Horfið frá sveigjanlegri gengisfestu RÍKISSTJÓRNIN og Seðlabanki Íslands tilkynntu á þriðjudag að vikmörk gengisstefnunnar yrðu afnumin og formleg verðbólgumarkmið tekin upp í staðinn.

Horfið frá sveigjanlegri gengisfestu

RÍKISSTJÓRNIN og Seðlabanki Íslands tilkynntu á þriðjudag að vikmörk gengisstefnunnar yrðu afnumin og formleg verðbólgumarkmið tekin upp í staðinn. Stefnt verður að því að árleg verðbólga verði sem næst 2,5% og að því markmiði verði náð fyrir árslok 2003. Þá ákvað Seðlabankinn að lækka stýrivexti um 0,5% næstkomandi þriðjudag og verða þeir 10,9% eftir breytinguna. Íslenska krónan hafði náð sögulegu lágmarki á mánudag þegar vísitala krónunnar hækkaði um 0,48% og endaði í 123 stigum. Seðlabankinn greip inn í til að verja gengissigið bæði á mánudag og þriðjudag og keypti krónur fyrir um 5,4 milljarða þessa tvo daga. Miklar sveiflur voru á gjaldeyrismörkuðum eftir afnám vikmarkanna.

Ekki tilefni til leyfissviptingar

FLUGMÁLASTJÓRN telur ekki tilefni til að svipta Leiguflug Ísleifs Ottesen flugrekstrarleyfi eða segja upp samningum um áætlunarflug þrátt fyrir að fyrirtækið hafi orðið uppvíst að"alvarlegri vanrækslu á faglegum grundvallarþætti í flugrekstri," eins og segir í svarbréfi til samgönguráðherra. Svarið ásamt greinargerð Flugmálastjórnar um flugslysið var kynnt á fimmtudag. Þar kemur fram að allt frá því að slysið varð hafi legið fyrir að flugrekandinn hafi ekki framfylgt gildandi starfsreglum og t.d. látið hjá líða að gera leiðarflugáætlanir. Hins vegar hafi Flugmálastjórn gert sérstaka úttekt á rekstri LÍO í vikunni þar sem nokkurra "frávika" hafi orðið vart en ekkert þeirra hafi verið alvarlegt. Svars samgönguráðherra við bréfi Flugmálastjórnar, þar sem vænta má ákvörðunar um það hvort flugsamningum við LÍO verður sagt upp, er að vænta eftir helgi.