Isabel Allende
Isabel Allende
Isabel Allende. Íslensk þýðing Kolbrún Sveinsdóttir. Útg. Mál og menning.
ÞAÐ er ekki algengt að þríleikur eigi sér slíka myndunarsögu líkt og á sér stað með útgáfu bókarinnar Mynd örlaganna. Bókin stendur sem miðsagan í heildarverkinu en kemur út síðust. Hinar bækurnar eru Hús andanna, sem fyrst kom út en stendur sem lokasaga verksins og loks Dóttir gæfunnar sem er upphafssagan og kom út í íslenskri þýðingu á síðasta ári. Þetta hefur kallað á hálfgerðan afturábaklestur fyrir þá sem fylgt hafa þessum verkum frá upphafi. En sé hugsað til innviða þessara skáldverka myndar ósamræmið milli annars vegar útgáfutíma og hins vegar innri tíma verkanna ágætis heild. Allar takast þær á við tímann að einhverju leyti, þrána eftir hamingju og framtíð líkt og í Dóttir gæfunnar eða uppbyggingu fortíðar, leitina að innviðum sjálfsins líkt og í Mynd örlaganna. Í báðum tilvikum er þetta barátta við tímann sem ávallt er brotakenndur og óbeislanlegur. Án fastmótaðrar línulegrar framrásar. Lesandinn er því að mörgu leyti í spori sögupersóna að kafa í fortíðinni í leit að víðari skilningi.

Mynd örlaganna segir sögu þriggja kynslóða og tekur að vissu leyti upp þráðinn þar sem Dóttir gæfunnar sleppti en getur þó auðveldlega staðið sem sjálfstætt verk. Það er barnabarn Elísu Sommers, Aurora sem segir söguna í formi frásagna og endurminninga sem knúnar eru áfram af skilningsleitinni eða þörfinni til að skilja sitt eigið sjálf. Sjálfsmynd Auroru er að mörgu leyti brotin því hún fæðist á mörkum margra ólíkra menningarheima. Leit hennar að fortíð umbreytist einnig í leit að stöðu í menningarsamfélagi sem er henni jafnt framandi sem og andsnúið. Aurora fer því alla leið í frásögn sinni og afneitar sér rétti til ritskoðunar sem kristallast einmitt í orðum eins af lærifeðrum hennar Don Juan Ribero: "Birtan er tungumál ljósmyndarinnar, sál heimsins. Það er ekkert ljós án skugga rétt eins og það er engin hamingja án sársauka [...]Ef þú vilt ná fram sömu áhrifum og af málverki skaltu mála, Aurora. Ef þú vilt sannleikann skaltu læra að nota myndavélina."

Isabel Allende hefur margsannað sig sem sem meistari skáldsögunnar og veldur því ekki vonbrigðum hvað frásagnargleði varðar í þessu verki. Allt sem viðkemur uppbyggingu og framvindu sögunnar er vel unnið en því verður, aftur á móti, ekki neitað að vissra endurtekninga er byrjað að gæta í verkum hennar og þá sérstaklega í uppbyggingu sögupersóna sem að mörgu leyti eru orðnar fyrirsjáanlegar og fastmótaðar. Þetta er akkillesarhæll bókarinnar og sprettur vafalaust af því að um síðasta verkið í þessum þríleik er að ræða. Þýðing Kolbrúnar er prýðilega unnin og tekst henni vel að miðla töfraheimi Isabel Allende yfir á íslenska tungu.

Höskuldur Kári Schram