Rammstein: Richard Z. Kruspe-Bernstein, Paul Landers, Flake Lorenz, Till Lindemann, Oliver Riedel, Christoph Schneider.
Rammstein: Richard Z. Kruspe-Bernstein, Paul Landers, Flake Lorenz, Till Lindemann, Oliver Riedel, Christoph Schneider.
ÞAÐ er í raun og réttu stórundarlegt hversu vinsæl sveit Rammstein er orðin.

ÞAÐ er í raun og réttu stórundarlegt hversu vinsæl sveit Rammstein er orðin. Tónlist sveitarinnar er hvort tveggja í senn - afar ófrumleg en um leið algerlega einstök en blandað er saman eftirfarandi: Kunnuglegum og margtuggðum þungarokksstefjum, véltónlist (e. industrial), raf/danstónlist, grípandi poppmelódíum og minnum úr sígildri tónlist; þá óperum og hinni "stóru" og dramatísku músík Wagners.

Einhverra hluta vegna virkar samsetning og vinsældir Rammstein hafa vaxið jafnt og þétt þau fimm ár sem sveitin hefur verið starfandi. Ástæðurnar liggja vísast í ofangreindri töfraformúlu en einnig er ímynd sveitarinnar út á við dulræð og heillandi; meðlimir sveipaðir kaldri og einsleitri áru, líkt og þeir séu frá ekki allt of fjarlægri framtíð.

En mig grunar að meginástæðan sé til muna einfaldari. Rammstein rokkar nefnilega. Og það feitt.

Oliver Riedel, bassaleikari Rammstein var staddur hérlendis fyrir stuttu í þeim tilgangi einum að veita viðtöl vegna væntanlegrar plötu sveitarinnar, Mutter. Maður spurðir sig ósjálfrátt hvað Oliver kallinn væri að gera hér, á grjóthnullungi lengst úti í ballarhafi svo ég vitni nú í Stormskerið? Undirbúningur og kynning fyrir plötuna hefur verið mikil og löng, menn og konur hjá Motor Music, útgáfufyrirtæki Rammstein, hafa sannarlega haldið á spöðunum í þeim efnum. Þau hljóta því að hafa fengið veður af því að sveitin nýtur óhemju vinsælda hérlendis, til sjávar jafnt sem sveita, staðreynd sem liðsmenn Rammstein þykir skemmtileg og um leið nokkuð skrýtin.

Nema hvað. Við hringlaga morgunverðarborð situr Oliver, hávaxinn og grannur, ásamt fylgdarliði; konu sinni, íslensku músíkbransafólki og starfsmönnum frá Motor Music. Hann stendur upp og tekur fast og vinalega í höndina á mér. Brosir feimnislega. Við tyllum okkur niður á fjærliggjandi borð með túlki og hefjum viðtalið formlega. Þetta er hæverskur, vinsamlegur og kurteis ungur maður í alla staði. Hefðuð þið trúað því!

Upphaf

Rammstein var stofnuð árið 1994 af þeim Richard Kruspe (gítar) - áður í Orgasm Death Gimmick, Paul Landers (gítar) - áður í Feeling B, Till Lindemann (söngur) - áður í First Arsch, Flake Lorenz (hljómborð) - áður í Feeling B, Oliver Riedel (bassi) - áður í The Inchtabokatables og Christoph Schneider (trommur) - áður í Die Firma. Nafnið kröftuga hafa margir talið að væri þýska yfir múrbrjót en svo er víst ekki. Nafnið heitir eftir bænum Ramstein, hvar hræðilegt flugslys átti sér stað árið 1988 er Bandaríski flugherinn var með sýningu og áttatíu manns létust. "Við nenntum ekki að vera lengur í þessum böndum, vildum fara að gera eitthvað sjálfir," segir Oliver. "Það var voðalega mikið verið að herma eftir amerískum hljómsveitum. Við vildum vera öðruvísi en hinir; slepptum t.d. að kynna á milli laga á tónleikum og snoðuðum á okkur kollana."

Fyrsta platan, Herzeleid, kom svo út árið 1995. Eins og áður segir var hér um einstaka tónlist að ræða um leið og hún var það alls ekki. Áhrif frá vélasveitum eins og KMDFM og Deutsch Amerikanische Freundschaft voru greinileg. Kraftwerk og Gary Numan einnig á ferli. Nýrómantískar tilvísanir og grípandi melódíur. Níðþung, ógnarkröftug og hvöss bárujárnsgítarstef. Óneitanlega tilkomumikill hrærigrautur. Og rosalega þýskt allt saman, alltént fyrir útlensk eyru. Kalt. Verksmiðjulegt. Einsleitt. Einkennileg blanda af hryllingi og fegurð.

