Pet Shop Boys með hunda.
Pet Shop Boys með hunda.
DANSPOPPARARNIR Neil Tennant og Chris Lowe í Pet Shop Boys hafa samið söngleik sem frumsýndur var í Lundúnum á fimmtudaginn.
DANSPOPPARARNIR Neil Tennant og Chris Lowe í Pet Shop Boys hafa samið söngleik sem frumsýndur var í Lundúnum á fimmtudaginn.

Í söngleiknum, sem heitir Closer to Heaven, fjalla þeirra félagar um það umhverfi sem þeir þekkja best - heim kynlífs, eiturlyfja og rokks og róls en sögusviðið er næturklúbbur fyrir samkynhneigða. Frumsýningargestir í hinu litla Arts-leikhúsi voru yfir sig hrifnir en gagnrýnendur eru hins vegar ekki alveg eins einhuga.

Pet Shop Boys, sem selt hafa yfir 30 milljónir platna, sömdu söngleikinn í félagi við leikritaskáldið Jonathan Harvey og notu stuðnings sjálfs konungs söngleikjanna, Andrews Lloyds Webbers, sem á að baki söngleiki á borð við Cats og Jesus Christ Superstar. Webber sagðist í samtali að lokinni frumsýningu vera sáttur við útkomuna og að söngleikurinn væri betri en flestir aðrir sem hann hefði séð í gegnum árin.

Boy George, sem sjálfur er að semja söngleikinn Taboo þessa dagana, var meðal frumsýningargesta og sagði söngleikinn afar heillandi: "Ég er gamall aðdáandi Pet Shop Boys og mér þótti tónlist þeirra í söngleiknum alveg frábær." Sir Elton John var einnig meðal áhorfenda og sparaði heldur ekki stóru orðin: "Þetta var ein ánægjulegasta leikhúsferð í háa herrans tíð. Æðisleg tónlist, æðisleg saga og æðisleg frammistaða - ég gef þessu ellefu í einkunn."