Bjarnveig Guðný Guðmundsdóttir fæddist í Súðavík 25. mars 1930. Hún lést á St. Jósefsspítala 27. mars síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Guðmundur Guðnason og Guðrún Eiríksdóttir. Bróðir Bjarnveigar var Eiríkur, fæddur 1920 og látinn 1960. Eftirlifandi eiginmaður Bjarnveigar er Jörundur Engilbertsson, f. 1.7. 1927, frá Súðavík. Foreldrar hans voru Einar Engilbert Þórðarson og Ása Valgerður Eiríksdóttir. Börn Bjarnveigar og Jörundar eru: 1) Brynja, f. 29.6. 1949, eiginmaður hennar er Birgir Úlfsson, f. 25.4. 1947, dætur þeirra eru a) Guðrún, f. 4.10. 1967, unnusti hennar er Sverrir Jóhannesson, f. 11.6. 1966, börn þeirra eru Birgir, f. 25.11. 1992, og Bertha Sóley, f. 26.5. 1999, b) Benedikta, f. 11.12. 1973, unnusti hennar er Hinrik Jónsson, f. 10.1. 1973, dóttir þeirra er Arngunnur, f. 11.12. 2000, c) Birgitta, f. 10.7. 1979, unnusti hennar er Darri Gunnarsson, f. 4.1. 1975, og d) Bjarnveig, f. 28.4. 1983. 2) Guðmundur, f. 10.6. 1950, eiginkona hans er Guðríður G. Guðmundsdóttir, f. 21.9. 1953, börn þeirra eru a) Berglind Ósk, f. 19.12. 1978, unnusti hennar er Garðar Svavarsson, f. 6.10.79, sonur þeirra er Alexander Blær, f. 8.3. 2000, dóttir Berglindar er Birta Líf, f. 2.5. 1997, b) Arnór Smári, f. 4.8. 1994. 3) Atli Viðar, f. 23.5. 1955, sonur hans er Steinar Örn, f. 6.4. 1977. 4) Eiríkur Páll, f. 24.12. 1962, eiginkona hans er Heiða Helena Viðarsdóttir, f. 11.2. 1963, dætur þeirra eru a) Guðrún Rakel, f. 9.1. 1983, b) Ása Hrund, f. 4.9. 1987, og c) Birna Rún, f. 23.7. 1993.

Bjarnveig fæddist að Fögrubrekku í Súðavík en fluttist kornung að Seljalandi í Álftafirði, þar sem foreldrar hennar voru með búskap. Hún ólst þar upp fram yfir fermingu og flutti þá með foreldrum sínum til Súðavíkur. Hinn 25. mars 1951 kvæntist hún eiginmanni sínum, Jörundi Engilbertssyni, og hófu þau búskap í Súðavík og eignuðust þar sín fjögur börn. Árið 1971 fluttu Bjarnveig og Jörundur til Kópavogs, ásamt tveimur yngstu sonum sínum og föður Bjarnveigar sem flutti á heimili þeirra eftir að hann varð ekkjumaður árið 1968. Eftir skamma dvöl þar fluttu þau upp á Akranes árið 1971 og störfuðu þar í frystihúsinu Haferninum, en Jörundur hóf síðan störf við fiskeftirlit hjá Sjávarafurðadeild Sambandsins. Árið 1977 fluttu Bjarnveig og Jörundur, ásamt yngsta syni sínum, aftur í Kópavoginn og á nýjan leik upp á Akranes ári síðar. Þar dvöldu þau til ársins 1981 en fluttu þá að Laufvangi 2 í Hafnarfirði, þar sem Bjarnveig bjó til dauðadags. Í gegnum tíðina starfaði Bjarnveig ýmist í fiskvinnslu eða við húsmóðurstörf en eftir að hún flutti til Hafnarfjarðar starfaði hún í fjölda ára á Hrafnistu í Hafnarfirði, þar sem hún lauk starfsævi sinni. Útför Bjarnveigar fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju á morgun og hefst athöfnin klukkan 15.

