[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÞVÍ hefur verið haldið fram að matargerð þjóðanna sé áreiðanlegasta vitnið um menningu þeirra. Fæðumúrar og gagnkvæm fæðufyrirlitning milli þjóða reynast oft reistir á miklum fordómum og fávísi en erfitt er oft að brjóta þá á bak aftur.
ÞVÍ hefur verið haldið fram að matargerð þjóðanna sé áreiðanlegasta vitnið um menningu þeirra. Fæðumúrar og gagnkvæm fæðufyrirlitning milli þjóða reynast oft reistir á miklum fordómum og fávísi en erfitt er oft að brjóta þá á bak aftur. Takist það hins vegar opnast leiðir til gagnkvæms skilnings manna í millum. Haft er eftir Charles Brun: "Segðu mér hvað þú borðar og ég skal segja þér hvers þú væntir og hvað þú hugsar." Hvað ætli honum hefði fundist um skyndibitaætur nútímans? Dæmi um áðurnefnda fáfræði er t.d. setning sem ég hef oftar en ekki heyrt: "Ítalskur matur og þetta pastahveitisull þeirra, þetta er ekki matur." Það sem margir vita ekki er að Ítalir borða spaghettí og aðra pastarétti yfirleitt í forrétt en ekki aðalrétt eins og margar þær þjóðir sem hafa gert sér far um að apa eftir þeim í heimalöndum sínum. Það er hins vegar mikið gleðiefni hvað matreiðsla Íslendinga hefur auðgast á síðustu misserum, bæði hvað varðar betri og fjölbreyttari nýtingu á eigin afurðum og eins með tilkomu ferskra strauma erlendra matarmenningarstrauma. Greinarhöfundur lenti á dögunum í portúgalskri veislu (með brasilísku ívafi) hjá Önu Maríu Unnsteinsson og lögðu allir gestir til eitthvað af portúgölskum uppruna til veislunnar. Þannig kynntu gestirnir sér örlítið matarmenningu viðkomandi þjóðar sem náði að kveikja forvitni og eftirvæntingu eftir því hvað í vændum væri.

Saltfiskur á aðfangadag

Kvöldið byrjaði á því að skálað var í þjóðardrykk Portúgala, Sangria. Eftir það var borinn á borð saltfiskrétturinn "Bacalhao à Bras" ásamt fersku salati. Þar næst birtist brasilíski þjóðarrétturinn feijoada í fylgd hrísgrjóna og dufts úr okrarótum. Mexíkóska rauðvínið L.A. Cetto úr Zinfandelþrúgum rann einstaklega ljúflega niður með réttunum. Í eftirrétt var kókoseggjabúðingur sem ber hið heiðarlega nafn "manjar" sem þýðir að borða. Íslendingarnir sem voru í boðinu dásömuðu sérstaklega saltfiskréttinn og hina frumlegu en ótrúlega einföldu matreiðslu hans. Saltfiskur er ein af þeim frábæru afurðum okkar Íslendinga sem við mættum meta meira til verðleika og borða meira af. Í Portúgal er hann veislumatur og Guðrún Helga, einn gesta sem var eitt sinn skiptinemi í Brasilíu, kveðst hafa orðið mjög hissa þegar hinn gamli góði saltfiskur var borinn fram með viðhöfn á aðfangadag. Hún ætlaði reyndar ekki að þekkja hann því hann var í allt öðru samhengi en hún var vön og matreiddur á mjög ólíkan hátt. Sagt er að Portúgalir og eins Spánverjar búi yfir einum saltfiskrétti fyrir hvern dag ársins. Við höfum fiskinn en Portúgalarnir hafa uppskriftirnar, enda er íslenskur saltfiskur dásamaður mjög í Portúgal og á Spáni.Við ættum eins að taka þessum menningararfi þeirra opnum örmum.

Hinn aðalrétturinn þetta kvöld, feijoada á sér áhugaverða sögu. Þeir sem "fundu upp" þennan rétt voru þrælar í Brasilíu. Þetta er ódýr réttur með baunir að aðaluppistöðu, en síðan er kjöti bætt út í hann til að gera hann matarmeiri. Yfirstéttin hirti náttúrlega alltaf bestu kjötbitana og gaf þrælunum verstu bitana. Í réttinn eru notuð grísaeyru og grísatær, grísarófa og ákveðin heimatilbúin pylsa búin til úr reyktu kjöti. Því miður fæst þetta ekki hér á landi. Viðkvæðið er víst hætta á salmonellu. Einkennilegt að þetta fæst í öllum kjötbúðum í Evrópu, þar með talið Portúgal, sem er mun heitara land en Ísland og því meiri hætta á sýkingu. Sala þessara afurða gengur þó snurðulaust fyrir sig og þykir þetta herramannsmatur. Ana notaði því annað og "virðulegra" kjöt í þetta skipti.

Lesendur fá hér smásýnishorn af réttunum sem vonandi veita innblástur og hvatningu til svipaðra verka á matarsviðinu.

Bacalhao à Bras

Uppskrift fyrir 6-8

800 g saltfiskur

3 marin hvítlauksrif

fersk steinselja

hálfur bolli ólífuolía

350 g franskar kartöflur úr dós

(t.d. pik-nik shoestring potatoes)

hálf tsk pipar

6 egg

2 lárviðarlauf

Útvatnið saltfiskinn yfir nótt. Skiptið um vatn um morguninn og tvisvar yfir daginn. Ef saltfiskurinn er mjög þykkur þarf að skipta oftar um vatn. Fjarlægið roð og bein og sjóðið fiskinn í u.þ.b. 5 mín. (fer eftir þykkt). Steikið laukinn, hvítlaukinn, lárviðarlaufin og steinseljuna í ólífuolíunni á djúpri pönnu í 1 mín. Bætið saltfiskinum (sem tættur hefur verið í þunna strimla) út á pönnuna og steikið í 1 mínútu til viðbótar. Bætið eggjum út í og þar næst kartöflum og blandið vel saman. Hellið réttinum í stórt fat og skreytið með steinselju og ferskri papriku og tómötum. Berið fram með fersku salati.

Sangria

1 rauðvínsflaska

1-1 og hálfur l sprite (eftir smekk)

1 epli

2 appelsínur

safi úr einni sítrónu

kanelstöng

3-4 msk. sykur (eða eftir smekk)

ísmolar

Hellið rauðvíninu í bolluskál ásamt gosinu. Skerið eplið og appelsínurnar í litla bita og bætið út í skálina ásamt sítrónusafanum. Bætið sykrinum og kanelstönginni út í og hrærið vel. Látið drykkinn bíða í ísskáp í nokkra tíma áður en hann er borinn fram. Bætið ísmolum út í drykkinn rétt áður en hann er borinn fram.

Álfheiður Hanna Friðriksdóttir