GÍSLI S.

GÍSLI S. Einarsson, þingmaður Samfylkingar og fulltrúi í fjárlaganefnd, mun leggja fram tillögu við nefndina um að hún óski eftir því við Flugmálastjórn að fá afhenta leiðsögubók flugvélar hennar, þar sem fram kemur hversu oft vélin er notuð og af hverjum.

"Ég hef verið að velta því undanfarið fyrir mér hvaða tæki og tól það eru sem þingmönnum er leyfilegt að nota," segir Gísli. "Ástæðan fyrir því eru þær ásakanir sem á mig voru bornar um að hafa misnotað pappír sem er merktur mínum eigin vinnustað og sjálfum mér."

Gísli segir að þegar hann hafi farið að velta þessum málum fyrir sér hafi ýmislegt orðið á vegi hans, meðal annars notkun á umræddri flugvél Flugmálastjórnar.

"Ég hef orðið var við að hún er mikið notuð en það eru sérstaklega ströng skilyrði fyrir notkun á henni," segir Gísli og bætir við að sér þyki afar eðlilegt að Flugmálastjórn afhefndi fjárlaganefnd umrædda leiðsögubók þannig að fram komi hverjir hafa notað vélina og í hvaða tilgangi.

"Þetta tæki, vél Flugmálastjórnar, er eign þjóðarinnar. Hún er til afnota fyrir ráðherra og einhverja fleiri, í þeim tilvikum þegar ekki er um annan ferðamáta er að ræða og þegar um mjög knappan tíma er að ræða. En það hefur verið sagt við mig að það séu ýmsir sem hafi notað þessa vél í kannski ekki svo mikilvægum tilgangi," segir Gísli, en að með umræddri beiðni vilji hann fá á hreint hvort farið hafi verið að reglum um notkun vélarinnar.

Stofnanir verða að gefa upp hverjir voru á ferð

Heimir Már Pétursson, upplýsingafulltrúi Flugmálastjórnar, segir að ef umrædd beiðni berist Flugmálastjórn verði sjálfsagt að gefa yfirlit yfir notkun á vélinni.

"En hins vegar er það svo að þegar vélin er leigð út til ráðuneyta eða stofnana gefum við ekki upp hvaða einstaklingar voru þar á ferð eða hvert var farið. Vélin er leigð til þeirra, á 85.000 krónur á tímann, og við látum það þá eftir einstökum ráðuneytum og stofnunum að svara því hvers vegna vélin var leigð," segir Heimir Már. Hann tekur fram að mjög nákvæmar reglur séu um notkun vélarinnar. Hún sé öðru fremur flugprófunartæki fyrir Flugmálastjórn og að auki sé hún notuð við leit og björgun. Síðan séu til reglur um að ráðuneyti og stofnanir fái hana leigða en hún sé þá á þeirra vegum á meðan.