Þingkosningar í Pakistan: Bhutto sakar yfirvöld um stórfellt kosningasvindl Larkana í Pakistan. Reuter. BENAZIR Bhutto, fyrrum forsætisráðherra Pakistans, lýsti því yfir að vegna svindls yfirvalda hefði hún tapað þingkosningunum í landinu í gær.

Þingkosningar í Pakistan: Bhutto sakar yfirvöld um stórfellt kosningasvindl Larkana í Pakistan. Reuter.

BENAZIR Bhutto, fyrrum forsætisráðherra Pakistans, lýsti því yfir að vegna svindls yfirvalda hefði hún tapað þingkosningunum í landinu í gær. Samkvæmt fyrstu tölum sem birtar voru í gærkvöldi eftir að ljós var niðurröðun í 66 þingsæti af 217 fékk Þjóðarflokkur Bhutto 13 sæti en helstu keppinautarnir í Íslömsku lýðræðisfylkingunni 29. Átta manns féllu og hundrað særðust í átökum sem tengdust kosningunum.

Bhutto spáði því þegar hún greiddi atkvæði í heimabæ sínum Naudero í Sind-héraði að hún myndi vinna yfirburðasigur ef yfirvöld gripu ekki til kosningasvindls. En undir kvöld sagði hún að fjölda kjörkassa hefði verið stolið og kassar fullir af atkvæðum andstæðinganna hefðu verið settir í staðinn. Hún sakaði útsendara bráðabirgðastjórnar landsins umað hafa rænt fulltrúum hennar á kjörstað til að þeir gætu ekki fylgst með framkvæmd kosninganna. Aðstoðarmenn Bhutto sögðu mörg dæmi þess að kjörkössum hefði verið stolið. Bhutto var rekin frá völdum í ágúst síðastliðnum og síðan hafa hún og eiginmaður hennar verið ákærð fyrir spillingu.

Helstu keppinautar Bhutto og flokks hennar eru Nawaz Sharif og Ghulam Mustafa Jatoi, leiðtogar bandalags níu flokka, sem nefnist Íslamska lýðræðisfylkingin. Þeir berjast þó einnig innbyrðis um völdin og er búist við að ríkisstjórn á þeirra vegum yrði ótraust.

Þrjár alþjóðlegar nefndir fylgdust með framkvæmd kosninganna en ekki er búist við niðurstöðum þeirra fyrr en á morgun, föstudag. Kosningarnar fóru hægt af stað og benti það til þess að kjörsókn yrði dræm en 48 milljónir manna eru á kjörskrá.