Ár og sprænur eru engin fyrirstaða.
Ár og sprænur eru engin fyrirstaða.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
FJALLASPORT hf., fyrirtæki sem sérhæfir sig í breytingum á jeppum, hefur breytt Isuzu Trooper-jeppa fyrir 44 tommu dekk. Breytingin er talin vera einhver sú mesta sem gerð hefur verið á þessari gerð bíla.

FJALLASPORT hf., fyrirtæki sem sérhæfir sig í breytingum á jeppum, hefur breytt Isuzu Trooper-jeppa fyrir 44 tommu dekk. Breytingin er talin vera einhver sú mesta sem gerð hefur verið á þessari gerð bíla.

Reynir Jónsson, framkvæmdastjóri Fjallasports, segir að búið sé að breyta mörgum Trooper-bílum fyrir 38 tommur, sem hann segir að sé til þess að gera einfalda breytingu. Mun meiri vinna og yfirlega sé fólgin í breytingu fyrir 44 tommur. Bíllinn kemur á sjálfstæðri vindustangafjöðrun að framan frá framleiðanda en Fjallasport tekur hana undan og setur heila hásingu í staðinn og gormafjöðrun. Með því að setja heila hásingu að framan var jafnframt unnt að færa hásinguna framar um þrjá sentímetra og jafnframt hækka hann meira. Afturhásingin var líka færð aftur um þrjá sentímetra þannig að hjólhafið er nú sex sentímetrum lengra sem gerir bílinn stöðugri og gefur betri hreyfingar í torfærum. Bíllinn er sjálfskiptur og settur var skriðgír í hann þannig að hann er nú með tveimur lágum drifum, eða samtals 16 gírum áfram og fjórum aftur á bak. Einnig var sett í hann ný 5,38:1-drifhlutföll og Megalock-driflæsingar sem eru 100% vakúmlæsingar að framan og aftan. Frá framleiðanda kemur bíllinn með Dana 60-afturhásingum, sem Reynir segir sams konar hásingar og verið sé að nota í bíla í torfærukeppnum hérlendis. Nýr stýristjakkur var settur í bílinn til að létta stýrið.

Bíllinn er með 3ja lítra forþjöppudísilvélinni, 166 hestafla, og sett var sverara púströr undir hann. Til stendur að tengja tölvukubb við vélina sem skilar aukalega 40-50 hestöflum.

Bíllinn vegur ekki nema 2,4 tonn með öllum búnaði og er orðinn gríðarlega öflugur fjallabíll. Með þessari breytingu verður bíllinn að sjálfsögðu ekki eins meðfærilegur í borgarumferðinni en með mun meiri getu utan vegar. Breyting af þessu tagi kostar sitt, eða nálægt þremur milljónum króna. Jeppabreytingar fyrirtækisins eru kynntar nánar á vefslóðinni fjallasport.is.