BJÖRN Bjarnason menntamálaráðherra segir að miðað við fyrstu niðurstöður megi ef til vill velta því fyrir sér hvort gert sé nógu vel í skólakerfinu við þá nemendur sem eru bestir.
BJÖRN Bjarnason menntamálaráðherra segir að miðað við fyrstu niðurstöður megi ef til vill velta því fyrir sér hvort gert sé nógu vel í skólakerfinu við þá nemendur sem eru bestir. "Við vitum raunar og erum sannfærð um að við Íslendingar eigum að geta átt mun stærra hlutfall nemenda í efsta þrepinu."

Aðspurður um hátt hlutfall nemenda sem ekki lesi sér til skemmtunar segir Björn fulla ástæðu til þess að skoða það betur ef það er niðurstaðan úr könnuninni og hún reynist rétt, að ungt fólk sé almennt farið að draga mjög úr lestri. "Það er í andstöðu við það sem við höfum verið að vinna að í skólakerfinu upp á síðkastið. Við höfum verið að gera margvíslegar ráðstafanir til þess að auka við lestrarkennsluna og skilgreina lestrarfærni sem lykilþátt í öllu skólastarfinu. Við höfum verið með ýmis nýmæli, eins og til að mynda stóru upplestrarkeppnina sem nú er að fara af stað, sem eru til þess fallin að hvetja ungt fólk til þess að auka lestur og lesa með öðrum hætti." Björn segir þetta vissulega stangast á við okkar eigin tilfinningu um að við séum bókmenntaþjóð, að við gefum út og kaupum fleiri bækur en flestar aðrar þjóðir. "Það er vissulega nokkur þverstæða ef niðurstaðan er síðan sú að enginn hefur ánægju af þessu og síst af öllu unga fólkið."

"Þetta er þó ekki aðalatriðið í niðurstöðum rannsóknarinnar heldur að þegar á heildina er litið getum við vel við unað þótt vissulega vilji menn gera betur á sumum sviðum. Könnunin sýnir að við erum á réttri leið og að íslenska skólakerfið stenst vel samanburð við bestu þjóðirnar í heiminum."

Björn segir að rannsóknir af þessu tagi veiti mönnum nýjar upplýsingar og staðfesti sumpart eldri niðurstöður sem aftur geri mönnum kleift að fara að ræða um málin á hlutlægan hátt. "Nú getum við skoðað þetta í alþjóðlegu samhengi og það á eftir að hafa jákvæð áhrif þegar fram líða stundir."

Spurður um muninn á frammistöðu kynjanna, sem mælist í könnuninni, segir Björn að hann komi kannski ekki beinlínis á óvart. Hann sé hins vegar mjög mikið umhugsunarefni. "Það þarf að halda þeim skilaboðum og þá sérstaklega að ungum piltum að þeir eigi að leggja rækt við námið. Það er mjög mikilvægt. Af 10.500 háskólanemum á Íslandi eru 6.500 konur en aðeins 4.000 karlmenn þannig að þetta rekur sig áfram upp skólakerfið."