29. mars 2001 | Innlendar fréttir | 156 orð | 1 mynd

Beðinn að dreifa ösku látinnar konu

ÍSLANDSPÓSTI barst óvenjulegt bréf frá Ameríku fyrir skömmu. Þegar bréfið, sem stílað var á Íslandspóst, var opnað kom í ljós að í því var lítill poki sem innihélt ösku.
ÍSLANDSPÓSTI barst óvenjulegt bréf frá Ameríku fyrir skömmu. Þegar bréfið, sem stílað var á Íslandspóst, var opnað kom í ljós að í því var lítill poki sem innihélt ösku. Í meðfylgjandi bréfi segir að í pokanum sé að finna ösku látinnar konu, Veru Andersen að nafni.

Vera hafi alla tíð þráð að ferðast um heiminn en hafi aldrei átt kost á því. Afkomendur hennar hafi því ákveðið að senda öskuna til Íslands og biðja þeir Íslandspóst í bréfinu vinsamlegast að dreifa öskunni á fallegum stað á Íslandi, að sögn Írisar Björnsdóttur, deildarstjóra hjá Íslandspósti.

Ættingjar konunnar hafa ekki haft frekara samband við Íslandspóst, að hennar sögn.

"Við getum okkur þess til að þeir hafi sent þetta víðar um heiminn. Þetta er sannarlega óvenjuleg sending en við lítum ekki svo á að það sé verið að gabba okkur. Við ætlum að verða við þessari ósk og fara með öskuna á einhvern fallegan stað og dreifa henni þar," sagði Íris.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.