Bjarnheiður Hallsdóttir
Bjarnheiður Hallsdóttir
Bjarnheiður Hallsdóttir fæddist á Akranesi 11. maí 1967. Hún lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskóla Vesturlands 1987 og fór í nám í rekstrarhagfræði með sérhæfingu í ferðaþjónustu í Fachhochschule München, það sem hún lauk prófi 1994. Hún hefur starfað við ferðaþjónstu og er nú framkvæmdastjóri Katla Travel á Íslandi. Bjarnheiður á tvö börn.
Bjarnheiður Hallsdóttir fæddist á Akranesi 11. maí 1967. Hún lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskóla Vesturlands 1987 og fór í nám í rekstrarhagfræði með sérhæfingu í ferðaþjónustu í Fachhochschule München, það sem hún lauk prófi 1994. Hún hefur starfað við ferðaþjónstu og er nú framkvæmdastjóri Katla Travel á Íslandi. Bjarnheiður á tvö börn.

Á morgun klukkan 16 verður haldið í Norræna húsinu málþing á vegum FHF (Félags háskólamenntaðra ferðamálafræðinga). Varaformaður félagsins er Bjarnheiður Hallsdóttir. Hún var spurð hvað ætti að fjalla um á málþinginu? "Við ætlum að fjalla um áhrif staðsetningar innanlandsflugvallar á Stór-Reykjavíkursvæðinu á hinar ýmsu tegundir ferðaþjónustu."

-Skiptist þið á skoðunum um hvort færa eigi Reykjavíkurflugvöll eða leggja hann niður?

"Þetta eru í raun ekki skoðanir okkar heldur hagsmunaaðila í hinum ýmsu greinum ferðaþjónustu. Við erum að reyna með þessu málþingi að varpa ljósi á hvort það yrði í raun slæmt fyrir ferðaþjónustuna í heild sinni að færa Reykjavíkurflugvöll burt úr miðbæ Reykjavíkur - ef af yrði."

-Hvert er þitt álit?

"Mitt álit er það að það þurfi að rannsaka þetta. Það ábyrgðarleysi að varpa fram skoðun á þessu að skoða málið nánar. Ég tel að ef innanlandsflug yrði t.d. flutt til Keflavíkurflugvallar myndi uppbyggingin í skipulagningu ferða innanlands breytast mikið og eflaust myndu opnast nýir möguleikar ósjálfrátt, t.d. að fljúga beint út á land með ferðamenn í stað þess að þurfa að fara með þá til Reykjavíkur þar sem vitað er að mikill "flöskuháls" í formi ónógs framboðs gistirýmis er farið að há ferðaþjónustu verulega. Þegar suðurstrandarvegur sem á að tengja saman Suðurland og Reykjanes verður opnaður mun enn ein vídd verða til og gífurlegir möguleikar opnast fyrir Suðurland."

-Hvað verður fjallað um nánar til tekið á málþinginu?

"Samgönguráðherra, Sturla Böðvarsson, mun ávarpa þingið. Úlfar Antonsson frá Úrvali-Útsýn fjallar um hvaða áhrif flutningur innanlandsflugvallar gæti hugsanlega haft á skipulagningu ferða útlendinga um Ísland. Kristófer Ragnarsson frá Samvinnuferðum-Landsýn fjallar um áhrif á ferðir flutnings innanlandsflugs á skipulagningu ferða Íslendinga til útlanda. Árni Gunnarsson frá Flugfélagi Íslands fjallar um áhrif flutnings innanlandsflugsins á ferðalög Íslendinga innanlands og Pétur Snæbjörnsson frá Hótel Reynihlíð mun viðra skoðun ferðaþjónustuaðila á landsbyggðinni."

-Hvað finnst ferðaþjónustfólki á landsbyggðinnu um þetta mál?

"Sumir sjá mikla möguleika í því að innanlandsflugið verði flutt til Keflavíkur en aðrir telja það andstætt hagsmunum sínum. Þess vegna er mikilvægt að rannsaka þetta mál á hlutlausan og vísindalegan hátt."

-Hvert er tilefni þessa málþings?

"Tilefnið var það að okkur finnst nokkuð einsleit skoðun vera á því að það sé örugglega neikvætt fyrir ferðaþjónustuna að flugvöllurinn fari úr Vatnsmýrinni. Okkur fannst ástæða til að víkka þessa umræðu örlítið út og benda á það að ferðaþjónusta er víðtæk atvinnugrein og það eru margir flokkar í henni. Það sem er gott fyrir hluta ferðaþjónustunnar er ekki gott fyrir aðra hluta. Þetta flugvallarmál snýst ekki bara um lóðir í Reykjavík heldur heila atvinnugrein, ferðaþjónustuna."

-Fyrir hvaða hluta ferðaþjónustunnar kæmi sér vel að völlurinn yrði áfram þar sem hann er?

"Án þess að það hafi verið rannsakað get ég ímyndað mér að það kæmi sér vel fyrir ferðalög Íslendinga innanlands. Ég get fallist á þau rök að það sé þægilegt fyrir fólk utan af landi að geta lent í miðbæ Reykjavíkur til að sinna sínum erindum þar. Einnig er það jákvætt fyrir skipulagningu dagsferða með flugi fyrir erlenda ferðamenn. En hins vegar megum við ekki gleyma að það eru aðeins 50 kílómetrar milli Keflavíkur og Reykjavíkur sem þykir ekki mikið við svipaðar aðstæður erlendis. Við þurfum að vega það og meta hvort við séum fyrir þessa hagsmuni tilbúin að reka tvo fullkomna flugvelli með 50 kílómetra millibili hjá 270 manna þjóð."

-Hverjir í ferðaþjónustunni telur þú að hagnist á að færa flugvöllinn?

"Án rannsóknar tel ég að ef innanlandsflug yrði fært til Keflavíkur myndi líklega ferðaþjónusta á Suðurnesjum fá byr undir báða vængi, sömuleiðis ferðaþjónusta á Suðurlandi, þá gæti fólk farið beint eftir suðurstrandarvegi á Suðurland í stað þess að hafa viðkomu í Reykjavík. Síðan opnast möguleiki á beinu tengiflugi út á landsbyggðina sem væntanlega kemur sér vel fyrir fólk í ferðaþjónustu úti á landi og fyrir landsbyggðarfólk sem er að koma eða fara til útlanda."

-Staðsetning flugvallar fyrir höfuðborgarsvæðið skiptir sem sagt mjög miklu máli fyrir ferðaþjónstu í landinu?

"Já, vissulega gerir hún það. Sérstaklega hefur staðsetningin áhrif á allt innra skipulag ferðaþjónustunnar sem yrði endurskipuleggja ef innanlandsflugið færðist til Keflavíkur. Hvort það yrði jákvætt eða neikvætt þegar upp væri staðið - það stendur skrifað í skýin."