Svala undirbýr sig fyrir rússibanareiðina.
Svala undirbýr sig fyrir rússibanareiðina.
Verður Svala næsta stórstjarna okkar Íslendinga? Birgir Örn Steinarsson spurði hana allra spurninganna sem hafa brunnið á vörum manna.
MARGIR hafa ef til vill spurt sig hvers vegna allt þetta fjaðrafok er út af Svölu Björgvinsdóttur. Reglulega hafa borist fréttir af því, síðastliðin tvö ár eða svo, að stúlkan "standi á þröskuldi heimsfrægðarinnar" en síðan hefur ekkert gerst. Enginn Íslendingur í Bandaríkjunum hefur nokkurn tímann heyrt minnst á Svölu í fjölmiðlum þar og engin skilur neitt í neinu.

En herrar mínir og frúr, nú verður breyting á. Boltinn sem Skífan henti af stað fyrir fjórum árum er nú orðinn stór og viðamikill. Fyrsta smáskífulag Svölu Björgvinsdóttur í Bandaríkjunum kemur út 11. júlí næstkomandi, en lagið "The Real Me" verður formlega sett í útvarpsspilun um gjörvöll Bandaríkin á morgun. Ástæðan fyrir því að engin hefur enn fengið að heyra neitt er sú að plötuvinnslan og undirbúningurinn hefur víst tekið allan þennan tíma.

"Trallað" inn á snældu

"Það byrjaði svona fyrir alvöru á þessum tveimur árum áður en ég fór á samninginn hjá Priorety Records," útskýrir Svala. "Platan hefur breyst mjög mikið frá því ég byrjaði á henni fyrst. Það eru a.m.k. 6 ný lög sem ég vann að eftir að ég skrifaði undir samninginn."

- Þú vinnur mikið með lagahöfundum en hvað átt þú mikið í tónlistinni sjálfri?

"Mjög mikið. Það eru 5 lög á plötunni sem ég samdi með öðrum lagahöfundum. Í þeim lögum sem ég samdi ekki hafði ég mikið að segja með útsetningu þeirra. Ég tek ekki að mér lag eftir annan lagahöfund nema að ég finni einhverskonar tengingu. Ég vil ekki syngja eitthvað lag sem ég "fíla" ekki eða ef ég næ ekki sambandi við textann. Mér finnst það bara vera plat og ég myndi aldrei gera það."

- Hefur þú einhvern tímann spilað á hljóðfæri?

"Ég lærði á píanó í 4 ár. Ég sem samt ekkert á það. Ég er bara með lítið snælduupptökutæki með mér sem ég "tralla" inn á. Svo vinn ég með lagahöfundum sem spila á píanó eða gítar eða eitthvað og klára með þeim lögin. Þeir heyra bara einhverjar laglínur sem ég kem upp með og svo vinnum við saman út frá henni."

Tónlistarmarkaðurinn

- Þetta verkefni er búið að lúta miklum markaðslögmálum frá upphafi og útgáfunni m.a. frestað vegna þeirra. Skiptir tímasetning svona miklu máli?

"Já, rosalega miklu. Fólk kannski gerir sér ekkert grein fyrir því að þetta kallar á rosalega mikla samvinnu. Það eru margir að vinna saman í þessu, allir að gera sitt. Ef sú vinna tekst vel þá gengur þetta upp."

- Er þessi mikla bið ekki búin að taka á taugarnar?

"Jú, auðvitað, þú getur rétt ímyndað þér. Ég er nú samt mjög ánægð að við séum fyrst að fara af stað núna. Við vorum ekki tilbúin til þess að gera þetta strax vegna þess að það þurfti að samræma alla samvinnu og svoleiðis. Núna er þetta komið í gang, ég er tilbúin og allir eru í raun og veru tilbúnir. Ég hefði aldrei verið tilbúin í þetta fyrir tveimur árum. Platan var ekki orðin eins góð þá og hún er núna."

- Finnst þér markaðslögmálin hafa haldið tónlistarsköpun þinni niðri?

"Já, mig dauðlangar að fara í hljóðverið aftur. Ég er náttúrlega búin að vera ansi mikið núna í öllum þessum markaðsmálum. Ég þarf að markaðssetja sjálfa mig. Ég er bara að kynna mig, er með ímynd í gangi og allt það. Ég er tónlistarmaður og þrái að fara að vinna tónlist aftur en kynningin er bara svo mikilvægur þáttur. Ameríka er svo rosalega stór og ég er gjörsamlega óþekkt. Ég þarf einhvern veginn að skapa mín eigin fótspor þannig að fólk þekki þau. Þetta er bara mjög mikilvægur hluti og ég hef rosalega gaman af þessu."

Sérstaða Svölu

- Er búið að leggja mikla vinnu í það að finna sérstöðu fyrir þig á markaðinum?

"Já, já. Það er alveg heil markaðsdeild hjá Priorety Records sem er í því að koma með hugmyndir og skapa allskonar vörur, auglýsingar sem allar viðkoma mér."

- Ertu einhvern tímann beðin um eitthvað sem þér finnst óþægilegt?

"Mér finnst ekkert óþægilegt. Þetta er fólk sem þekkir mig og ég fæ alveg að hafa hönd í bagga. Ef það er eitthvað sem mér finnst ekki sniðugt þá geri ég það ekki. Þetta er allt borið undir mig, umboðsmann minn og Skífuna þannig að við erum með yfirsýn yfir þetta allt. Mér finnst mjög gott að hafa stjórn á mínum eigin ferli. Ég vil ekki að einhver gæi úti í bæ sjái bara um þetta, það er ekki þannig hjá mér."