"Við hlustum ekki mikið á Kraftwerk," segir Oliver þegar hann er spurður um lærifeðurna. "Ministry var hins vegar mikill áhrifavaldur. Sömuleiðis Laibach og Depeche Mode."

Textar Rammstein eru allir á þýsku. Þeir eru skýrir og einfaldir, myndu henta bráðvel til þýskukennslu ef því væri að skipta, sungnir með dimmri og drungalegri röddu Lindemanns. Eitthvað sem virðist fullkomlega við hæfi m.t.t. áferðar tónlistarinnar. En í upphafi var það ekki svo einfalt.

"Við reyndum að syngja á ensku til að byrja með," tjáir Oliver mér, eða öllu heldur túlkurinn. "En söngvarinn bjó til þýska texta og flutti þá yfir á ensku. Þá urðu þeir ekki fallegir lengur og þá vaknaði hjá okkur þessi hugmynd að syngja á þýsku, eitthvað sem var ekki vinsælt á þessum tíma. Þýski framburðurinn passar líka mjög vel við tónlistina."

Í kjölfar vinsælda Rammstein er orðið afskaplega flott að syngja á þýsku í heimalandinu, þróun sem Oliver er ánægður með, segir það vonandi ýta undir meiri fjölbreytni á alþjóðamarkaði rokksins þar sem flest er upp á ensku.

Árið 1996 barst sveitinni svo boð sem ekki var hægt að hafna. Hinn kunni, en þó umdeildi leikstjóri David Lynch heillaðist af sveitinni og setti tvö lög af Herzeleid inn í mynd sína Lost Highway, "Heirate Mich" og "Rammstein". Varð þetta til að vekja þó nokkra athygli á sveitinni.

Löngun

Árið 1997 kom út önnur plata sveitarinnar, Sehnsucht. Til muna heilsteyptari plata en sú síðasta og ímynd og hljómur sveitarinnar einhvern veginn þéttari, samræmdari og traustari. Skotheld plata í flesta staði. Menn ráku sérstaklega augun í umslagshönnun og útlit meðlima sem daðraði bæði við ofbeldi og sadó-masókisma. Fyrstu merki um bráðkomandi hamagang og hneykslan voru komin þarna ljóslifandi, dauð?!

"Ímynd Rammstein er ekki útpæld," segir Oliver, spurður um fræðin á bak við hana. "Það gerast hlutir og þá hugsum við eftir á. Við erum ekki einhverjir prófessorar sem brjótum heilann um hvernig við eigum að vera út á við. En núna erum við komnir með ákveðna ímynd þannig að manni hættir til að hugsa: "Humm...passar þetta við ímyndina?" En okkur finnst mikilvægt að halda öllum hurðum opnum og staðna ekki að þessu leytinu til."

Síðar á árinu 1997 og snemma í byrjun þess næsta tóku Rammstein upp tvö tökulög sem urðu til að auka hróður sveitarinnar enn. Vélað var um, í orðsins fyllstu merkingu, lag Kraftwerk "Das Modell" og það gefið út á smáskífu. Sömu glæsilegu meðferðina fékk fallegt en sorgbitið lag bresku sveitarinnar Depeche Mode, "Stripped". Hið fullkomna tökulag fyrir Rammstein. Lagið kom út á plötu til heiðurs Depeche Mode en var svo síðar á árinu gefið út á smáskífu. Bæði lögin urðu feikivinsæl hérlendis og seldust smáskífurnar grimmt ofan í landann.

Ímyndin

Það var þó ekki fyrr en undir lok ársins 1998 sem fór að hitna í kolunum fyrir alvöru. Rammstein tóku þá þátt í heljarinnar rokktónleikaferðalagi um Bandaríkin undir heitinu Family Values með sveitunum Korn, Limp Bizkit og Orgy og rapparanum Ice Cube. Er skemmst frá því að segja að þáttur Rammstein fór meira og minna öfugt ofan í Kanann, land frelsisins ekki alveg að standa undir nafni eins og svo oft. Rammstein er mikil sýningasveit, sviðið oft í björtu báli, sprengingar og annar fíflagangur í heiðri hafður. Sérstaka athygli, og oftast óhug, vakti atriði sem söngvarinn Till Lindemann og hljómborðsleikarinn Flake ástunduðu við flutning lagsins "Büch Dich" (Beygðu þig), hvar Lindemann dregur út gervilim og mundar hann nokkra stund uppi á sviði.

