Árni Johnsen, alþingismaður Sunnlendinga, hefur tilkynnt forsætisráðherra að hann muni segja af sér þingmennsku. Þetta er rétt ákvörðun og kemur ekki á óvart. Þingmaðurinn hafði sjálfur komið sér í þá stöðu að hann átti engan annan kost.

Árni Johnsen, alþingismaður Sunnlendinga, hefur tilkynnt forsætisráðherra að hann muni segja af sér þingmennsku. Þetta er rétt ákvörðun og kemur ekki á óvart. Þingmaðurinn hafði sjálfur komið sér í þá stöðu að hann átti engan annan kost.

Árni hefur nú í tvígang viðurkennt að hafa sagt fjölmiðlum ósatt um meðferð sína á byggingarefni, sem hann tók út úr verzlunum í nafni byggingarnefndar Þjóðleikhússins. Hann hefur viðurkennt að hafa í fyrstu sagt ósatt um afdrif kantsteina, sem teknir voru út í nafni nefndarinnar en þingmaðurinn reyndist hafa tekið til eigin nota. Nú hefur hann jafnframt viðurkennt að þéttidúkur, sem tekinn var út í nafni hinnar opinberu nefndar, hafi verið fluttur til Vestmannaeyja, þar sem þingmaðurinn á heimili. Hann hefur játað að hafa sagt fjölmiðlum, þar á meðal Morgunblaðinu, ósatt um flutning og geymslustað dúksins og að hafa látið flytja hann aftur til Reykjavíkur í geymslu þar sem hann vísaði fjölmiðlum á hann. Í samtali við Morgunblaðið í dag segist Árni Johnsen ekki geta gefið neinar skýringar á ósannindum sínum.

Efni málsins er auðvitað grafalvarlegt. Ríkisendurskoðun rannsakar ásakanir á hendur Árna um að hann hafi tekið fé skattgreiðenda til eigin persónulegu nota. En burtséð frá því hver efnisleg niðurstaða þeirrar rannsóknar verður, hefur Árni Johnsen með framferði sínu síðastliðna viku fyrirgert því trausti, sem óhjákvæmilegt er að ríki á milli kjósenda og þeirra fulltrúa, sem þjóðin kýs til að setja sér lög og gæta almannahagsmuna. Við verðum að geta treyst því að kjörnir fulltrúar okkar segi sannleikann. Við verðum líka að geta treyst því að dómgreind þeirra, sem taka mikilvægar ákvarðanir er varða heill almennings, sé óbrengluð. Árni Johnsen hefur á síðustu dögum orðið uppvís jafnt að ósannindum sem og alvarlegum dómgreindarbresti.

Það er tiltölulega nýtt í íslenzkri stjórnmálasögu að stjórnmálamenn axli ábyrgð á gerðum sínum og bregðist við gagnrýni á verk sín með því að segja af sér embætti, eins og Árni Johnsen hefur nú gert. Segja má að þáttaskil hafi orðið í þeim efnum er Guðmundur Árni Stefánsson, þáverandi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, sagði af sér embætti ráðherra í nóvember 1994. Ríkisendurskoðun hafði þá komizt að raun um að meðferð ráðherrans á almannafé væri aðfinnsluverð. Sá munur var þó á framferði því, sem Guðmundur Árni var gagnrýndur fyrir í skýrslu Ríkisendurskoðunar, og þeim athöfnum, sem Árni Johnsen er nú ásakaður um, að sá fyrrnefndi misfór ekki með almannafé í eigin þágu, heldur högnuðust aðrir á athöfnum hans. Sannist notkun almannafjár í eigin þágu hins vegar á Árna Johnsen er það enn alvarlegra mál.

Í forystugrein Morgunblaðsins um mál Guðmundar Árna 12. nóvember 1994 sagði m.a.: "Með afsögn Guðmundar Árna Stefánssonar nú verða [...] þáttaskil. En jafnframt er ljóst að héðan í frá munu ráðherrar, þingmenn, embættismenn og raunar æðsta stjórnsýsla landsins yfirleitt, og þar er enginn undanskilinn, búa við meira aðhald af hálfu almennings, fjölmiðla, Ríkisendurskoðunar og Alþingis en tíðkazt hefur til þessa.

