VATNSBORÐ Kleifarvatns hefur lækkað um tæpa fjóra metra á rúmu ári og hefur ekki verið lægra í þau rúmlega 100 ár sem ábyggilegar heimildir eru til um vatnsborðið. Flatarmál vatnsins hefur jafnframt minnkað um allt að fimmtung, úr 10 km² í 8 km². Líklegt er talið að sprungur í vatnsbotninum hafi opnast í Suðurlandsskjálftum á síðasta ári og vatn leki niður um þær.

FRÁ árinu 1964 hefur síritandi vatnshæðarmælir skráð vatnshæð Kleifarvatns. Einnig eru til

stakir álestrar frá árinu 1930 og til eru frásagnir um vatnsstöðu frá því fyrir aldamótin 1900.

Vatnsborð Kleifarvatns hefur farið stöðugt lækkandi frá því í júní 2000, samkvæmt upplýsingum frá Orkustofnun. Á rúmu ári hefur það lækkað um tæplega fjóra metra og er nú 136,7 my.s.

Ekkert rennsli er úr Kleifarvatni heldur seytlar vatnið niður um vatnsbotninn en vatnsborðið tekur breytingum í samræmi við veðurfar og úrkomu. Leki um botn vatnsins hefur verið tæplega einn rúmmetri á sekúndu undanfarin ár. Fyrsta hálfa árið eftir Suðurlandsskjálftana í fyrra tvöfaldaðist rennslið. Lekinn hefur minnkað aftur en er þó 50% meiri en var fyrir jarðskjálftana og vatnsborðið lækkar enn.

Þurrkatíð ekki um að kenna

Jóna Finndís Jónsdóttir, vatnafræðingur hjá Orkustofnun, sagði í viðtali við Morgunblaðið í gær að í fyrstu hefði verið talið að ástæða lækkandi vatnsborðs væri lág grunnvatnsstaða og lítil úrkoma á svæðinu undanfarin ár. Nú væri hins vegar ljóst að þurrkatíðin nægði ekki til þess að útskýra svo mikla lækkun.

Fyrir nokkru benti glöggur vegfarandi Orkustofnun á sprungur við norðurenda vatnsins þar sem vatn fossaði niður. Sprungurnar eru á svæði sem um áratugi hefur verið á vatnsbotni. Leki um þessar sprungur virðist hafa aukist í kjölfar skjálftanna í fyrrasumar. Jóna Finndís segir ómögulegt að segja til um hvenær þessar sprungur þéttist og hvenær vatnsyfirborðið nái jafnvægi á ný. Þó sé fyrirsjáanlegt að um sinn haldi vatnsborðið áfram að lækka.

Að mati Jónu Finndísar er flatarmál vatnsins nú um 8 km² og því hefur yfirborðið minnkað um fimmtung á rúmlega ári.

Svelgur í einni sprungunni

Kristjana G. Eyþórsdóttir, jarðfræðingur hjá vatnamælingasviði Orkustofnunar, segir að þegar starfsmenn vatnamælingasviðs fóru að Kleifarvatni fyrr í mánuðinum hafi þeir vatn renna niður í eina sprunguna og heyrt sog aðeins fjær. "Það var eins og svelgur á mjög takmörkuðu svæði. Það var greinilegt að þarna fossaði niður vatn."

Kristjana segir engin dæmi um svo mikla lækkun á einu ári. Vatnsborð Kleifarvatns hefði þó ýmist lækkað eða hækkað í gegnum tíðina en lækkun um fjóra metra hefði gerst á mun lengri tíma eða á 18-20 árum. Kristjana segir grunnvatnsstöðu á landinu víða lága og lægsta á Vesturlandi sökum lítillar úrkomu. Það dugi þó alls ekki til að skýra breytingarnar á vatnsborði Kleifarvatns. Hún biður þá sem eiga leið hjá Kleifarvatni að vara sig á hverum sem nú eru margir komnir á þurrt.

Í Morgunblaðinu þann 11. apríl sl. var fjallað um lækkandi vatnsborð Kleifarvatns en þá var vatnshæðarmælir Orkustofnunar kominn á þurrt. Fram kom að í kjölfar Suðurlandsskjálftanna hefði orðið harður jarðskjálfti við Kleifarvatn sem mældist fimm stig á Richter.

Gunnar B. Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, sagði í samtali við Morgunblaðið að jarðskjálftasprungur gengju í gegnum botn Kleifarvatns og jarðskjálftar hefðu verið mældir undir vatninu. Vel gæti hugsast að þær hefðu opnast og hleyptu nú meira vatni í gegn. Þá hefðu skjálftarnir einnig getað hrist upp í jarðveginum undir vatninu og gert hann gljúpari.