David eyddi einu sinni tíu mánuðum í að flakka um Asíu; Nepal, Indland, Indónesíu, Malasíu, Singapore og Taíland, og sú reynsla er honum algjörlega ógleymanleg.
David eyddi einu sinni tíu mánuðum í að flakka um Asíu; Nepal, Indland, Indónesíu, Malasíu, Singapore og Taíland, og sú reynsla er honum algjörlega ógleymanleg.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
"Úff, það er óskaplega erfitt að nefna einhvern einn stað," sagði David Wellsbury leiðsögumaður þegar hann var beðinn að segja frá sínu uppáhaldsferðalagi.
"Úff, það er óskaplega erfitt að nefna einhvern einn stað," sagði David Wellsbury leiðsögumaður þegar hann var beðinn að segja frá sínu uppáhaldsferðalagi. "Það hefur nánast hver einasti staður einhverja sérstöðu og afar erfitt að bera saman hundasleðaferð um Lappland annars vegar og hins vegar ferð á einhverja sólarströndina," bætti hann við til útskýringar.

Litskrúðugar plöntur og fjölskrúðugt dýralíf

"Hitt er annað mál að ég er sennilega veikastur fyrir þeim stöðum sem bjóða upp á fjölbreytta náttúru; litskrúðugar plöntur og fjölskrúðugt dýralíf. Það er fátt lærdómsríkara en að halda út í heim og kynnast menningarheimum og þjóðfélögum sem eru gjörólík þeim sem við þekkjum hvað best á Vesturlöndum. Ég eyddi einu sinni tíu mánuðum í að flakka um Asíu; Nepal, Indland, Indónesíu, Malasíu, Singapore og Taíland og sú reynsla er mér algjörlega ógleymanleg," sagði hann. Eftir andartaks umhugsun hélt hann áfram; "Ég held það sé samt alveg óhætt að segja að ég hafi alveg sérstakt dálæti á regnskógasvæðinu á Borneo-eyjum. Það svæði er í raun heill ævintýraheimur út af fyrir sig með orangutan-öpunum, paradísarfuglunum, fílum, krókódílum og þúsundum blóma og runna í öllum regnbogans litum."

Getur verið að Breti, búsettur á Íslandi, ... sé með heimþrá til Borneo-eyja?

"Ja, það liggur við," svaraði David og hló þegar þessi fjölþjóðlega tilgáta var borin undir hann.

"Ég hef hins vegar starfað sem leiðsögumaður í áratug og á þeim tíma hef ég skipulagt fjölmargar ferðir fyrir breska ferðaskrifstofu; bæði til þessara draumaeyja og annarra spennandi staða eins og Indlands og Malasíu. Þannig að það líður aldrei of langur tími á milli ferða. Ég er til dæmis að fara núna í maí með hóp af enskum ferðamönnum í regnskógasvæðið á Borneo-eyjum og svo er ég búinn að setja saman ferðir fyrir Ferðaskrifstofu Reykjavíkur, m.a. til Bhutan."

"Ef fólk hefur séð myndina Sjö ár í Tíbet þá er Bhutan nákvæmlega svoleiðis. Íbúarnir eru einstaklega elskulegir og eiga það sameiginlegt að allir eyða þeir a.m.k. tveimur árum af ævinni í munkaklaustri. Það er þeirra menning og sérstaða. Landið hefur lengst af verið lokað fyrir ferðamönnum og enn leggja þeir ríka áherslu á að takmarka mjög fjölda ferðamanna. Í ár fá t.a.m. aðeins 5.000 ferðamenn að sækja landið heim og til samanburðar má geta þess að í júlímánuði einum koma til Íslands 5.000 ferðamenn í viku hverri. "

Eiga fílar, appelsínu-apar, forn menning og framandi slóðir eftir að heilla landann eins rækilega í framtíðinni og "Cuba Libra" og "Marks og Spencer" hafa gert hingað til?

"Já, það held ég," svaraði David Wellsbury án þess að hika. "Það er vissulega ósköp ljúft að liggja á sólarströnd og sötra svalandi drykki en ferðir á svona framandi slóðir eru ógleymanlegar upplifanir.