Skiltið góða, "Nýr lax", er ennþá á staðnum.
Skiltið góða, "Nýr lax", er ennþá á staðnum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Víða er þörf, en í Ferjukoti í Borgarfirði er blátt áfram nauðsyn að varðveita gamla muni sem eru til marks um stórmerka atvinnusögu Borgfirðinga allt frá 19. öld. Guðmundur Guðjónsson hitti í vikunni Þorkel Fjeldsted sem er að leggja drög að minjasafni og hugsar sér að vera "sjálfur hluti af safninu" eins og hann segir með glott á vör.
FERJUKOT, óðal Fjeldstedættarinnar, var áður í alfaraleið, við nyrðri brúarsporð gömlu Hvítárbrúarinnar. Á sínum tíma kannski þekktast fyrir skiltið góða sem á stóð "nýr lax" og var tilefni til endalausra brandara á kostnað gugginna laxveiðimanna sem voru á heimleið úr veiði með öngulinn í landhelgi og gátu á ögurstundu komið við í Ferjukoti til að bjarga túrnum og andlitinu gagnvart eiginkonunum sem sátu heima og væntu þess að karlar þeirra hefðu raunverulega verið á veiðum, en ekki í einhverju öðru stússi.

En þarna var fleira um að vera heldur en sala á nýveiddum Hvítárlaxi. Þarna var verslun, bensínstöð, pósthús, auk þess sem þarna var soðinn niður lax sem skip sóttu í Ferjukot og fluttu á markað. Allt er þetta liðið undir lok, en húsin standa enn og gripir og búnaður eru innan dyra.

Kennir margra grasa

Þorkell Fjeldsted er sonur Þórdísar og Kristjáns heitins Fjeldsted. Þórdís býr enn í gamla íbúðarhúsinu í Ferjukoti, en Þorkell með fjölskyldu sinni í nýrra húsi skammt undan. Við ána standa gömlu steinhúsin og þar innan dyra kennir margra grasa. Gömul net og ný hanga í löngum röðum, sum frá seinni hluta 19. aldar. Stór eirpottur sem lax var soðinn í í tengslum við niðursuðuverksmiðjuna sem stofnað var til í kringum árið 1880. Tunnugjarðir, gömul og frumstæð vog sem þrátt fyrir háan aldur, var notuð og "aldrei vefengd," eins og Þorkell segir, allt til loka netaveiða í Hvítá hér um árið. Í einu horninu er upprúllað gamalt tjald úr segldúk, tjaldið sem brúarsmiðir Hvítárbrúar notuðu til skjóls árið 1929. Í gömlu versluninni má enn sá daufa blýantsskrift á gömlu viðarhillunum sem segja til um súkkulaðiverðið. Úti við eru virki uppi á hamri fyrir ofan húsin, þar ætluðu bandamenn að verja Hvítárbrú gegn mögulegri árás Þjóðverja í seinna stríði. Þar skammt undan eru einnig fjárhús, í fullri notkun, frá árinu 1916. Og úti í einum skúrnum lúrir meira að segja skiltið fræga, "Nýr lax" sem svo margir þekkja, en unga fólkið í dag þó tæplega, því tíminn flýgur.

Horft um öxl

"Ef horft er um öxl má glöggt sjá að hér hefur verið iðandi mannlíf og atvinnulíf. Mikil umsvif. Í dag eru hins vegar bara rólegheit og lítið um að vera. Hvernig getur annað verið þegar aðalatvinnuvegurinn er horfinn. Hitt er svo annað mál að það væri upplagt að setja vinnu og peninga í að varðveita betur það sem hér er geymt. Nú þegar er talsverð umferð ferðamanna um svæðið og það væri hægt að setja upp einhvers konar ferðamannahring hérna með viðkomu á búvélasafni á Hvanneyri, á Borg á Mýrum og svo hér í Ferjukoti. Sögutengar ferðir hafa verið vaxandi að vinsældum, til marks um það er Njáludæmið á Hvolsvelli. Þar er efniviður og menn hafa verið skynsamir og snjallir í uppbyggingunni. Hér er líka efniviður."

En þetta hlýtur að kosta stórfé?

"Já, það kostar allt peninga og alltaf spurning hvaðan þeir koma. Hins vegar er það ekkert launungarmál að ég er búinn að leggja mikla vinnu í verkefnið þótt ég geti ekki sagt til um hvenær svona minjasafn gæti verið opnað formlega."

Á að dusta hér ryk af öllum hlutum, merkja hvern mun og selja aðgang?

"Það kostar pening að setja svona á stofn og halda því við. Ég er ekki viss um að sú leið verði farin að merkja hér allt og svo gangi fólk bara um og lesi af miðum. Ég er fremur með það í huga að hafa þetta eins og Hildibrandur í Bjarnarhöfn. Hann er með margt skrýtið og skemmtilegt, m.a. litlu kirkjuna og hákarlaverkun. Fólk kemur svo til hans og hann tekur á móti því, fer með því um svæðið og talar. Segir sögu hvers hlutar. Þannig er karlinn sjálfur orðinn nokkurs konar hluti af safninu. Þannig sé ég þetta hér í Ferjukoti. Ég myndi taka á móti fólki, leiða það um svæðið og segja söguna. Verða eins og karlinn í Bjarnarhöfn, hluti af safninu."

Horfin handtök

Þorkell ætlar að láta þennan draum rætast og segir að ekki megi dragast lengur að fara í framkvæmdir, því safngripirnir þoli ekki endalaust að liggja óhreyfðir í kompum og skemmum. Á endanum muni tímans tönn naga göt sem ekki verða bætt. Það sem mælir með að Þorkatli takist ætlunarverk sitt er tíminn, eða öllu heldur tímaleysið. "Aðalatvinnugreinin er horfin og nú stundum við hér bara venjulegan búskap. Þessu fylgir viss söknuður. Það var vissulega tómlegt hérna eftir að netaveiðarnar voru aflagðar, en menn verða að taka því og þetta var skynsamleg ákvörðun á sínum tíma. Við dundum okkur eitthvað við silungsveiði í ánni vor og haust. Það er mikið af bæði bleikju og sjóbirtingi. En fyrir vikið er tími til að staldra við og hugsa sinn gang. Þennan tíma þarf að nýta," segir Þorkell. Það er sem sagt verið að taka til hendinni til minningar um horfin handtök.