur stærri nokkru seinna og smámsaman er allt of stór hluti eigna sveitarfélagsins bundinn í áhætturekstri.
Það kemur mér til dæmis mjög spánskt fyrir sjónir að Akureyrarbær skuli leggja tugi milljóna króna í hlutafé í Útgerðarfélagi Akureyringa hf. sem enga nauðsyn ber til. Það voru nógir um hituna og eftirspurnin eftir hlutabréfum í félaginu miklu meiri en hægt var að anna. Á sama tíma var bærinn að slá hundraða milljóna króna lán á fjármagnsmarkaðinum. Það er sérstakt að fylgjast með því að Akureyrarbær leggur nánast ómælt fé í uppbyggingu loðnuverksmiðju á meðan Hitaveita Akureyrar skuldar þrjá og hálfan milljarð króna og hitaveitan er ein sú dýrasta á landinu. Í framhaldi af þeim hugmyndum sem uppi eru um sölu á eignarhlut Akureyrarbæjar í Landsvirkjun, getur þá ekki verið skynsamlegt fyrir bæinn að selja hlutinn í ÚA og nota eitthvað af þeim fjármunum sem þannig losna til að auka félagslega þjónustu í bænum og efla menningarstarf? Mér þykir líkleg að slíkt geti dregið að fólk og gert bæinn skemmtilegri," sagði Pétur Reimarsson.