Nú heyrist brátt í lóunum syngja um dýrð í móunum berst að gagg í tófunum í holti og birkihlíð. Þá blánar yfir sundunum og grasið grær á grundunum en ástin vex í lundunum á ljúfri sumartíð. (Bjarnveig Guðmundsdóttir.)

Móðir mín kom í heiminn að áliðnum vetri, þegar sól hækkaði á lofti, vermdi mannfólki og bræddi snjó af grund. Hún yfirgaf þetta jarðneska líf á sama árstíma, í aðdraganda vorsins sem var svo órjúfanlega tengt persónuleika hennar. Móðir mín var barn vorsins, lífsins sem var að vakna, fuglanna sem sungu og kveiktu vonir í brjósti góðra manna. Hún unni náttúrunni og margar hugljúfar æskuminningar hennar frá Seljalandi yljuðu alla tíð, umvafðar einstakri fegurð fjalla, hlíða og vatna. Og angurvær kliður genginna kynslóða ómaði í frásögnum hennar af ömmu og afa, langömmu og langafa, sem ætíð tókst að laða fram hlýju og ljúfmennsku í garð litlu telpunnar, undan harðgerðu yfirbragðinu sem harðneskjuleg lífskjör meitluðu í svip þeirra.

Móðir mín var jarðbundin kona þótt hugsanir hennar hafi oft flögrað um, líkt og litlu fuglarnir sem hún hafi yndi af að fylgjast með. Hún gerði litlar kröfur til annarra, setti sjálfa sig aftast í biðröðina og naut þess framar öllu að láta okkur börnunum líða vel og ekki síst að dekra við barnabörnin og barnabarnabörnin. Enda er missir þeirra og söknuður mikill, það tómarúm sem nú kemur í hennar stað verður aldrei fyllt. Hinar dýrmætu stundir í Laufvanginum, sem móðir mín gæddi töfrum hlýju og umhyggju, eru nú að baki og koma aldrei aftur, en minningarnar lifa og standa sem vörn andspænis þeim bitra veruleika sem ótímabært brotthvarf hennar er. Að setjast við eldhúsborðið og ræða um heima og geima og finna návist hennar voru talin sjálfsögð réttindi, sem nú eru horfin. Eftir situr söknuðurinn og skilningur á því hversu dýrmætar þessar litlu stundir voru, því ætíð naut hún þess að ýta öllu til hliðar og gefa manni allan sinn tíma og eftirtekt.

Ungur naut ég þeirrar ómetanlegu gæfu að móðir mín var mitt trausta bjarg, skjól sem alltaf var til reiðu og huggunar þegar snáðinn hnaut um og hrasaði á hrjúfu yfirborði lífsins. Minningin um hlýjan móðurfaðm, sem umvafði skelkað hjarta litla drengsins, er svo mögnuð, svo gefandi og uppbyggileg, að nánast er vonlaust að ímynda sér lífshamingjuna án þessara helgistunda. Að fá að vaxa og dafna í slíku skjóli er dýrmæt gjöf sem fylgir litlum snáða lífið á enda.

