Verðbréfamarkaður Keflavíkurbær með 120 millj. skuldabréfaútboð KEFLAVÍKURBÆR hefur samið við veðdeild Sparisjóðs Keflavíkur um að annast skuldabréfaútboð bæjarins að fjárhæð 120 milljónir króna.

Verðbréfamarkaður Keflavíkurbær með 120 millj. skuldabréfaútboð

KEFLAVÍKURBÆR hefur samið við veðdeild Sparisjóðs Keflavíkur um að annast skuldabréfaútboð bæjarins að fjárhæð 120 milljónir króna. Veðdeildin keypti bréfin í einu lagi og mun þegar hafa selt þau einum stórum aðila þannig að ekki var um útboð að ræða á almennum markaði. Skuldabréfin eru með 7,5% raunávöxtun. Þau eru til allt að 10 ára og afborgunarlaus fyrstu tvö árin.

Hjörtur Zakaríasson, bæjarritari Keflavíkurbæjar, sagði í samtali við Morgunblaðið að hér væri um hagstæðari kjör að ræða en að fengjust í bankakerfinu. Vextir af bankalánum væru 8-8,5% og hækkuðu þegar um væri að ræða skulda breytingarlán þannig að með útboðinu fengjust 0,5-1,75% lægri vextir. Auk þess væru skuldabréfin til lengri tíma en bankalán.

Þetta eru miklu hagstæðari samningar en við höfum náð áður gegnum bankakerfið. Við erum að losa okkur við skammtímaskuldir sem myndast hafa vegna byggingarframkvæmda bæjarfélagsins undanfarin ár. Það verður ekki aðeins gert í gegnum þetta útboð heldur gerum við einnig ýmsar aðrar breytingar," sagði Hjörtur.