Magnús Arnar Sigtryggsson Friður sé með öllum yður, öllum sálum veitist friður. Aldrað jafnt sem aðeins fætt, andað eftir draumlíf sætt, allt, sem dó frá heimsins hörmum, hvíli rótt í friðar örmum. (Steingrímur Thorsteinsson) Í dag er til moldar borinn mágur okkar, svili og tengdasonur, Magnús Arnar Sigtryggsson. Það er svoerfitt að trúa því, að hann sé ekki lengur á meðal okkar, hann semvar svo góður við allt og alla.

Maggi var þannig maður, að alltaf var hann tilbúinn að hjálpa öðrum og aldrei hlífði hann sjálfumsér, þótt hann þyrfti þess með.

Áhugamál átti hann fjölmörg, en það sem stóð honum næst var eflaust íþrótta- og æskulýðsmál. Það kom því ekki á óvart að hann yrði einn af frumherjunum hjá Íþróttafélaginu Leikni í Breiðholti. Þar starfaði hann af lífi og sál í mörg ár og var vinsæll meðal barnaog unglinga og varð virkilegur vinur þeirra, enda hafði hann unun af því að starfa með þeim. Annað áhugamál Magga var brids. Hann spilaði hjá Sjálfsbjörg í mörg ár og vann til margra verðlauna.

Síðustu árin helgaði Maggi Íþróttafélagi fatlaðra alla krafta sína og var formaður þess er hann lést.

Maggi kynntist systur okkar, Louise Biering, fyrir 25 árum. Þá voru þau aðeins 17 ára gömul. Þau gengu í hjónaband 18. maí 1968. Maggi og Lúlla eignuðust fjögur börn, elst er Sigríður Elísabet hárskeri, fædd 17. desember 1966, húner gift Kjartani Haraldssyni, Sigtryggur Arnar bílstjóri, fæddur 15. mars 1969, unnusta hans er Magnea Kristín Ólafsdóttir. Thelma nemi, fædd 15. janúar 1975, og yngstur er Styrmir, fæddur 24. október 1984. Maggi og Lúlla voru ætíð mjög samhent og lifðu hvort fyrir annað eins og best kom framí veikindum þeirra.

Elsku Lúlla og börn. Við biðjum góðan Guð að gefa ykkur styrk og huggun. Guð blessi minninguna um góðan dreng.

Bertha og Arnór, Guðrún og Hrafn, Helga og Sveinn, Moritz og Sidsel og Sigríður Biering.