Auður Jónsdóttir
Auður Jónsdóttir
eftir Auði Jónsdóttur. Myndir eftir Þórarin Leifsson. Mál og menning 2001. 105 bls.
NÚ á tímum yfirborðsmennsku, peningagræðgi, gervilíkamshluta og mannillsku er ekki úr lagi að boða mannelsku og virðingu. Og þótt að bókin Algjört frelsi líti út fyrir að vera algjört sprell þá er hún mun meira en það.

Þannig er að Tinna trassi er stelpuskott sem býr hjá móður sinni. Þar búa einnig bestu félagar Tinnu, sem eru afi hennar sem hefur viðurnefnið "unglingur" þar sem hann klæðir sig, talar og hegðar sér á alla lund einsog argasti unglingur, eftir áratugi sem búðarloka. Svo er það hundurinn Lubbi sem er skynsamastur allra, viskuröddin sem talar mannamál og það hina vönduðustu íslensku, og er sífellt að leiðrétta sletturnar í afa gamla. Þegar Tinna er sett í sælgætisbindindi ætlar þrenningin að heimsækja pabba Tinnu, sem leyfir hamborgara og gotterí, en hann er þá fluttur og þau leita hans um allan bæ.

Þetta er mjög fyndin og býsna spennandi bók, sem maður leggur helst ekki frá sér fyrr en í lokin. Atburðarás er strax hrint af stað, þar sem eitt leiðir af öðru og félagarnir hitta ótrúlegustu persónur sem allar hafa eitthvað að kenna þeim. Mér þykir samt ansi tæpt að svo gömul og skynug stúlka sem Tinna hafi enga hugmynd um hvað pabbi hennar starfar.

En jæja, á vegi þeirra verða fulltrúar hégóma, peninga og valdagræðgi, og í Beyglunni (Kringlunni, ha, ha!) hitta þau kolklikkaða tískulöggu (sem lítur út einsog Hitler!). Tískulöggan er hörð í horn að taka, og raunar stórhættuleg, en þá koma betri persónur til hjálpar, og er leigubílstjórinn kostulegi einn þeirra. Þau komast að því að þetta er heimur þar sem smiðir þjást fyrir að þykjast vera listamenn, og fólk kaupir sér bara ný dýr þegar gæludýrin verða veik. En góðir hjálpa góðum og allt endar vel að lokum, auk þess sem Tinna trassi lærir sína lexíu sem skilnaðarbarn. Eða að setja sig í spor foreldranna.

Textinn er bráðfyndinn og á lifandi og vandaðri íslensku, sem gerir þó örlitlar kröfur til lesendanna, sem er gott. Einstaka sinnum koma inn fræðslupunktar sem hefði mátt sleppa, þeir hægja eilítið á sögunni, auk þess sem hér er verið að segja nóg, það þarf ekki meira. Það er sniðugt að vekja athygli á málvernd og virðingu fyrir íslenskunni á svo frumlegan hátt, en á stöku stað geta endurtekningarnar í Lubba orðið þreytandi.

Þessi fyrsta barna- og unglingabók Auðar Jónsdóttur er sérlega vel heppnuð, kraumandi kímni með alvarlegri undirtón. Það er ekki síður að þakka frábærlega skemmtilegum og grallaralegum myndum eiginmannsins Þórarins Leifssonar og þeim ótrúlegu persónum sem hann dregur upp. Það verður að segja að saman hafi hjónin náð að skila frá sér góðu verki með þarfan boðskap á bakvið skringilegheitin og sprellið.

Hildur Loftsdóttir