[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Enn berast fregnir af breytingum á veiðitilhögun í íslenskum veiðiám, en mjög hefur verið í tísku síðustu misseri að banna að meira eða minna leyti maðkveiði.

Enn berast fregnir af breytingum á veiðitilhögun í íslenskum veiðiám, en mjög hefur verið í tísku síðustu misseri að banna að meira eða minna leyti maðkveiði. Í stöku tilvikum hefur meira að segja verið gengið svo langt að lögbinda sleppingu á veiddum fiski. Nú hafa svokallaðar Nesveiðar í Laxá í Aðaldal bæst við, þar hefur maðkveiði verið bönnuð síðla í ágúst, eftir útlendingatímann. Spónn er þó enn leyfður, en sannast sagna er það maðkurinn sem hefur gefið grimmt í þessum síðustu hollum sumarsins í Nesi, oft um og yfir 100 fiska á 10 dögum, m.a. marga af stærstu löxum sumarsins. Bandaríkjamenn veiða mest allt sumarið í Nesi, nota aðeins flugu og flestir sleppa flestum eða öllum löxum sínum. Á eftir hafa síðan komið Íslendingar sem hafa rótað upp fiski og drepið þá flesta. Nú breytist fyrirkomulagið og er ólíklegt að íslensku hollin verði með aðrar eins veiðitölur og tíðkast hafa síðustu árin.

Sportvörugerðin flytur

Sportvörugerðin, heildverslun fyrir stanga- og skotveiðimenn, sem verið hefur til húsa í Mávahlíð 41 í hálfa öld, flytur starfsemi sína í Skipholt 5 nú um helgina. Fyrirtækið stofnaði Halldór Erlendsson á sínum tíma, en hann lést fyrir mörgum árum og hefur sonur hans, Ásgeir Halldórsson, haldið merkinu á lofti alla tíð síðan. Að sögn Ásgeirs er ástæðan fyrir búferlaflutningunum sú að húsnæðið í Skipholtinu henti starfseminni betur. Sportvörugerðin hefur um árabil flutt inn mörg af þekktustu vörumerkjunum á sínu sviði og má nefna Cortland og Mitchell.

Verslunin Útivist og veiði, Síðumúla 11, verður með Grænlandskynningu fimmtudaginn 5. apríl næstkomandi og stendur hún frá klukkan 17-21. Kynninguna sjá um þeir Gunnar Óli Hákonarson, Þórhallur Borgarsson og Jóhann Vilhjálmsson, sem allir hafa starfað sem leiðsögumenn veiðimanna á Grænlandi síðustu árin. Það er Stangaveiðifélagið Lax-á, sem stendur að kynningunni, en fyrirtækið efnir á komandi sumri til veiðiferða til Grænlands. Aðalveiðidýrin eru hreindýr og sjóbleikja og munu kapparnir vera með skyggnusýningar og mergjaðar frásagnir af aflabrögðum og veiðiskap.

Sleppa slápum...

Stangaveiðivertíðin hefst í dag, sunnudag, nokkrar sjóbirtingsár á Suðurlandi verða opnaðar þá svo og nokkur bleikjusvæði í Soginu og einnig vestur í Hítará. Veiðiskapur á þessum árstíma ber yfirleitt nokkurn keim af veðurfari, en það fer aldrei hjá því að sumir eru heppnir og setja í fisk þótt vatnshiti sé lágur og veður oft válynd.

Mjög ríkt í umræðunni í seinni tíð hefur verið að hvetja veiðimenn til að sýna hógværð við vorveiðarnar og þá sérstaklega á sjóbirtingsslóðum. Mest af birtingnum á þessum árstíma er horaður hrygningarfiskur frá síðasta hausti. Fiskur á leið til sjávar til að fita sig og ganga aftur í ána. Flestir eru sammála um að þessi fiskur sé hið versta óæti og rétt að sleppa fiskinum aftur lifandi. Þá er auðvitað æskilegast að hann sé veiddur á flugu. Í Soginu veiða menn staðbundna bleikju og sjóbleikju í Hítará. En í báðum ánum hafa verið brögð að því að hoplaxar hafi tekið agnið og er beinlínis skylt að sleppa þeim. Þeir skaða sig stundum á önglinum og eru dauðans matur og við því lítið að gera, en á hinn bóginn hefur það heyrst að einstakir veiðimenn hafi beinlínis gert út á hoplaxa með því að egna með stórum spónum sem engar líkur eru til að bleikja taki.