3. október 2001 | Innlendar fréttir | 502 orð

Stærstur hluti af áburði fyrir næsta sumar tilbúinn

ÁBURÐARVERKSMIÐJAN hefur þegar framleitt mikinn hluta af þeim áburði sem til stóð að framleiða fyrir næsta sumar. Efnaframleiðsla í verksmiðjunni stöðvaðist í fyrradag þegar öflug sprenging varð í verksmiðjunni.
ÁBURÐARVERKSMIÐJAN hefur þegar framleitt mikinn hluta af þeim áburði sem til stóð að framleiða fyrir næsta sumar. Efnaframleiðsla í verksmiðjunni stöðvaðist í fyrradag þegar öflug sprenging varð í verksmiðjunni. Það mun ekki hafa stórvægileg áhrif fyrir verksmiðjuna þar sem í ágúst síðastliðnum var ákveðið að leggja efnaframleiðsluna niður og átti sú ákvörðun að koma til framkvæmda á næstu vikum, þótt ekki hafi verið tekin ákvörðun um hvaða dag framleiðslunni yrði hætt.

Nú verður hráefni flutt inn í kornaformi og verður kornunum blandað saman í verksmiðjunni og áburðurinn sekkjaður, að sögn Haralds Haraldssonar, stjórnarformanns verksmiðjunnar. Um 15-20 manns munu starfa áfram í verksmiðjunni við fullvinnslu áburðar. Í ágúst þegar þessar breytingar voru ákveðnar var á fjórða tug starfsmanna sagt upp, eða um tveimur þriðju hlutum þeirra. Þeir sem þá misstu vinnuna vinna flestir enn í verksmiðjunni, en Haraldur segir mismunandi hvort starfsmenn séu á þriggja eða sex mánaða uppsagnarfresti. Flestir þeirra störfuðu við efnaframleiðsluna og segir Haraldur að hugsanlega fái einhverjir þeirra það verkefni að hreinsa lóðina eftir sprenginguna. Einnig sé mögulegt að gerður verði við þá samningur og þeir fái uppsagnarfrestinn greiddan.

Turnarnir sem notaðir voru til að geyma efni sem framleidd voru í verksmiðjunni og standa ekki langt frá þeim stað þar sem sprengingin varð á mánudagsmorgun verða eftir að innflutningur korna hefst ekki lengur notaðir til geymslu hættulegra efna, að sögn Haralds.

Lóð Áburðarverksmiðjunnar í Gufunesi er í eigu Reykjavíkurborgar, en verksmiðjan leigir lóðina, sem er 20 hektarar. Áburðarverksmiðjan hefur starfsleyfi til ársins 2019 og er, í tillögum að aðalskipulagi Reykjavíkurborgar fyrir árið 2024, gert ráð fyrir að verksmiðjan verði lögð niður fyrir þann tímaog að í Gufunesi rísi blönduð byggð, þéttari en sú sem fyrir er í Grafarvogi.

Óljóst hvort borgin kaupir byggingarnar

Á mánudag, þegar sprengingin varð, átti Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri fund með Haraldi þar sem var ákveðið að ekki yrði ráðist í viðgerðir á byggingunni þar sem sprengingin varð. Borgarstjóri tilkynnti að borgin væri tilbúin að taka upp viðræður um hvernig megi flýta brottflutningi verksmiðjunnar, ljúka skipulagi svæðisins og hefja uppbyggingu atvinnu- og íbúðarbyggðar á svæðinu. Í Morgunblaðinu í gær sagðist Ingibjörg Sólrún vonast til að verksmiðjan færi á næsta ári eða því þarnæsta, árið 2003.

Haraldur segir óútkljáð hvort verksmiðjan fái greiddar bætur og segir Ingibjörg borgina ekki bótaskylda í sjálfu sér. Hún segir að viðræðurnar hafi ekki verið á þeim nótum á mánudag. Haraldur segir að ekkert sé enn farið að ræða um hvernig staðið verði að málum, t.d. hvort borgin muni kaupa mannvirki verksmiðjunnar á lóðinni og síðan eyðileggja þau. Ekkert sé hægt að segja um hversu mikla fjármuni er um að ræða. Hann segir þó að eigandi lóðarinnar geti ekki tekið lóðina af leiguliða, borgi hann alla skatta og skyldur og standi í skilum.

Haraldur sagði að til stæði að ný áburðarverksmiðja yrði byggð og sagðist hann telja að Suðurland væri heppilegt fyrir slíka starfsemi. Hann segir ómögulegt að segja fyrir um hvað bygging slíkrar verksmiðju gæti kostað en segir ólíklegt að þar verði gert ráð fyrir efnaframleiðslu. Því myndu áfram um 15-20 starfsmenn starfa í verksmiðjunni í framtíðinni.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.