Sprengjum rignir yfir þorp í Kosovo STJÓRN Makedóníu og albanskir skæruliðar neituðu því á fimmtudag að hafa staðið á bak við sprengjuárás á þorp í Kosovo sem varð þremur að aldurtila, auk þess sem tíu særðust.

Sprengjum rignir yfir þorp í Kosovo

STJÓRN Makedóníu og albanskir skæruliðar neituðu því á fimmtudag að hafa staðið á bak við sprengjuárás á þorp í Kosovo sem varð þremur að aldurtila, auk þess sem tíu særðust. Friðargæslulið Sameinuðu þjóðanna harmaði árásina og Hans Hækkerup, yfirmaður stjórnar SÞ í Kosovo, sagði hana skelfilega.

Her Makedóníu hóf áhlaup á albanska skæruliða í nágrenni höfuðborgarinnar, Skopje, og í átt til borgarinnar Kumanovo á miðvikudag. Áður hafði herinn gert harðir árásir á skæruliða í hlíðum upp af borginni Tetovo. George Robertson, framkvæmdastjóri NATO, sagði að makedónski herinn hefði sýnt "virðingarverða sjálfstjórn" í sókn sinni gegn skæruliðunum.

Stjórn Bush staðfestir ekki Kyoto-bókunina

YFIRMAÐUR bandarísku umhverfisverndarstofnunarinnar (EPA) skýrði frá því á miðvikudag að bandarísk stjórnvöld hygðust ekki staðfesta Kyoto-bókunina frá 1997 við loftslagssáttmála Sameinuðu þjóðanna um ráðstafanir til að hamla gegn hitnun loftslags á jörðinni.

George W. Bush Bandaríkjaforseti kveðst vera andvígur bókuninni vegna þess að í henni séu þróunarlönd undanþegin því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og hún myndi hafa skaðleg áhrif á bandarískt efnahagslíf.

Ráðamenn margra ríkja og ýmis umhverfisverndarsamtök gagnrýndu þessa afstöðu Bandaríkjastjórnar. Sænska stjórnin, sem gegnir formennsku í Evrópusambandinu, sagði ákvörðun stjórnar Bush hneykslanlega og umhverfisverndarsamtökin Vinir jarðarinnar sögðu hana valda hættu á "loftslagsstórslysi".