Oleg Gordíjevskíj um helstu hjálparhellur KGB í Danmörku: Einfalt og trúgjarnt fólk sem vissi ekki að það var misnotað SOVÉSKI njósnarinn Oleg Gordíjevskíj, sem var lengi í þjónustu öryggislögreglunnar KGB og gerðist gagnnjósnari fyrir Breta á áttunda...

Oleg Gordíjevskíj um helstu hjálparhellur KGB í Danmörku: Einfalt og trúgjarnt fólk sem vissi ekki að það var misnotað

SOVÉSKI njósnarinn Oleg Gordíjevskíj, sem var lengi í þjónustu öryggislögreglunnar KGB og gerðist gagnnjósnari fyrir Breta á áttunda áratugnum, hefur gefið út bók í Bretlandi sem vakið hefur mikla athygli, ekki síst á Norðurlöndum. Í bókinni segir að Norðmaðurinn Arne Treholt hafi verið einn af fimm mikilvægustu njósnurum Sovétmanna á Vesturlöndum. Gordíjevskíj, er flúði Sovétríkin 1985 og var talinn einhver mikilvægasti gagnnjósnari Vesturveldanna, starfaði samanlagt tíu ár í Kaupmannahöfn og lýsir m.a. starfsemi KGB í Danmörku í bók sinni. Hann segir KGB hafa lagt áherslu áað hafa áhrif á almenningsálitið í landinu og hafi sovéskisendiherrann, Níkolaj Jegorítsjev, verið ánægður með árangurinn, sagt að Danir "borðuðu úr lófa" Sovétmanna. Danska blaðið Jyllandsposten fjallaði nýlega um bók Gordíjevskíjs.

Hann segir leiðtoga danska kommúnistaflokksins hafa fengið reglubundnar fyrirskipanir í sovéska sendiráðinu. "Skipununum var síðan komið áleiðis til ýmissa danskra friðarhópa og samtaka, s.s. "Samstarfsnefndar um frið og öryggi", "Friðarkvenna", "Aldrei oftar stríð" og "Burt með kjarnorkuvopnin", oft fyrir tilstuðlan forsvarsmanna í hópunum sem ekki voru kommúnistar. Hjá KGB og í sendiráðinu litum við, með réttu eða röngu, á alla þessa hópa sem kommúníska baráttuhópa í dularklæðum. Fyrstnefndi hópurinn var það reyndar tvímælalaust."

Gordíjevskíj segir að KGB hafi stutt með ráðum og dáð hugmyndina um kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd. Beitt hafi verið öllum brögðum til að hafa áhrif á skoðanir ráðamanna og fjölmiðlafólks, einkum blekkingaráróðri og ýmisskonar óbeinum mútugjöfum einsog boðsferðum til Sovétríkjanna. KGB hafi í skýrslum sínum til Moskvu staðhæft að starf stofnunarinnar hafi átt ríkan þátt í stefnu ríkisstjónar jafnaðarmanna í málefnum Atlantshafsbandalagsins sem fólst í því að skila séráliti í erfiðum málum sem snertu vígbúnað, svonefndri "footnote"-stefnu.

Bestu upplýsingarnar fengust, að sögn Gordíjevskíjs, frá fólki utan kommúnistaflokksins, og segir hann frá látnum og ekki nafngreindum þingmanni Sósíalíska þjóðarflokksins, áður kommúnista, er hafi af hugsjónaástæðum fóðrað Sovétmenn á öllu sem hann komst yfir. Níkita Khrústsjov Sovétleiðtogi hafi á sínum tíma bannað að kommúnistar á Vesturlöndum væru notaðir sem njósnarar, heppilegra væri að þeir væru úr öðrum flokkum.

Augum lokað fyrir illmennsku

Gordíjevskíj segir fæstar hjálparhellur KGB í Danmörku hafa verið raunverulega föðurlandssvikara eða útsendara. "Þetta var einfalt, trúgjarnt fólk sem hafði ekki hugmynd um að verið var að misnota það. . . Margir Danir sem unnu fyrir okkur sáu ekki eða vildu ekki sjá illmennskuna í kerfi kommúnismans. Margir stjórnmálamenn og aðrir sem móta skoðanir í landinu hafa einfaldlega aldrei skilið þetta og af eðlilegum orsökum er þetta kerfi því enn óskiljanlegra fyrir almenning. Þessi fáfræði og einfeldni hafði í för með sér hneigð til að fegra Sovétríkin og Sovétkerfið. Ég tel að dæmigert viðhorf á Vesturlöndum sé: Við erum gott og vingjarnlegt fólk. Það getur bara ekki verið rétt að hinir séu það ekki líka. Vesturlandabúar trúa á hið góða og skilja ekki að kominn er í heiminn ný manntegund, homo sovieticus, sem hegðar sér á einn hátt gagnvart útlendingum, annan gagnvart valdhöfunum og hinn þriðja gagnvart fjölskyldu og vinum og e.t.v með enn einum hætti gagnvart sjálfum sér. Á Vesturlöndum vill fólk ekki skilja að þessi nýi maður, gjörólíkur menntamönnum í Rússlandi keisaratímans, er lygari og svikari, siðlaus hugleysingi sem hlítir engum grundvallarreglum."

Oleg Gordíjevskíj. Ekki er skýrt frá dvalarstað hans í í Bretlandi af ótta við hefnd KGB.