Benadikt ásamt móður sinni, Deborah.
Benadikt ásamt móður sinni, Deborah.
LJÓÐAKVÖLD verður haldið í Patreksfjarðarkirkju á morgun, mánudag, til styrktar Benadikt Þór Helgasyni og fjölskyldu hans.

LJÓÐAKVÖLD verður haldið í Patreksfjarðarkirkju á morgun, mánudag, til styrktar Benadikt Þór Helgasyni og fjölskyldu hans. Eins og lesendum Morgunblaðsins er kunnugt fæddist Benadikt, sem nú er tæplega 11 mánaða gamall, með afar sjaldgæfan sjúkdóm sem nefnist Pfeiffer-heilkenni og þarf því að fara í fjölda erfiðra aðgerða til Svíþjóðar á næstunni. Fjölskyldan mun fara í fyrstu ferðina utan á þriðjudag.

Það var Hjalti Rögnvaldsson leikari sem átti frumkvæðið að því að ljóðakvöldið yrði haldið eftir að hafa lesið um Benadikt litla í Morgunblaðinu enda þekkir hann svipaðar aðstæður af eigin raun. Á kvöldinu mun hann lesa í heild sinni ljóðabálkinn Þorpið eftir Jón úr Vör, skáldið frá Patreksfirði, en síðastliðið sumar las hann þar hluta bálksins á ljóðakvöldi tileinkuðu Menningarborg Evrópu við mikla hrifningu þeirra sem á hlýddu. Hjalti og allir aðrir sem að kvöldinu koma munu gefa sitt framlag en söfnunarbaukar verða í anddyri kirkjunnar og rennur allur ágóði söfnunarinnar til fjölskyldu Benadikts.

Stóru aðgerðinni frestað að sinni

Móðir Benadikts, Deborah Bergsson, segir vel hafa gengið með Benadikt að undanförnu en hann hefur verið í sjúkraþjálfun og undir eftirliti lækna daglega.

Til stóð að gera fyrstu stóru aðgerðina í þessari ferð til Svíþjóðar en á síðustu stundu var því breytt þar sem læknar telja nauðsynlegt að gera ítarlegri rannsóknir og próf á Benadikt áður en hann fer í aðgerðina, vegna þess hversu erfitt hann á um öndun. Því munu sænsku læknarnir gera svæfingarpróf á honum auk þess sem hann fer í heilalínurit og röntgenrannsóknir. Fjölskyldan mun því fara aftur utan eftir einn til tvo mánuði til að fara í sjálfa aðgerðina.

Þessi aðgerð er hins vegar aðeins ein af fjölmörgum og hafa læknar tjáð Deborah að fjölskyldan megi búast við að þurfa að ferðast töluvert á milli landanna tveggja. Hún segir fjölskylduna afar snortna yfir framtaki Hjalta og viðbrögðum fólks við sjúkdómi Benadikts enda fylgir slíkum sjúkdómi töluvert álag, bæði í andlegu og fjárhagslegu tilliti.

Þeir sem vilja styðja fjölskylduna er bent á söfnunarreikning í Eyrasparisjóði með númerinu 1118-05-101000 og er kennitala eiganda 160566-5669.