Hætt við áætlanir um varaflugvöll NATO á Íslandi
VARAFLUGVÖLLUR Atlantshafsbandalagsins á Norður-Atlantshafi er ekki lengur á dagskrá samkvæmt bréfi til utanríkisráðherrafrá yfirmanni Atlantshafsflota bandalagsins, sem hann sendi í júlímánuði síðastliðnum. Þetta kemur fram í skriflegu svari utanríkisráðherra við fyrirspurn Geirs H. Haarde og Halldórs Blöndal, þingmanna Sjálfstæðisflokks, sem þeir lögðu fram á Alþingi 11. október síðastliðinn. "Mér finnst mikilvægt að það liggi fyrir, formlega, einsog kemur fram í þessu svari, hver niðurstaða bandalagsins er, þvíað ekki hefur ráðherrann greint frá því eftir öðrum leiðum," sagði Geir H. Haarde í samtali við Morgunblaðið í gær.
Fyrirspurn þingmannanna hljóðaði svo: "Liggur fyrir formleg niðurstaða Atlantshafsbandalagsins varðandi ósk þess um varaflugvöll á Íslandi?"
Svar utanríkisráðherra hljóðar svo: "Vitað er að um nokkurt skeið hefur farið fram endurmat á varnarviðbúnaði Atlantshafsbandalagsins í ljósi atburða í Sovétríkjunum og ríkjum Mið- og Austur-Evrópu. Viðræður um takmörkun vígbúnaðar hafa skilað umtalsverðum árangri og hafa aðildarríki bandalagsins dregið saman seglin í varnarmálum að undanförnu.
Við þessar aðstæður kemur vart á óvart að innan bandalagsins skuli þykja ástæða til að hægja á nýjum varnarframkvæmdum.
Utanríkisráðherra barst í júlí síðastliðnum bréf yfirmanns Atlantshafsflota Atlantshafsbandalagsins, SACLANT, þar sem hann greindi frá ákvörðun sinni um að hætt hefði verið við frekari áætlanir um varaflugvöll Atlantshafsbandalagsins á Norður-Atlantshafi. Í bréfinu kom fram að SACLANT mundi ekki óska eftir fjárstuðningi Mannvirkjasjóðs bandalagsins um framkvæmdir við slíkan varaflug völl í framtíðinni.
Formleg niðurstaða Atlantshafsbandalagsins varðandi ósk þess um varaflugvöll á Íslandi liggur því fyrir."