STUÐNINGSMANNAKLÚBBAR íþróttaliða hafa hlotið skemmtileg nöfn, sumir hverjir. Víkverja er kunnugt um Hauka í horni, sem eru vitaskuld áhangendur Hauka í Hafnarfirði, og nýverið rakst Víkverji á miða frá áhangendum handboltaliðs Fram.

STUÐNINGSMANNAKLÚBBAR íþróttaliða hafa hlotið skemmtileg nöfn, sumir hverjir. Víkverja er kunnugt um Hauka í horni, sem eru vitaskuld áhangendur Hauka í Hafnarfirði, og nýverið rakst Víkverji á miða frá áhangendum handboltaliðs Fram. Þeir kallast, að sjálfsögðu, Framstuðarar!

FYRIR svörum í dálkinum Maður vikunnar í Víkurfréttum, sem gefið er út í Keflavík, sat nýlega Sverrir Vilbergsson, hafnarstjóri í Grindavík. Víkverja fannst skemmtileg tilbreyting að sjá, sérstaklega í einu svari Sverris, að ekki setja sig allir í stellingar vegna jafnréttis sem svo mikið er rætt um þessi misserin.

Meðal þess sem Sverrir er spurður um er: Uppáhaldsilmur? Og hann svarar: Þegar konan kallar matur.

VÍKVERJI brá sér í kvikmyndahús á dögunum, nánar tiltekið í Regnbogann og sá frönsku myndina Chocolat, sem reyndar er leikin á ensku.

Skemmst er frá því að segja að Víkverji skemmti sér afbragðsvel, en hann er einmitt sérlega hrifinn af myndum eins og þessari, þar sem ekki er að finna neinar byssur, engan hávaða eða læti. Óhætt er að mæla með myndinni þótt vissulega sé hún ekki óaðfinnanleg.

Víkverji var einnig afskaplega hrifinn af rúmensku kvikmyndinni Galni gesturinn (Gadjo dilo) frá 1999 á RÚV síðastliðið sunnudagskvöld. Þar sagði frá ungum Frakka sem var á ferð um Rúmeníu í leit að söngkonu sem pabbi hans hélt upp á, eins og sagði í dagskrárkynningu. Þetta var frábær mynd; reyndar engir byssuhvellir, engir eltingaleikir á bílum - en nóg af "daglegu lífi"; venjulegu fólki við leik og störf.

Víkverji gæti þegið meira af myndum sem þessari, um venjulegt fólk. Myndir frá Norðurlöndunum, Frakklandi, Ítalíu, Spáni eða Austur-Evrópulöndum. Að ekki sé talað um Suður-Ameríku. Það er auðvitað margtuggin klisja, en engu síður staðreynd, að heimsbyggðinni er boðið upp á allt of mikið af bandarískum kvikmyndum.

VÍKVERJI hlustar talsvert á Rás 1 ríkisútvarpsins. Þar er boðið upp á margvíslegt úrvalsefni, starfsfólkið er ekkert sérstaklega að flýta sér eins og virðist stundum raunin á öðrum stöðvum, hlustandinn er ekki truflaður með neinum pítsutilboðum eða leikjum, heldur getur gengið að góðri dagskrá vísri. Dagskráin er að mestu leyti frábær, að mati Víkverja; þar er að finna góða tónlistarþætti, fróðleik og ýmislegt fleira. En sumt virðist engu að síður hálfpartinn barn síns tíma. Úrelt eða jafnvel gagnslaust. Eins og til dæmis þetta, sem Víkverji heyrði einhvern morguninn: Lagarfoss fer í dag frá Vestmannaeyjum til Immingham og Rotterdam... Er einhver að hlusta á útvarpið kl. 10.15 árdegis sérstaklega til að fylgjast með ferðum vöruflutningaskipa? Þetta eru eflaust leifar frá þeim tíma þegar enginn hafði aðgang að textavarpi eða Netinu en Víkverji er næsta viss um að þessi þjónusta útvarpsins þjónar litlum tilgangi í dag.

Og strax í kjölfarið var svo lesið gengi gjaldmiðla. "...sterlingspund 131 króna og 88 aurar, japanskt jen 0,758 krónur..." Hefur einhver gagn af því þegar upplýsingar af þessu tagi eru lesnar upp jafn hratt og raun ber vitni?

VÍKVERJI fór á dögunum í Skólavörubúðina, sem nú er til húsa á Skemmuvegi í Kópavogi. Langt er síðan komið var síðast í verslunina og þá var hún annars staðar, en Víkverji verður að segja að bæði honum og börnum hans fannst hálfgert ævintýri að koma á staðinn. Vöruúrval er svo fjölbreytt í versluninni að hrein unun er að ganga þar um, skoða og grúska.