Sri Chinmoy mundar penslana.
Sri Chinmoy mundar penslana.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Málverk indverska listamannsins Sri Chinmoy skipta að talið er tugum þúsunda. Eymundur Matthíasson fjallar um list þessa afkastamikla málara, sem sýnir nú örlítið brot af verkum sínum í Ráðhúsi Reykjavíkur.

YFIRSTANDANDI sýning á verkum Sri Chinmoy er forvitnileg fyrir margra hluta sakir; fyrir það fyrsta er ekki algengt að myndir indverskra listamanna beri fyrir augu okkar Íslendinga en ekki síður er þetta jafnframt fyrsta sýning á myndum Sri Chinmoys hér á landi, en hann hlýtur að mega telja einn af afkastameiri málurum sem uppi eru í dag, því myndir hans eru ekki taldar í þúsundum heldur tugþúsundum. En það sem er kannski einna forvitnilegast við listamanninn er nálgun hans við myndlistina sem er með nokkuð öðrum hætti en tíðkast. Einn listmálari hafði á orði eftir að hann var búinn að skoða sýninguna að honum fyndist hún "glaðleg og björt og barnsleg" því að slíka harmóníu í litum sæi hann eiginlega aldrei nema hjá börnum. Sri Chinmoy málar hratt, og hreyfing og lífsgleði lýsir af hverri mynd.

Að vera vakandi í augnablikinu

Þeir sem hafa lesið bókina "Musashi" eftir japanska rithöfundinn Eiji Yoshikawa muna sjálfsagt eftir atriði þar sem tveir samúræjar standa andspænis hvor öðrum í einvígi. Hvorugur hreyfir legg né lið heldur stara þeir hvor á annan, en eftir hálftíma eða svo byrjar svitinn að leka niður eftir öðrum þeirra og nokkru seinna gefst hann upp. Menn geta spurt hvers konar "einvígi" þetta eiginlega sé þar sem vopnin virðast ekki skipta miklu máli. Samúræjar eða stríðsherrar Japans fyrr á öldum urðu fyrir miklum áhrifum frá Zen hugsun og lífsstíl en orðið Zen (komið frá zazen í japönsku: að sitja og hugleiða) er þýðing á kínverska orðinu ch'an sem er aftur komið frá indverska orðinu dhyana sem þýðir hugleiðsla. Það sem skiptir höfuðmáli í Zen er að vera vakandi í augnablikinu, vera hér og nú, sem þýðir í raun að búa yfir fullkominni einbeitingu. Í bardagalistum Japans þessara ára þýddi það að hugsunin var of hæg, ef þú þurftir að hugsa um það sem þú varst að gera, eða með öðrum hætti hleypa huganum að, varstu í raun búinn að tapa þar sem andstæðingurinn var búinn að höggva af þér höfuðið áður en þú gast áttað þig á hvað var að gerast.

Óútskýranlegur veruleiki

Hér erum við í raun komin inn á ákveðinn veruleika í Zen (sem og annarri hugleiðslu) sem var aldrei reynt að útskýra sérstaklega þar sem útskýringin takmarkaði þann veruleika sem hún átti að útskýra, þ.e.a.s. hugurinn gat ekki gripið eitthvað sem var, eðli málsins samkvæmt, handan hugans. Því var frekar vísað í hann með skírskotunum ýmiss konar, hvort sem það var í ljóðum, blómaskreytingum, myndum eða kalligrafíu (sem eru teiknaðar myndir eða málaðar með bleki af myndletri Japana. Ófullkomin íslensk þýðing á orðinu er skrautskrift). Margir zen-meistarar urðu frægir í Japan og Kína fyrir myndir sínar og kalligrafíu. Myndirnar og myndletrið sem þeir skildu eftir sig skiptu oft þúsundum og hafa verið mjög eftirsóttar fram á þennan dag. Í myndunum, sem eru venjulega einfaldar að allri gerð, finna menn hvernig pensildrættirnir ná einhverjum óskýranlegum frumleika en þær voru iðulega unnar hratt og án nokkurrar umhugsunar.

Litbrigði innri veruleika

Í myndum Sri Chinmoy kemur þessi óskýranlegi frumleiki vel fram því eins og áður sagði vinnur hann myndir sínar hratt og án umhugsunar og notar liti sem eins og syngja út úr myndinni. Nálgun hans er frá hinni andlegu hlið en Sri Chinmoy hefur ávallt lagt áherslu á hina andlegu vídd tilverunnar og þá möguleika sem hver og einn hefur til að vaxa inn í innri víddir mannsandans og ná þar áþreifanlegri einingu við andlegan veruleika eða sitt æðra sjálf. Frá sínu æðra sjálfi getur hann síðan litið á heiminn með nýrri innsýn og þroska. List getur verið leit mannsins að meiningu í tilveru sinni en á hinn bóginn getur hún einnig verið túlkun, þar sem innri andlegur skilningur birtist í myndmáli listamannsins eins og hjá zen-meisturum eða öðrum meisturum hugleiðslunnar.

"Uppsprettulist"

Hér er því kominn lykillinn að list Sri Chinmoy þar sem hann leitast við að koma innri veruleika á framfæri í gegn um list sína. Hann kallar list sína Jharna-Kala eða list frá uppsprettunni. Hver mynd er eins og óheft flæði sem kemur innan frá. Gæði myndanna ráðast ekki af tímanum sem í þær eru lagðar eða þeirri hugmyndavinnu sem að baki býr heldur er það einbeitingin sem öllu skiptir, að ná litbrigðum lífsorkunnar og lífsgleðinnar. Einbeitingin er algjör og litir, eins og lifandi sýnir, spretta fram á pappírinn. Notkun Sri Chinmoys á heimatilbúnum svömpum, penslum og öðrum áhöldum til að mála með lýsir barnslegri þrá til að koma litadýrðinni og þessum óútskýranlega frumleika á framfæri.

Sýningin á verkum Sri Chinmoy stendur yfir í Ráðhúsi Reykjavíkur til 8. apríl. Hún er opin virka daga frá 8-19 og um helgar frá 12-18.

Höfundur er framkvæmdastjóri Betra umhverfis.