Ásakanir hófust þegar til hægri og vinstri, aðallega hægri og Rammstein sakaðir um að ala á nasisma, ofbeldi og annarri óáran. Voru þeir jafnvel sakaðir um að hafa verið sem vatn á myllu morðingjanna sem myrtu skólafélaga sína í Columbine-skólanum í Colorado árið 1999. Já, það er enn til fólk sem trúir því að rokktónlistin sé fyrir alvöru verkfæri djöfulsins.

"Við erum allir frá Austur-Þýskalandi," segir Oliver rólegur. "Þar er hefð fyrir því að vera svolítið á móti kerfinu. Þetta lifir kannski ennþá í okkur, við reynum að gera eitthvað sem ekki má." Og hann furðar sig á viðbrögðum Bandaríkjanna við limsatriðinu. "Okkur fannst þetta mjög fyndið en Ameríkumönnum aftur á móti ekki. Þetta getur verið svo skrýtið þarna. Hver sem er getur keypt sér vopn og börn geta horft á grófustu glæpamyndir. Þess vegna var gaman að ögra svolítið þar."

Á sviði líta Rammstein einatt ófrýnilega út, minna á illgjörn vélmenni og eru eins og týnd herdeild utan úr geimi. Minna jafnvel þess vegna á sveitir eins og Kiss og Gwar. Á veraldarvefnum (t.d. www.herzeleid.com) er hins vegar hægt að nálgast myndir af piltunum þar sem þeir eru gangandi glaðbeittir um með bakpoka á öxlum og slakandi á yfir máltíð.

Oliver áréttar í þessu sambandi að tónleikar sveitarinnar séu einmitt hugsaðir sem góð skemmtun - þetta sé eins og leikrit, kabarett. Utan sviðs séu þeir venjulegir menn, fjölskyldumenn með konur og börn.

Hvað ásakanir um nasisma og fasisma áhrærir hefur sveitin frá upphafi hafnað því að hún sé á nokkurn hátt pólitísk.

"Það getur verið ansi þreytandi að tala við fólk sem sér bara Þýska ríkið/Þriðja ríkið vegna þess að maður er Þjóðverji," áréttar Oliver. "Við tökum það tímabil mjög alvarlega eins og aðrir og erum ekki að rugla með táknfræði þess okkur í hag."

Oliver segir í áframhaldinu sveitina leika sér með ranghugmyndir annarra um Þjóðverja.

"Við gerum grín að þessu," segir Oliver. "Við erum t.d. mikið að spá í að klæðast týrólabuxum í Ameríku. Allar þjóðir hafa sína ímynd og við leikum okkur með okkar."

Berlín/Mamma

Árið 1999 kom tónleikaplatan Live Aus Berlin (hvað annað?) út. Þeir sem ekki höfðu barið sveitina augum á þeim vettvanginum fengu nú tækifæri að sjá þá fjöllistasýningu, en samhliða plötunni var tónleikamynd gefin út, á myndbandi og DVD. Það er nú nær eini kosturinn við það ævintýrið, þar sem tónlistin ein og sér er alls ekki að gera sig, kraftlaus og engu bætt við. Skýrt dæmi um að viðveru sé þörf ef njóta skal.

En núna loksins, eftir fjögurra ára bið, er nýja hljóðversskífan komin út. Hún er unnin með upptökustjóranum Jacob Hellner (sem hefur m.a. unnið með hinum sænsku Clawfinger) en hann kom einnig að fyrstu tveimur plötunum. Sem fyrr er allt á hreinu á Rammstein-bænum, listræn framsetning alveg hreint afskaplega svöl, temað er í senn óhugnanlegt og leyndardómsfullt. Snýst það um lík, sem geymd eru í vatnstönkum og innan í bæklingi má sjá meðlimi sveitarinnar í þannig ástandi. Engar áhyggjur þó, kæra fólk. Þetta er allt saman tilbúningur og sviðsetning!

Vald sveitarinnar yfir sínum hljóm og stíl er nú orðið að heita má algert og Mutter er líkast til aðgengilegasta plata Rammstein til þessa án þess þó að slakað sé á í Rammsteinfræðunum. Hún hljómar - sem betur fer - næstum alveg eins og hinar plöturnar. Skelfilega indæl alveg. Rammsteinfólk vill fá sína Rammstein!

"Það er erfitt að tala um þessa nýjustu plötu," segir Oliver andvarpandi. "Þar sem ég er ennþá inni í þessu og er ekki kominn með þá fjarlægð sem til þarf."

Aðpurður að lokum hvaða plata þeirra standi upp úr að hans mati svarar hann brosandi: "Mamma er best".