4. júní 1941: "Nokkurs sársauka og vonbrigða gætir í skrifum danskra blaða yfir því, að Íslendingar skuli hafa tekið ákvörðunina um sambandsslitin eins og ástandið er í augnablikinu.
4. júní 1941: "Nokkurs sársauka og vonbrigða gætir í skrifum danskra blaða yfir því, að Íslendingar skuli hafa tekið ákvörðunina um sambandsslitin eins og ástandið er í augnablikinu. Við nánari athugun munu þó danskir stjórnmálamenn komast að raun um, að ákvörðunin er ekki tekin af neinum illvilja í garð Dana, heldur af óhjákvæmilegri nauðsyn. Vegna ríkjandi ástands, var okkur gert ókleift að fylgja ákvæðum sambandslaganna. Danir vissu hins vegar vel að sambandsslitin voru ákveðin fyrir löngu. Formlega tilkynningu um þetta hefðu þeir fengið strax í byrjun þessa árs, ef ástandið hefði verið eðlilegt.

Í sjálfstæðismálinu hefir því ekki skeð annað en það, sem allir vissu, að koma myndi."

3. júní 1961: "Engu skal um það spáð, hversu lengi þau verkföll standa, sem nú eru hafin. En margt bendir til þess að þau muni verða langvinn og afleiðingar þeirra örlagaríkar. Mikill meirihluti þjóðarinnar gerir sér ljóst að hér er ekki um að ræða kjarabaráttu í venjulegum skilningi. Verkföllin eru fyrst og fremst pólitísks eðlis og höfuðtakmark þeirra er að eyðileggja efnahagsráðstafanir, sem ríkjandi stjórn í landinu hefur hafizt handa um."

"Um það getur engum hugsandi manni blandazt hugur, að brýna nauðsyn ber til þess að fara nýjar leiðir til að tryggja vinnufrið á Íslandi. Sjálfstæðismenn hafa í því sambandi m.a. bent á samstarfsnefndir launþega og vinnuveitenda, ágóðahlutdeild launþega í atvinnurekstrinum, almenningshlutafélög og aukna ákvæðisvinnu. Allt gæti þetta stuðlað að sáttum vinnu og fjármagns. En því miður hefur alltof lítið verið gert til þess að hrinda slíkum nýjungum í framkvæmd. Verkföll hafa verið háð árlega og valdið stórkostlegu tjóni og truflunum í allri starfsemi þjóðfélagsins."