Í vöggugjöf hlaut móðir mín skáldagáfu, sem henni gafst því miður ekki tækifæri á að þroska. Á hennar yngri árum var ekki við hæfi að liggja á skólabekk og sinna heimspekilegum viðfangsefnum, lífsbaráttan var hörð og tók þann tíma sem gafst. Hún var næm kona og skynjaði lífið að hætti náttúrubarna, hafði næmt skyn á góðar bókmenntir og las mikið alla tíð. Í seinni tíð hóf hún loks að setja stökur á blað og rita hugljúf minningarbrot, en þessum hæfileikum flíkaði hún ekki frekar en öðrum mannkostum sem hana prýddu. Enda leiddist henni aldrei einni með sjálfri sér, þá var hún í eigin hugarheimi og þurfti ekki á viðurkenningu annarra að halda. En þegar svo bar við var hún hrókur alls fagnaðar í góðra vina hópi, glaðlynd, spaugsöm og eftirlæti skyldmenna og vina. Nú er hún horfin á braut eftir erfiðan baráttuvetur. Þrátt fyrir óendanlegar kvalir barmaði hún sér aldrei, hún hlífði okkur við því fram í lokin. Það var hennar háttur. Hennar mestu áhyggjuefni voru að komast ekki í fermingu sinnar "ljúfustu" og geta ekki heimsótt yngsta barnabarnabarnið sem kom í heiminn í vetur. Því miður náðist ekki að ljúka því ætlunarverki, en nú skundar hún um fagrar grundir hæstu hæða, til móts við þá sem hún unni forðum.

Vorþrá

Nú heyrist brátt í lóunum

syngja um dýrð í móunum

berst að gagg í tófunum

í holti og birkihlíð.

Þá blánar yfir sundunum

og grasið grær á grundunum

en ástin vex í lundunum

á ljúfri sumartíð.

(Bjarnveig Guðmundsdóttir.)

Guð geymi þig, móðir mín,

Eiríkur Páll.

Á morgun verður til moldar borin elskuleg tengdamóðir mín, Bjarnveig Guðmundsdóttir, sem lést 27. mars sl. eftir erfið veikindi. Okkar kynni hófust fyrir tæpum 20 árum og einkenndust samskipti okkar alla tíð af gagnkvæmri virðingu og vináttu, sem aldrei bar skugga á. Alltaf var notalegt að koma til þeirra Bubbu og Jörra í Laufvanginn. Þá skynjaði maður hversu mikils hún mat heimsóknir okkar, hvort sem við stoppuðum í lengri eða skemmri tíma, alltaf gaf hún sér tíma fyrir okkur. Hún var ætíð reiðubúin að rétta fram hjálparhönd þegar á þurfti að halda og taldi það aldrei eftir sér. Dætrum okkar var hún alla tíð góð og er söknuður þeirra mikill nú þegar engin amma Bubba tekur á móti þeim í Laufvanginum með opinn faðminn og ilmandi sætabrauð. Á fyrstu árum búskapar okkar Igga leitaði ég oft og tíðum til tengdamóður minnar til að fá ráðleggingar, hvort heldur var við saumaskap, bakstur eða annað sem finna þurfti lausn á. Ekki stóð á svari, enda var hún mikil húsmóðir og hafði gaman af hannyrðum og matargerð. Ósjaldan var leitað til hennar með pössun og alltaf brást hún vel við og hafði gaman af, enda voru stelpurnar vinir hennar og skipuðu stóran sess í hjarta hennar. Með þessum orðum kveð ég tengdamömmu mína og þakka henni fyrir allt sem hún gerði fyrir mig og dætur mínar.

Guð geymi þig.

Heiða Helena Viðarsdóttir.

Bjarnveig tengdamóðir mín, eða Bubba eins og hún var ávallt kölluð í fjölskyldunni, er dáin eftir erfitt stríð við illvígan sjúkdóm sem hún barðist við af miklum dugnaði og æðruleysi. Hún átti 71 árs afmæli og 50 ára brúðkaupsafmæli hinn 25. mars sl., tveimur dögum fyrir andlát sitt. Í fyrrasumar var ákveðið að halda upp á þennan dag á Kanaríeyjum ásamt eiginmanni og öðrum hjónum sem einnig giftu sig í Súðavík fyrir 50 árum. Ekki fór Bjarnveig í þá ferð en lagði ein í allt aðra för.

