Rauf Denktash og Glafcos Clerides við upphaf fundarins í gær.
Rauf Denktash og Glafcos Clerides við upphaf fundarins í gær.
SAMKOMULAG varð um það á 75 mínútna fundi Glafcos Clerides Kýpurforseta og Rauf Denktash, leiðtoga tyrkneska minnihlutans á norðurhluta eyjunnar, í gær að hefja um miðjan janúar samningaviðræður um framtíð landsins.
SAMKOMULAG varð um það á 75 mínútna fundi Glafcos Clerides Kýpurforseta og Rauf Denktash, leiðtoga tyrkneska minnihlutans á norðurhluta eyjunnar, í gær að hefja um miðjan janúar samningaviðræður um framtíð landsins. Jafnframt þekktist Clerides boð Denktash um kvöldverð í dag en forsetinn hefur ekki farið yfir í nyrðri helming eyjunnar frá því að tyrkneskar hersveitir réðust inn í landið árið 1974 og lögðu þriðjung eyjunnar undir sig.

Tíðindi gærdagsins komu sem þruma úr heiðskíru lofti en Clerides og Denktash höfðu ekki ræðst við frá því þeir hittust í ágúst 1997. Sögðust þeir í lok fundarins í gær, sem haldinn var á hlutlausu svæði fyrir miðju eyjunnar, ætla að halda áfram viðræðum uns víðtækt samkomulag um framtíð landsins lægi fyrir.

Tengist stækkun ESB

Talsmaður Clerides sagði að sú ákvörðun hans, að fara yfir í nyrðri hluta Kýpur í kvöld, væri tekin til að sýna í verki vilja forsetans til að ná sáttum um lausn deilunnar. Hann tók hins vegar fram að þetta jafngilti ekki viðurkenningu á tilverurétti tyrknesks lýðveldis á N-Kýpur, en Denktash lýsti yfir stofnun þess árið 1983.

Hin óvænta niðurstaða á sér stað viku fyrir leiðtogafund Evrópusambandsins (ESB) sem fram fer í Läken í Belgíu. Vestrænir sendimenn höfðu tilkynnt tyrkneskum stjórnvöldum í Ankara að fundurinn í gær væri síðasta tækifærið til að koma friðarferli á Kýpur af stað á ný áður en Kýpur-Grikkir lykju samningum um aðild Kýpur að ESB.

Tyrkir hafa lagst gegn aðild Kýpur að ESB en leiðtogar sambandsins hafa lagt á það áherslu að eyjan fái aðild óháð því hvort samningar hafi áður tekist um framtíð landsins.

Nicosia. AFP.