- Hver er svo þín sérstaða?

"Af því að ég er frá Íslandi þá sker ég mig strax frá Britney, Christinu og öllum hinum. Það er ekki aðalatriðið en verður samt notað til þess að skilja mig frá öðrum. Ég er Íslendingur og ætla ekkert að fara ljúga öðru. Mér finnst gaman að tala um landið mitt, og hvernig við Íslendingar erum allt öðruvísi en Bandaríkjamenn. Þjóðerniskenndin kemur ofsalega sterkt inn hér, maður verður ofsalega mikill Íslendingur."

- Ertu að keppa við Britney og Christinu? Þær eru nú aðeins yngri en þú er það ekki?

"Jú, þær eru það. Ég er 24 ára og er að stíla inn á markhópinn frá 10 ára upp í 28 ára, ég held að þær séu meira að stíla inn á yngri markhóp. Ég er meira að stíla inn á sama hóp og Jennifer Lopez. Það er breiðara svið. Tónlistin mín er aðeins þroskaðri."

- Maður hefur oft heyrt um það að útgáfufyrirtæki biðji tónlistarmenn um að ljúga til um aldur.

"Já, það er alveg satt. Þeir eru stundum að grínast með það, af því að það var gert hjá sumum. En ég er svo rosalega erfið að það væri aldrei hægt að segja mér að gera eitthvað svoleiðis. Ekki fræðilegur möguleiki."

Klám og popp

- Það er mikið spilað út á útlitið í þessum poppbransa er það ekki?

"Jú alveg rosalega mikið. Það er nóg að skoða forsíðurnar á öllum þessum blöðum til að sjá að þær eru allar hálfberar þessar söngkonur og leikkonur."

- Þú hefur greinilega ekkert á móti því sjálf, er t.d. eiginlega ber framan á forsíðu Mannlífs.

"Nei, ég hef ekkert á móti því. Ég er alls ekki spéhrædd manneskja. Þetta hefur aldrei verið neitt mál fyrir mér. Ef manneskja vill vera kappklædd þá er það fínt líka, þetta er bara spurning um persónulegt frelsi. Svo lengi sem þetta verður ekki ómerkilegt. Ég myndi aldrei fara og vera í einhverju klámblaði eða eitthvað þannig. Ég hef mjög gaman af fallegum, kynæsandi myndum sem eru kvenlegar. Mér finnst það ógeðslega flottar myndir og er algjör stelpa. Ég les þessi blöð eins og Vogue, Cosmo og finnst því bara mjög gaman að fara í svona myndatöku. "Playing dressup", það er ógeðslega gaman."

- Það hefur kviknað umræða um það að nú sé orðin fremur þunn lína á milli klám- og poppiðnaðarins, hvað finnst þér um það?

"Það er mjög mikið spilað upp á kynlíf, það er bara svoleiðis. Ég veit ekki alveg hvað ég á að segja. Ég get ekki farið að koma með einhverja heimspekilegar athugasemdir um það og hef ekkert hugsað mikið út í þetta. Tíminn er bara svona í dag. Hefur þetta ekki alltaf verið svona? Núna er þetta bara í öðruvísi formi. Á hippatímabilinu var slagorðið "Free love" og allir áttu að sofa hjá öllum. Núna er voðalega mikið í tísku að vera í stuttum pilsum og þröngum fötum. Ég hef ekkert á móti þessu, svo lengi sem ekki er farið yfir strikið í þessum málum og ekki sé verið að niðurlægja neinn á einhvern hátt. Þetta eru bara mjög flott myndbönd, flottar stelpur í flottum fötum sem dansa vel. Ég sé eiginlega ekkert að því. Þetta er bara augnakonfekt, aukabónus sem gaman er að horfa á. Ég held samt að þegar fólk fer að kaupa geislaplötur þá pælir það meira í tónlistinni. Það er a.m.k. það sem ég geri, ég kaupi ekki plötur út af því að myndbandið er svo flott. Bara ef mér finnst tónlistarmaðurinn hæfileikaríkur og ef tónlistin er góð. Ég held að þetta sé meira gert fyrir yngri og óþroskaðri krakka. Þannig var maður allavega sjálfur - ef manni fannst eitthvað meiriháttar flott, þá var það "kúl"."

- Þið gerðuð sex plötu samning, voru þið ekkert smeyk við skuldbindinguna?

"Nei, alls ekki. Þeir eru að leggja sig svo mikið fram. Ég er eini hvíti popptónlistarmaðurinn á Priorety Records. Þetta er í fyrsta skipti sem þeir eru að fara inn á poppmarkaðinn þannig að þetta er sameiginleg áhætta. Báðir aðilar eru því að fara út í þetta í fyrsta skiptið sem er svolítið skemmtilegt. Það eru allir æðislega spenntir. Plötufyrirtækið er þekkt fyrir að gefa út Snoop Doggy Dogg, IceCube og N.W.A. - allt rapp. Þeir eru hæfileikaríkir í því að gefa út hipp hopp-listamenn. Ég er eiginlega eins og litla barnið í fjölskyldunni, algjört dekurbarn."

- Hvenær kemur breiðskífan út?

"Smáskífan fer í útvarpsspilun núna 4. júní og svo í búðir 11. júlí. Breiðskífan kemur svo 14. ágúst." Landsmenn óska vonlega velgengni. Nú beinast allra augu að Svölu.