Sigurbjartur Vilhjálmsson Sigurbjartur Vilhjálmsson lést

18. þ.m. tæplega 82 ára að aldri. Hann lærði trésmíðaiðn og vann allan sinn starfsaldur við trésmíðar. Hann var einn þeirra 12 félaga sem stóðu að stofnun Skipasmíðastöðvarinnar Drafnar hf., árið 1941 en 10 stofnendanna voru iðnaðarmenn. Sömu aðilar stofnuðu síðan Byggingafélagið Þór hf. Skömmueftir stofnun Drafnar hf., hóf Sigurbjartur störf hjá fyrirtækinu og vann alla tíð síðan hjá fyrirtækjunum báðum og hafði jafnan verkstjórn á hendi. Hann var góður smiður, vandvirkur og afkastamikill. Hann var mjög hagsýnn og góður verkstjóri og var einkar laginn á að stilla alla þætti verka saman þannig að þau gengu vel og snurðulaust. Og það var eins og þetta gerðist meira og minna af sjálfu sér og þeir sem hann þurfti að vinna með og stjórna urðu samhentur hópur sem kappkostaði að koma verkum áfram og þau væru vel af hendi leyst.

Sigurbjartur sat í stjórnum félaganna um langt árabil. Hann hafði mikinn áhuga á því að hagur þeirra yrði sem bestur og lagði mikið af mörkum til að svo mætti verða. Hann var ávallt boðinn og búinn að ganga í þau verk sem leysa þurfti og var það ekki dregið á langinn.

Sigurbjartur var hógvær maður og traustur. Hann var léttur í lund og skapgóður og því gott að eiga hann að vinnufélaga. Góður samstarfsmaður, góður og heilsteyptur drengur er kvaddur með þökk í huga. Blessun fylgi minningu hansog við biðjum honum velfarnaðar á nýjum vegum. Eftirlifandi konu hans, Þuríði Magnúsdóttur, og fjölskyldu flytjum við innilegar samúðarkveðjur.

Páll V. Daníelsson