Árdís Sigurðardóttir
Árdís Sigurðardóttir
Árdís Sigurðardóttir fæddist 5. ágúst 1966 í Reykjavík. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1986 og BA-prófi í sænsku og stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands 1995. Hún hefur starfað að mestu við norrænt samstarf, m.a. sem verkefnastjóri hjá Norræna húsinu og hjá Norræna félaginu í Svíþjóð og ritstjóri Ozon sem var norrænt unglingablað. Nú er hún ráðgjafi hjá Kynningu og markaði.
Árdís Sigurðardóttir fæddist 5. ágúst 1966 í Reykjavík. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1986 og BA-prófi í sænsku og stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands 1995. Hún hefur starfað að mestu við norrænt samstarf, m.a. sem verkefnastjóri hjá Norræna húsinu og hjá Norræna félaginu í Svíþjóð og ritstjóri Ozon sem var norrænt unglingablað. Nú er hún ráðgjafi hjá Kynningu og markaði.

Ráðstefnan Hvers virði er ímynd? Ráðstefna um almannatengsl, samskiptatækni, ímynd og ásjónu verður haldin í tilefni af fimmtán ára afmæli Kynningar og markaðar að Grand Hótel í Reykjavík og hefst kl. 13 þriðjudaginn 3. apríl. Árdís Sigurðardóttir hefur haft umsjón með undirbúningi þessarar ráðstefnu.

"Markmiðið er að vekja athygli á mikilvægi almannatengsla, upplýsinga og kynningarmála fyrir fyrirtæki, stofnanir og samtök og það má segja að þetta mikilvægi hafi aukist í takt við hraða þróun upplýsingasamfélagsins. Við erum með fyrirlesara sem benda á mikilvægi þess að rétt sé sagt frá ef eitthvað kemur fyrir því erfitt er upplýsingasamfélagi samtímans að halda staðreyndum leyndum."

-Hverjir eru þessir fyrirlesarar?

"Jón Hákon Magnússon mun halda erindi sem hann nefnir Þegar vonda fréttin dynur yfir. Ritstjórinn Styrmir Gunnarsson mun halda erindi sem hann kallar Fjölmiðlar í breyttu umhverfi. Þeir sem munu tala frekar um ímyndir eru Anton Stockwell frá Cohn & Wolfe sem segir frá hvernig tókst að byggja upp ímynd lágfargjaldaflugfélagsins Go, hvernig tókst að skapa ímynd þess félags með almannatenglsum án þess að farið væri út í stórvægilega auglýsingaherferð. Þóranna Jónsdóttir sem er aðjúnkt við Háskólann í Reykjavík heldur fyrirlestur sem hún nefnir Hvað er ímynd - hvers vegna þurfum við ímynd? Þorlákur Karlsson framkvæmdastjóri Gallup mun fjalla um mælanlega ímynd fyrirtækja og mikilvægi hennar. Páll Magnússon framkvæmdastjóri samskipta- og upplýsingasviðs Íslenskrar erfðagreiningar flytur erindið Ímynd og ásjóna - ásköpuð eða áunnin. Einar Solheim framkvæmdastjóri Vefsýnar fjallar um Ímynd og Netið. Elín Hirst stýrir hringborðsumræðum að loknum þessum erindum."

-Er mikil þörf á umræðum um þetta efni?

"Já, það hefur ítrekað komið í ljós að undanförnu að fyrirtæki og stofnanir geta hreinlega "rústað sinni ímynd" með því að segja ekki rétt og satt frá og halda að þeim leyfist slíkt í krafti sterkrar ímyndar. Þessum málum ætlum við að velta fyrir okkur."

-En hvar liggja mörkin - er ástæða hjá fyrirtækjum og stofnunum að segja frá öllu sem gerist?

"Ég er ekki að segja að fyrirtæki eigi að leggja allt sem gerist innan þeirra á borðið en svara hins vegar sannleikanum samkvæmt þeim spurningum sem vakna og snerta almenning. Ella geta farið af stað alls konar sögusagnir sem erfitt getur að leiðrétta og að endurvinna þá ímynd sem fyrirtækið hafði skapað sér en lætur undan síga þegar svona aðstæður koma upp."

-Er vaxandi þrýstingur frá almenningi að fá skýr svör og upplýsingar strax?

"Ég tel að svo sé. Fréttir eru komnar inn á Netið nokkrum mínútum eftir að atburðir eiga sér stað. Tölvupóstur berst manna á milli á svipstundu. Ef vilji er fyrir hendi að skaða ímynd fyrirtækja þá er það tiltölulega auðvelt. Það er hægt að koma af stað fjöldasendingum og sögusögnum á Netinu áður en við er litið, þess vegna þarf að svara fljótt og vera meðvitaður um þetta breytta umhverfi sem við búum í."

-Hver er markhópur ráðstefnunnar?

"Það eru stjórnendur fyrirtækja, upplýsinga- og markaðsfulltrúar og aðrir áhugasamir jafnt meðal almennings sem innan fyrirtækja. Fólk getur skráð sig á netfangið ardis@kom.is og einnig fengið upplýsingar á heimasíðu www.kom.is um kostnað og fleira."

-Eru fyrirtæki almennt meðvituð um mikilvægi ímyndar sinnar?

"Ég held að það sé æði misjafnt. Sumar halda að góð ímynd nægi og telja að ekki þurfi að hlúa að henni og hugsa meira um hana. Þeir átta sig ekki á hvað utanaðkomandi áreiti hefur aukist. Segja má að í vissum skilningi séu fyrirtæki og jafnvel einstaklingar ekki óhultir lengur. Fjölmörg dæmi eru um að myndir eru settar inn á Netið sem fara heimshorna á milli og skaða ímynd fyrirtæka og fólks, mjög erfitt getur orðið að bæta þann skaða - stundum jafnvel ómögulegt."

-Gróa á Leiti hefur sem sagt fengið öflugt vopn í hendurnar?

"Það má segja það. Menn geta hins vegar varast þessi vopn með því að vera meðvitaður um mikilvægi ímyndar fyrir rekstur sinn og fyrirtæki. Okkur hér hjá Kynningu og markaði fannst vera brýn þörf á að halda ráðstefnu af þessu tagi og ákváðum að standa fyrir einni slíkri í stað þess að halda samkvæmi í tilefni 15 ára afmælis fyrirtækisins. Á ráðstefnuna bjóðum við viðskiptavinum og hún er auk þess opin áhugasömum almenningi sem fyrr sagði.