Guðjón Smári í verslun sinni á Skólavörðustíg.
Guðjón Smári í verslun sinni á Skólavörðustíg.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
BÓKABÚÐ Lárusar Blöndal mun flytja af Skólavörðustígnum í Listhúsið í Laugardalnum þann 30. ágúst nk.

BÓKABÚÐ Lárusar Blöndal mun flytja af Skólavörðustígnum í Listhúsið í Laugardalnum þann 30. ágúst nk. Guðjón Smári Agnarsson, eigandi verslunarinnar, segir ástæður fyrir flutningnum vera meðal annars mikil hækkun á leiguverði og skortur á bílastæðum í miðbænum. "Bókabúð Lárusar Blöndal hefur verið hérna í þessu sama húsnæði á Skólavörðustígnum síðastliðin 50 til 60 ár.

Ég met það hins vegar þannig að það sé betra að flytja. Þar skiptir hækkun á leigu aðallega máli en þetta svæði er orðið ansi dýrt."

Hann segist vera bjartsýnn á að reksturinn muni ganga betur í Listhúsinu.

"Þar er leiguverð mun lægra. Þá er meira af bílastæðum þar en skortur á þeim hefur verið vandamál hér og ég er ekki í vafa um að það hefur dregið úr viðskiptum hjá okkur."

Fákeppni í bóksölu

Spurður hvort það væri erfitt að reka bókabúð í dag sagði Guðjón:

"Það er fákeppni í sumum greinum verslunar og það stefnir í fákeppni í bóksölu. Það munu verða til tvær blokkir að mér sýnist, Mál og Menning og Penninn, en ég ætla að reyna að halda áfram, ásamt örfáum öðrum."

Eins og áður greinir mun Bókabúð Lárusar Blöndal flytja í Listhúsið í Laugardal, Engjateigi 17-19. Segir Guðjón að þar muni verslunin leggja höfuðáherslu á góðar bækur til gjafa.