Bjarnveigu kynntist ég fyrst fyrir 33 árum er ég gekk að eiga einkadóttur hennar Brynju. Mikill kærleikur þróaðist með okkur Bubbu í gegnum árin. Umhyggja hennar fyrir fjölskyldu minni var alveg einstök og þær minningar mun ég geyma um ókomna tíð. Alltaf var gott að heimsækja hana og sá hún ætíð til þess að tengdasonurinn færi ekki heim með tóman maga. Mér er minnisstætt hve stríðinn henni þótti ég vera en smám saman kom í ljós að hún var ekki síður stríðin sjálf. Ég hafði sérstaklega gaman af því að reyna að plata hana 1. apríl og tókst það lengi framan af. Hin síðari ár var hún þó alltaf á varðbergi þennan dag og var fljót að fyrirgefa mér sprellið. Við hjónin og dætur okkar fórum með tengdaforeldrum mínum í nokkrar ferðir, bæði innanlands og utan. Þá var Bubba jafnan hrókur alls fagnaðar, orti bæði kvæði og vísur og söng af hjartans lyst. Við eigum ógleymanlegar minningar úr þessum ferðum. Á merkum tímamótum í lífi mínu las tengdamóðir mín jafnan frumsamin kvæði, sem hún orti til mín og ég varðveiti sem dýrmætasta djásn. Ég mun minnast tengdamóður minnar með miklum söknuði.

Blessuð sé minning hennar.

Birgir Úlfsson.

Elsku amma Bubba okkar, í dag kveðjum við þig með mikilli sorg. Það er erfitt að sætta sig við það en því miður fáum við engu um það ráðið.

Það sem við getum þó gert er að minnast allra dásamlegu stundanna sem við áttum með þér, elsku amma. Það voru ófá skiptin sem við báðum þig um að fá að gista hjá þér og það var alltaf hið minnsta mál. Enda leið okkur aldrei jafn vel og í faðmi þínum. Þú varst alltaf svo ung í anda og létt að þegar við komum saman með spólu í tækinu og nammi við höndina var ávallt eins og þrjár bestu vinkonur væru saman komnar. Svo gátum við líka spilað og talað saman fram eftir öllu og líklegast hefur afa stundum fundist nóg vera komið. Við getum heldur ekki sleppt því að minnast á hinar árlegu sumarferðir sem við fórum svo lukkulegar í með þér og afa. Þar kynntumst við náttúrubarninu í þér, amma. Þér leið alltaf best innan um allar þær dásemdir sem náttúran hefur uppá að bjóða. Þú kenndir okkur heitin á öllum þeim fuglum sem til eru, enda var það eitthvað sem þér þótti einna vænst um. Svo leið ekki það haust sem þú minntist ekki á að nú yrðum við að fara að drífa okkur til berja. Það var ekkert sem þér þótti betra en glæný og gómsæt krækiber eða bláber. Það er svo ótrúlega margt sem þú skildir eftir þig, elsku amma. Ljóðin sem þú samdir um okkur og allar yndislegu minningarnar sem við ætlum að geyma fyrir okkur. Það mun ávallt ylja okkur um hjartarætur hversu heitt þú elskaðir okkur og alla þá sem í kringum þig voru. Þú munt alltaf eiga öruggan stað í hjarta okkar og við munum gera okkar besta við að halda minningunni um þig um ókomin ár. Við viljum ekki sætta okkur við að þú sért farin frá okkur en sú hugsun að þú sért núna á stað sem þér líður vel á huggar okkur ómetanlega mikið. Við vitum að Guð tekur vel á móti þér enda varstu engill í lifanda lífi.

Elsku amma, takk fyrir allt sem þú gafst okkur ömmustelpunum þínum. Við viljum að lokum minnast þín með þessu fallega ljóði sem við vitum að þér þótti vænt um og við trúum í hjarta okkar að við munum hittast á ný.

Snert hörpu mína, himinborna dís,

svo hlusti englar Guðs í Paradís.

Við götu mína fann ég fjalarstúf

og festi á hann streng og rauðan skúf.

Á náðarstund ég návist þína finn.

