Valgarður Ragnarsson býr sig undir að sleppa um það bil 14 punda hrygnu í Húseyjarkvísl fyrir fáum dögum.
Valgarður Ragnarsson býr sig undir að sleppa um það bil 14 punda hrygnu í Húseyjarkvísl fyrir fáum dögum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
HNÚÐLAX veiddist í Húseyjarkvísl í síðustu viku og eftir því sem næst verður komist mun þetta vera fyrsti fiskur sinnar tegundar sem veiðst hefur í ánni, að sögn Ingólfs Davíðs Sigurðssonar, sem veiddi fiskinn.

HNÚÐLAX veiddist í Húseyjarkvísl í síðustu viku og eftir því sem næst verður komist mun þetta vera fyrsti fiskur sinnar tegundar sem veiðst hefur í ánni, að sögn Ingólfs Davíðs Sigurðssonar, sem veiddi fiskinn. Þetta var um það bil 4 punda hængur, dökkur og ófrýnilegur eins og vænta mátti.

Hnúðlaxinn í Húseyjarkvísl er líklega þriðji hnúðlax sumarsins sem veiðist, en þeir eru fleiri á ferðinni, því Grímur Jónsson, sem veiddi hnúðlax í Vatnsá fyrir nokkrum dögum, sá annan slíkan fisk í Botnsá daginn áður. Síðasta sumar veiddust nokkrir hnúðlaxar, m.a. tveir í Breiðdalsá og einn í Hvammsá, hliðará Selár í Vopnafirði.

Ingólfur Davíð var annars við "tilraunaveiðar utan veiðitíma með landeigendum", í Húseyjarkvísl eins og hann komst að orði. Var verið að líta á ástandið í ánni og veiddu Ingólfur og félagi hans fjóra stórlaxa, alla yfir 80 sentimetra langa. Þeir voru allir veiddir á flugu og sleppt að viðureign lokinni.

Skot í Geirlandsá

Smáskot kom í Geirlandsá á miðvikudagsmorgun, en veiðimenn sem þar voru að enda tveggja daga veiðitúr sinn náðu þá átta sjóbirtingum í Ármótum Geirlandsár og Stjórnar. Þetta voru allt að 8 punda fiskar, allir teknir á spón. Mikið vatn var í ánni, en minnkandi eftir stórrigningu sl. sunnudag. Alls veiddi hollið 11 fiska.

Stórlax í Heiðarvatni

Fyrir nokkru veiddist 16 punda lax í Heiðarvatni í Mýrdal og er það sá stærsti sem þar hefur veiðst um langt árabil. Örfáir laxar veiðast í vatninu á hverri vertíð, slatti af sjóbirtingi, en þessir göngufiskar eiga greiða leið í vatnið um Kerlingardalsá og Vatnsá.