Eitt af verkum Díönu Hrafnsdóttur.
Eitt af verkum Díönu Hrafnsdóttur.
Opið 13-18 til 25. ágúst.

UNDIR niðri heitir fyrsta einkasýning Díönu Hrafnsdóttur sem nú stendur yfir í Selinu. Titillinn og ljóð sem prentað er í sýningarskrá gefa fólki hugmyndir um hvað liggur að baki verkunum. Hvað er undir yfirborðinu/Eitthvað annað en sýnist/Villir það af leið/Ekkert er eins og það sýnist, segir í ljóðinu. Verkin eru litlar svart/hvítar tréristur og viðfangsefnið virðist við fyrstu sýn ósköp hefðbundið, fjöll og landslag, en þegar nánar er að gáð leysist ýmislegt úr læðingi og hægt er að sjá margt skemmtilegt út úr myndunum. Sumir sjá fugla eða ævintýri, aðrir sjá fjöll og enn aðrir ekkert nema strik í ýmsar áttir sem ekkert tákna. Réttast væri því að segja að myndirnar væru eins konar felumyndir. Díana segir einmitt að ekki sé allt sem sýnist og í myndunum tekst henni vissulega að gefa óræð skilaboð. Þannig vekja verkin fleiri spuningar en þau svara, sem er einmitt einkenni góðra myndlistarverka.

Tæknin sem Díana notar er athyglisverð, hún margþrykkir, mynd ofan í mynd og oft eru fleiri en ein mynd unnar með sömu prentplötunum en uppröðunin ólík í hvert skipti. Þetta eru laglegar myndir, einföld hugmynd smekklega útfærð í sígildan miðil.

Þóroddur Bjarnason