Þórólfur Antonsson fiskifræðingur krækir eitt hlustunarduflið upp úr sjónum undan Viðey.
Þórólfur Antonsson fiskifræðingur krækir eitt hlustunarduflið upp úr sjónum undan Viðey.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fiskifræðingar Veiðimálastofnunar vinna nú að verkefni, sem miðar að því að varpa ljósi á farleiðir gönguseiða og fullorðinna laxa um ósasvæði Elliðaánna og út fyrir Viðey.
Fiskifræðingar Veiðimálastofnunar vinna nú að verkefni, sem miðar að því að varpa ljósi á farleiðir gönguseiða og fullorðinna laxa um ósasvæði Elliðaánna og út fyrir Viðey.

Að sögn Sigurðar Guðjónssonar, framkvæmdastjóra Veiðimálastofnunar, auðveldar þekking á farleiðum laxins forgangsröðun verkefna, sem miða að því að koma í veg fyrir mengun, truflanir eða annað áreiti á laxinn eða seiðin á ósasvæðinu og er því einn þáttur í að tryggja framtíð laxins í Elliðaánum. "Ef til vill geta rannsóknirnar sýnt að gönguatferli sé tengt umhverfisskilyrðum, s.s. straumum, sjávarföllum og hita. Þekking á gönguleiðum og atferli laxins auðveldar einnig skipulag Sundabrautar og annarra mannvirkja á þessu svæði," segir Sigurður.

Tækjabúnaður og tilraunadýr

Að sögn Sigurðar eru helstu tæki við rannsóknirnar rafeindafiskmerki, svokölluð hljóðsendimerki, og tilheyrandi búnaður, s.s. hljóðnemar, móttökutæki og hlustunardufl. Með þessum tækjum sé hægt að afla upplýsinga um ferðir fiskanna og umhverfi þeirra. Verkefnið á að standa yfir í tvö ár til að fá samanburð, ef til vill við ólíkar umhverfisaðstæður.

Alls er stefnt að því að merkja 30 gönguseiði og er frekar reiknað með því að í flestum tilvikum verði það eldisseiði, en e.t.v. eitthvað af allra stærstu seiðunum sem veiðast í athugunargildruna. Stafar þetta af stærð merkjanna sem þó eru hin minnstu á markaðinum, 8,5x20 mm og 8,5x23 mm.

"Leitast verður við að skrá sem mest af upplýsingum um dvöl seiðanna á ósasvæðinu. Notuð eru hlustunardufl sem staðsett eru í sundum milli lands og eyja og milli eyjanna. Hlustunarduflin slá inn kóða merkjanna þegar seiðin ganga um hlustunarsviðið. Drægni duflanna er 300 til 600 metrar. Á sama máta verða merktir 10 hoplaxar og fylgst með ferðum þeirra, en hoplaxar eru fyrr á ferðinni til sjávar en seiðin. Þegar hafa tvö náttúruleg seiði verið merkt og þeim sleppt og hafa þau komið fram í hlustunarduflum úti á sundum," segir Sigurður.