EINN þekktasti veitingastaður Kaupmannahafnar, Skt. Gertruds Kloster, er nú til sölu og segir eigandinn ástæðuna vera skelfilega útreið sem staðurinn fékk í matarrýni í Berlingske Tidende í febrúar sl.
EINN þekktasti veitingastaður Kaupmannahafnar, Skt. Gertruds Kloster, er nú til sölu og segir eigandinn ástæðuna vera skelfilega útreið sem staðurinn fékk í matarrýni í Berlingske Tidende í febrúar sl. Hefur aðsóknin hrunið í kjölfarið þrátt fyrir að staðurinn hafi ekki síst notið vinsælda hjá ferðamönnum sem ekki lesa dönsku blöðin reglulega.

Skt. Gertruds Kloster í miðbæ Kaupmannahafnar hefur notið mikilla vinsælda Norðurlandabúa og þá ekki síst Íslendinga en óhætt er að segja að verðlagið hafi verið í efri kantinum. Í matarrýni sinni kallaði Søren Frank staðinn "ferðamannagildru" og lýsti bragði eins réttarins sem "skemmdu". Þá gagnrýndi hann verðlagið en reikningurinn fyrir tvo hjá Frank væri ríflega 3.000 dkr. eða ríflega 33.000 íkr. Varaði matarrýnirinn fólk við því að borða þar.

Aðsóknin hrundi í kjölfarið, m.a. afpantaði 500 manna hópur og bar fyrir sig matarrýnina. Segir eigandi veitingastaðarins, Eddie Møller, aðsóknina hafa dregist saman um helming og veltuna minnkað um 16 milljónir ísl. kr. á mánuði. Kennir hann matarrýninni einni um; rekstur staðarins hafi verið í blóma sl. 26 ár. Íhugar eigandinn að fara í mál við Berlingske Tidende enda hefur verðmæti veitingastaðarins hrunið úr 350 milljónum í 150 milljónir. Matarrýnirinn Frank kveðst hins vegar ekki trúa því að honum sé einum um að kenna enda hafi hann "einungis skrifað það sem var á allra vitorði".

Kaupmannahöfn. Morgunblaðið.