Bænin er samtal við Guð og hefur verið líkt við lykil að náð hans. Guðni Einarsson leiddi hugann að bæninni og áhrifum hennar.

Bænin má aldrei bresta þig. Búin er freisting ýmislig. Þá líf og sál er lúð og þjáð, lykill er hún að drottins náð.

"En þannig skuluð þér biðja: Faðir vor, þú sem ert á himnum. Helgist þitt nafn, til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni. Gef oss í dag vort daglegt brauð. Fyrirgef oss vorar skuldir, svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum. Og eigi leið þú oss í freistni, heldur frelsa oss frá illu. Því að þitt er ríkið, mátturinn og dýrðin að eilífu, amen."

Matteus 6:9-13.

Margir leggjast ekki til svefns fyrr en þeir hafa farið með kvöldbæn, oft bænavers sem þeir lærðu í bernsku, eða bænina sem Jesús kenndi lærisveinum sínum og vitnað er til hér að ofan. Eins fara margir með bæn í byrjun dags. Aðrir leita ekki til bænarinnar nema þegar eitthvað fer úrskeiðis og þeir standa frammi fyrir óviðráðanlegum vanda.

Í bæninni eigum við samfélag við Guð því bænin virkar í báðar áttir, eða eins og nútíminn orðar það, hún er gagnvirk. Við getum gert Guði kunnar óskir okkar og þarfir, beðið um vernd hans og velþóknun, falið honum áhyggjur og vanda. Margir hafa fengið bænasvör, sem staðfesta að Guð heyrir bænir. Eins gott og það er að biðja þá er ekki síður mikilvægt að þakka og læra að hlusta, vera opin fyrir því sem Guð vill segja við okkur. Hann talar bæði í orði sínu og anda.

Jesús var iðinn við bænagjörð og hvatti til bæna. Af lestri guðspjallanna má ráða að hann hafi undirbúið mikilvægar ákvarðanir og átakastundir í bæn. Hann kenndi lærisveinum sínum bænina Faðir vor og má margt af henni læra um bænagjörð.

Bænin hefst á því að ávarpa Guð sem föður á himnum, sá sem biður kemur fram fyrir hann eins og barnið hans. Við vitum að jarðneskir feður, sem þykir vænt um börnin sín, vilja allt fyrir þau gera svo lengi sem það er þeim til góðs. Okkar himneski og kærleiksríki faðir vill miklu fremur svara bænum barna sinna.

Mönnum er gjarnt að biðja um það sem þá langar í, að þeirra vilji verði, en í Faðir vorinu er okkur kennt að biðja þess að vilji Guðs verði, jafnt á jörðu sem á himni. Það er mikil viska í því að beygja sig fyrir vilja Guðs. Hann er alvitur og sér heildarmyndina á meðan mennirnir eru takmörkum háðir. Sá sem biður og beygir sig fyrir hans vilja verður að gera sér ljóst að Guð svarar oft á óvæntan hátt. Hann á það jafnvel til að segja nei!

Bænin um daglegt brauð sýnir að Guði er ekkert óviðkomandi, honum er annt um afkomu okkar og líkamlega velferð. Fyrirgefningarbænin kennir okkur að biðja Guð fyrirgefningar á skuldum okkar, syndum og afbrotum. Ekki síður að við eigum að fyrirgefa öðrum það sem þeir hafa gert á okkar hlut.

Okkur er kennt að biðja um varðveislu Guðs frá því vonda, björgun frá hinu illa. Loks endar bænin á tilbeiðslu til Guðs þar sem við viðurkennum vald hans og mátt og gefum honum dýrðina að eilífu.

Kirkjur landsins eiga að vera bænahús. Í hverri guðsþjónustu er farið með bænir og beðið fyrir bænarefnum. Auk þess eru oft haldnar sérstakar bænastundir. Það sem af er þessu ári má til dæmis nefna árlega bænaviku á vegum Samstarfsnefndar kristinna trúfélaga þegar haldnar eru til skiptis bænastundir í ýmsum kirkjum. Einnig sérstakt bænaátak í sjö vikur í vetur á vegum nokkurra kristinna safnaða á höfuðborgarsvæðinu. Þá er alþjóðlegur bænadagur kvenna árviss viðburður í byrjun marsmánaðar.

Morgunblaðið birti viðtal við sr. Hjalta Guðmundsson er hann hætti prestskap í Dómkirkjunni fyrr í vetur. Þar minntist hann á vikulegar bænastundir í kirkjunni, sem haldnar eru í hádeginu á miðvikudögum, og sagði m.a.: "Það eru yndislegar stundir. Þangað kemur fólk með bænarefni sín. Við erum með lista yfir fólk sem við biðjum reglulega fyrir. Þar höfum við oft fengið að þreifa á bænheyrslu Guðs." Vikulegar bænastundir af þessu tagi eru haldnar í mörgum kirkjum hérlendis.

Hvers vegna öll þessi áhersla á bæn? Hallgrímur Pétursson svarar þeirri spurningu í versinu:

Bænin má aldrei bresta þig.

Búin er freisting ýmislig.

Þá líf og sál er lúð og þjáð,

lykill er hún að drottins náð.

Bænin er lykill, verkfæri sem opnar áður læstar dyr. Verum ófeimin við að nota þá guðsgjöf sem bænin er og minnumst orða Jesú er hann sagði: "Og hvers sem þér biðjið í mínu nafni, það mun ég gjöra, svo að faðirinn vegsamist í syninum. Ef þér biðjið mig einhvers í mínu nafni, mun ég gjöra það."