Leyf nöktu barni að snerta faldinn þinn,

og dreyp á mínar varir þeirri veig,

sem vekur líf og gerir orðin fleyg.

Hver fugl skal þreyta flugið móti sól,

að fótskör Guðs, að lambsins dýrðarstól,

og setjast loks á silfurbláa tjörn

og syngja fyrir lítil englabörn.

(Davíð Stefánsson.)

Guð geymi þig,

Guðrún Rakel og Bjarnveig.

Mig langar með nokkrum fátæklegum orðum að minnast tengdamóður minnar Bjarnveigar, eða Bubbu eins og hún var jafnan kölluð, og þakka fyrir þau þrjátíu ár sem ég varð henni samferða. Sautján ára kom ég fyrst inn á heimili þeirra hjóna í Kópavoginum, en þangað voru þau nýlega flutt frá Súðavík. Ég var dauðfeiminn krakki en fann fljótt að ekkert var að óttast, þau tóku mér afar vel bæði tvö og brátt varð heimili þeirra mitt annað heimili.

Bubba var lífleg, greind og víðsýn kona, stálminnug og hafði ótal skemmtilegar sögur af sér og samferðafólki sínu á reiðum höndum. Oft undraðist ég hvað hún mundi vel í smáatriðum löngu liðna atburði og þá naut sín frásagnargáfa hennar.

Hún var mikið náttúrubarn og hafði sterkar taugar til bernskuslóða sinna á Seljalandi. Þar mundi hún hvern stokk og stein, og örnefnin öll þar í kring. Það sá ég þegar við hjónin áttum þess kost fyrir tveimur árum að ganga með henni þar "fram á stekk" eins og hún orðaði það. Þaðan átti hún ótal minningar sem streymdu fram í huga hennar og hún sagði okkur á leiðinni. Svo var hún vel ritfær og hagmælt, og hafði, ásamt því að yrkja mörg góð ljóð, ritað endurminningar sínar frá Seljalandi, sem vel myndu sóma sér á prenti. Hún bar einnig gott skynbragð á góðar bókmenntir, las mikið og vandaði valið á því sem hún las.

Bubba er nú farin frá okkur allt of snemma, eftir hetjulega baráttu við erfiðan og kvalafullan sjúkdóm, sem yfirbugaði hana að lokum.

Í minningasjóðnum eru nú ótal minningar um góðar og skemmtilegar samverustundir, því gleðin og kímnin voru aldrei langt undan hjá henni.

Ég vil þakka fyrir samfylgdina og kynnin af þessari góðu konu. Minningin um hana lifir. Innilegar samúðarkveðjur til ykkar allra, elskulega fjölskylda.

Guðríður.

Nú ertu farin, amma mín,

ég kveð þig með sorg í hjarta.

En minningin hún aldrei dvín,

heldur lifir um daga bjarta.

Megi algóður guð styrkja okkur í sorginni.

Guðrún Birgisdóttir.

Hinsta kveðja til elsku ömmu minnar.

Því að hvað er það að deyja annað en standa nakinn í blænum og hverfa inn í sólskinið? Og hvað er að hætta að draga andann annað en að frelsa hann frá friðlausum öldum lífsins, svo að hann geti risið upp í mætti sínum og ófjötraður leitað á fund guð síns? Aðeins sá, sem drekkur af vatni þagnarinnar, mun þekkja hinn volduga söng.

Og þegar þú hefur náð ævitindinum, þá fyrst munt þú hefja fjallgönguna.

Og þegar jörðin krefst líkama þíns, muntu dansa í fyrsta sinn.

(Úr Spámanninum.)

Benedikta Birgisdóttir.

Elsku amma mín.

Fæðast og deyja í forlögum

frekast lögboð eg veit,

elskast og skilja ástvinum

aðalsorg mestu leit,

verða og hverfa er veröldum

vissasta fyrirheit,

öðlast og missa er manninum

meðfætt á jarðar reit.