Þeir aðilar, sem hverju sinni gegna ábyrgðarmiklum störfum við æðstu stjórnsýslu, hvort sem um er að ræða stjórnmálamenn eða embættismenn, verða framvegis að gera ráð fyrir því að störf þeirra verða meir undir smásjá almenningsálits en nokkru sinni fyrr. Þetta er hin jákvæða afleiðing þessa máls, sem svo mjög hefur verið til umræðu á undanförnum vikum og mánuðum. Við höfum ekki búið við sams konar hefðir og nágrannaþjóðir okkar í þessum efnum. Þær eru nú að verða til."

Mál Árna Johnsen sýnir svo að ekki verður um villzt, að sú hefð er að festast í sessi á Íslandi að stjórnmálamenn setji embætti sitt og stöðu sem tryggingu fyrir trúnaði sínum við kjósendur. Það er jákvæð þróun fyrir íslenzkt samfélag. Stjórnmálamenn og embættismenn búa nú við skýrari reglur en áður og almenningur gerir meiri kröfur til þeirra. Viðbrögð almennings við fregnum af máli Árna Johnsen hafa verið mikil og afdráttarlaus. Það er eðlilegt, en breytir ekki því að í sumum tilfellum reyndist fólk reiðubúið að trúa ásökunum, sem ekki hafa verið færðar sönnur á. Slíkt er alltaf varasamt.

Morgunblaðinu bárust í gær ýmsar orðsendingar, þar sem því er leynt og ljóst haldið fram að blaðið hafi reynt að halda hlífiskildi yfir Árna Johnsen í þessu máli vegna þess að hann sé fyrrverandi starfsmaður blaðsins. Þetta eru órökstuddar ásakanir. Lesi menn fréttaflutning blaðsins af málinu undanfarna daga er ekki hægt að finna slíkum fullyrðingum stað. Blaðið hefur ekki frekar en endranær hlaupið á eftir óstaðfestum sögusögnum, heldur lagt áherzlu á ýtarlega og upplýsandi umfjöllun, sem það hefur leitazt við að byggja á staðreyndum. Einmitt vegna þess að það er almenn vitneskja að Árni Johnsen var blaðamaður Morgunblaðsins um árabil hafa starfsmenn þess verið sér einkar meðvitandi um mikilvægi þess að umfjöllun blaðsins um mál hans væri fagleg og óhlutdræg í hvívetna. Nánir persónulegir vinir Árna á blaðinu hafa dregið sig í hlé frá ákvarðanatöku um umfjöllun um mál hans, eins og vinnureglur blaðamanna á Morgunblaðinu gera ráð fyrir.

Fréttir sínar í gær og fyrradag um þéttidúkinn margumrædda og geymslustað hans byggði Morgunblaðið ekki á framburði Árna Johnsen, heldur fyrst og fremst á framburði annarra heimildarmanna. Þetta kemur skýrt fram báða dagana og ekki síður í frásögn blaðsins í dag. Þar er greint rækilega frá vinnubrögðum blaðamanna þess varðandi þennan þátt málsins þannig að lesendur geta sjálfir dæmt um þau. Morgunblaðið stendur óhikað við að umfjöllun þess hafi í alla staði byggzt á traustum, faglegum grundvelli.

Nú hefur hið sanna komið í ljós um ósannindi og blekkingar Árna Johnsen og starfsmanns rekstraraðila Þjóðleikhúskjallarans um ferðalag þéttidúksins. Það er alltaf þungbært fyrir blað, sem leggur áherzlu á traustan fréttaflutning, þegar menn taka sig saman um að skrökva að því. Slíkt hefur gerzt áður og gæti átt eftir að gerast aftur. Blaðið gengur hins vegar aldrei út frá því fyrirfram að viðmælendur þess geti reynzt ósannindamenn. Einkum og sér í lagi í tilviki þingmannsins hafa þessi ósannindi reynzt afdrifarík þótt hann hafi nú beðizt afsökunar á þeim. Auðvitað skrökvaði hann um leið að almenningi, umbjóðendum sínum, og misbauð trausti þeirra. En þau mistök hafa jafnframt orðið honum að falli.

Þessu máli er engan veginn lokið með afsögn Árna Johnsen. Nú er mikilvægt að Ríkisendurskoðun rannsaki alla opinbera fésýslu þingmannsins ofan í kjölinn þannig að umfang hennar og eðli komi skýrt fram í dagsljósið. Líklegt má telja að niðurstöðurnar verði lærdómsríkar og gefi tilefni til að verkaskipting og eftirlit opinberra aðila með nefndarstarfi af því tagi, sem hér um ræðir, verði endurskoðað.