Sýningunni er lokið.

LJÓSMYNDUN er smám saman að öðlast sess hér á landi sem listmiðill þótt við séum töluvert á eftir öðrum vestrænum þjóðum í mati okkar á verðleikum hennar. Einhvern veginn hefur farið svo fyrir íslenskri ljósmyndun að henni hefur verið haldið utan og ofan við öll myndlistargildi í lokuðum heimi út af fyrir sig.

Hólfun er svo sem ekkert nýtt fyrirbæri í íslenskri myndlist. Hún hefur verið regla fremur en hitt. Formræn sótthreinsun hverrar greinar fyrir sig - eins konar geymsla í formalíni - virðist skipta okkur meira máli en skapandi sambræðsla. Þetta hefur leitt til þeirrar leiðinlegu skipunar mála að allt verður að vera fyrirsjáanlegt. Það er auðvelt að ímynda sér hvað þetta þýðir fyrir hugmyndaflugið.

Íslensk ljósmyndun hefur verið þjökuð af þessari innikróun, en ýmislegt bendir til að jákvæðra breytinga sé að vænta. Eitt dæmið er sýning Ólafar Bjarkar Bragadóttur hjá Íslensk grafík. Þessi franskmenntaða listakona virðist býsna laus við þá heftandi virðingu fyrir miðlinum sem stíflar sköpunargleðina. Verið getur að það sé vegna þess að hún fæst jafnframt við ýmsar aðrar greinar innan myndlistarinnar, svo sem málaralist. Ekkert virðist eins blóðaukandi og haftalosandi nú á tímum en það að stunda nógu margar aukabúgreinar.

Litmyndir Ólafar Bjarkar eru allar teknar á flóamarkaði í Montpellier, í Suður-Frakklandi, þar sem borðin skarta hvers kyns varningi. Myndirnar eru allar teknar beint yfir viðfangsefninu - samkvæmt fuglsflugi, eins og það er kallað á frönsku - þannig að varningurinn glatar vissum raunveruleikasvip, og myndar í staðinn ryþmískt mynstur yfir allan flötinn, ekki ósvipað kyrralífsskreytingum á síðrómverskum mósaíkveggjum og gólfum; veisluborðum í málverkum Pierre heitins Bonnard; ellegar hlutafjölfeldisskápum franska nýrealistans Armans. Það er alltaf eitthvað traustvekjandi við list sem skírskotar til svo margra ólíkra tíma, fornra sem nýrra, en að auki er mikil og rík Miðjarðarhafsgleði, og litagleði, í ljósmyndum Ólafar Bjarkar.

Halldór Björn Runólfsson