Lífið er stutt, og líðun manns

líkt draumi hverfur skjótt,

finnst þó mjög langt í hörmum hans,

hjartað nær missir þrótt,

kristileg frelsun krossberans

kemur aldrei of fljótt,

erfiðisdagur iðjandans

undirbýr hvíldarnótt.

(Bólu-Hjálmar.)

Hvíl þú í friði.

Birgitta Birgisdóttir.

Bjarnveig Guðný Guðmundsdóttir fæddist í Súðavík 25. mars 1930. Foreldrar hennar voru Guðrún Eiríksdóttir og Guðmundur Guðnason, bæði af vestfirskum ættum. Hún Bubba frá Seljalandi, seinna "Bubba hans Jörra" eins og hún var vanalega nefnd af vinum og vandamönnum, var aðeins á fyrsta ári, þegar foreldrar hennar fluttu að Seljalandi í Álftafirði og þar ólst Bubba upp, ásamt bróður sínum Eiríki sem einnig bjó í Súðavík, en er látinn fyrir allmörgum árum. Fljótt skal yfir sögu farið.

Vinur minn Jörundur Engilbertsson frá Súðavík og hún Bubba frá Seljalandi bundust ástarböndum sem héldu ævina út og nú var hún orðin "Bubba hans Jörra". Þau fluttu frá Súðavík 1970, þar sem þau höfðu byggt sér nýtt hús og eignast fjögur mannvænleg börn. Þvílík eftirsjón Súðvíkinga! En nú sný ég huga mínum að æskustöðvum Bubbu og hlusta:

Nú glymur úr Valagiljum,

grátklökkva hljóminn við skiljum,

sorg grúfir Seljalandsdal.

Þar átti hún fótsporin fyrstu,

fegurstu drauma er gistu,

hinn svipmikla fjallasal.

Víst gæti maður ætlað að heyra hefði mátt hljómbreytingu Valagiljafossa þá og þegar þessi andlátsfregn barst, svo nátengd fannst manni Bubba ávallt vera þessum æskustöðvum sínum. Í sumar er leið átti ég leið framhjá Seljalandi, ég var að koma frá Hattardal, rétt kominn yfir brúna á Seljalandsós. Ég sé konu koma labbandi niður Seljalandstún, ég stoppa bílinn. "Sæll elskan," þetta var Bubba, "mikið er ég nú búin að labba, búin að fara fram að giljum hátt uppí Ramahjalla, upp í mógrafir og í litlu lautina mína sem ég á ein, alein!" Ég hef ekkert sagt, andlit hennar er uppljómað einhverri innri birtu eða ljóma, sambland af ást og stolti. "Hann Jörri ætlaði að sækja mig, en kannski fæ ég far með þér út í Súðavík. Ég ætla bara aðeins að labba yfir ósinn og uppá Arnarhólinn. Mér fannst alltaf sem barn hann búa yfir einhverri dulúð og reisn." Ég gerði mig líklegan til að snúa bílnum. "Nei, nei, bíddu hér, ég verð enga stund." Ég fór út úr bílnum að ósnum, nú rann hann uppí mót, það var aðfall. Álftafjörðurinn skartaði sínu rómaða logni. Þögnin réð ríkjum, þó mátti nema hljóm fossa Valagilja ef grannt var hlustað. Ég veit það nú, sem mig grunaði ekki þá, Bubba var að kveðja æskustöðvarnar.

Bubba mín, hafðu þakkir fyrir allt og allt. Vertu ávallt guði falin. Jörri, ég færi þér, börnum þínum svo og barnabörnum mínar innilegustu samúðarkveðjur. Það styttist í okkar ferð, við kvíðum engu, skáldið sagði: "Þar bíða vinir í varpa - sem von er á gesti."

Ragnar Þorbergsson

frá Súðavík.

Eiríkur Páll.