KRISTÍN MARJA BALDURSDÓTTIR: Ég þurfti að hafa alla þræði í hendi mér og skapa persónurnar af sömu alúð og ættu þær að fara í skáldsögu.
KRISTÍN MARJA BALDURSDÓTTIR: Ég þurfti að hafa alla þræði í hendi mér og skapa persónurnar af sömu alúð og ættu þær að fara í skáldsögu.
1. Hún hefur alltaf verið uppreisnargjörn. "Synd að ég skuli ekki hafa fengið tækifæri til að taka þátt í byltingu.

1.

Hún hefur alltaf verið uppreisnargjörn. "Synd að ég skuli ekki hafa fengið tækifæri til að taka þátt í byltingu."

Í smásagnasafni Kristínar Marju Baldursdóttur, Kvöldljósin eru kveikt, er uppreisn í hverri sögu og uppreisnarseggirnir eru konur. "Fyrsta smásagan mín, sem ég skrifaði þegar ég var sjö ára, hét Ungi með horn. Allar konurnar í sögunum eru ungar og líklega með horn, líka þær fullorðnu. Ég hef tekið eftir að konur eru í raun alltaf sömu stúlkurnar, þótt komnar séu á tíræðisaldur, en viðhorf þjóðfélagsins til þeirra breytist mjög þegar aldurinn færist yfir. Karlar eru vissulega alltaf sömu strákarnir, en það bitnar ekki eins illa á þeim að eldast, þeir þurfa ekki að lúta þessari æsku- og útlitsdýrkun, líklega af því að þeir stýra þjóðfélaginu að mestu leyti."

Kvöldljósin eru kveikt er fyrsta smásagnasafn Kristínar Marju, en hún hefur ritað skáldsögurnar Mávahlátur, Hús úr húsi og Kular af degi og bók um Vilborgu Dagbjartsdóttur, Mynd af konu.

"Ég hef skrifað margar smásögur, en engar birt fyrr en nú. Eldri sögurnar mínar áttu ekki heima í smásagnasafninu. Ég ákvað að búa til sérstaka mósaíkmynd og þeir sem lesa sögurnar í réttri röð ná henni."

Allar sögurnar snúast að einhverju leyti um flíkur. "Ég klæði upp konur í þessum sögum. Umbúðirnar, fatnaðurinn og eilífar vangaveltur um útlitið, hindra konur í að vera andlega frjálsar.

Æsku- og útlitsdýrkunin er mjög þreytandi og mér finnst hafa komið afturkippur í jafnréttisbaráttuna. Ungar konur keppast við að vera kyntákn, en um leið þokast ungir karlar í jafnréttisátt, til dæmis með því að taka fæðingarorlof. Konur voru komnar nokkuð langt, en kynlífsdýrkunin hefur dregið þær til baka."

2.

Ein setning nægir til að kveikja hugmynd að sögu í huga rithöfundarins, hvort sem það er saga móðurinnar sem gerir uppreisn í París, systranna sem sjóða niður rifsber eða eiginkonunnar sem hverfur á miðnætti. "Mig langaði til að sýna hvernig sagan mótar konuna, hvernig hún bregst við áreiti þjóðfélagsins og lýsa tilraunum hennar til að brjótast út úr ákveðnum hlutverkum. Áður en ég hófst handa hafði ég dregið sögurnar allar upp í huganum. Ég þurfti að hafa alla þræði í hendi mér og skapa persónurnar af sömu alúð og ættu þær að fara í skáldsögu, þótt ég sýndi svo ekki nema brot af persónunni. Þetta tók mig langan tíma, en núna þekki ég þetta fólk til hlítar og veit hvernig það hagar sér við ólíkar aðstæður. Ég neita því ekki að stundum fannst mér ég vera að undirbúa tólf skáldsögur. En það er nauðsynlegt að takast á við fleiri form."

3.

"Smásögur minna mig oft á málverk. Guernica eftir Picasso fangar augnablikið, en við fáum aldrei að vita hvað gerðist á undan eða hvað mun gerast. Snjallar smásögur lifa í huga manns til eilífðar. Allt frá því að ævintýri og sögur H.C. Andersen voru lesnar fyrir mig í bernsku hef ég hrifist af þessu stutta formi.

Eiginlega hefði ég átt að senda fyrst frá mér ljóð og smásögur áður en skáldsagan kom út, það er vaninn, en ég byrjaði á öfugum enda eins og ég er vön. Það er viðbúið að ljóð og leikrit heilli mig mest eftir nokkur ár."

4.

"Stundum koma sögupersónur til mín inn um gluggann eins og flugur. Þær setjast upp hjá mér, naktar og litlar, í eldhúshorninu. Ég gef þeim að borða, eins og öðrum sem rekast hingað inn, þær stækka, ég klæði þær og loks þurfa þær sérherbergi. Ég skil þetta ekki alltaf sjálf og held raunar stundum að ég sé ekki með fullum sönsum.

Persónur hafa alltaf sótt á mig með þessum hætti. Þegar ég var unglingur var mesta gleði mín að segja vinkonum mínum sögur, en ég sagði alltaf að sögurnar væru úr bíómyndum sem pabbi minn hefði séð. Þær hefðu aldrei viljað hlusta á bull úr mér," segir rithöfundurinn og ætlar æskuvinkonum sínum greinilega sama viðhorf og Þórsteinu, aðalsögupersónu Kular af degi, sem las ekki skáldsögur af því að hún kærði sig ekki um að lesa bull í fólki.

"Ég minnist þess ekki að nokkur sögupersóna mín hafi átt sér beina fyrirmynd. Það væri þá helst Kidda í kjallaranum, í Mávahlátri. Ég þekkti hins vegar ekki persónuleika fyrirmyndarinnar, ég var svo lítil þegar ég sá hana."

5.

"Ég er alin upp við að láta aldrei verk falla úr hendi. Ritstörfin valda mér því oft miklu samviskubiti, því ég eyði löngum tíma í að stara út um gluggann og hugsa, áður en stafur fer á blað. Helst vil ég skrifa fyrir hádegi, því þá er friður í þjóðfélaginu. En þegar ég er að skrifa sögu leitar hún svo fast á mig að ég get ekki sofið, heldur vaki og hugsa um hana. Svo sofna ég undir morgun, vakna seint og vinnudagurinn er fyrir bí. Það bætir ekki samviskuna."

6.

Kristín Marja er að vinna drög að skáldsögu, skrifa ljóð og leikrit. "Skáldsagan er númer eitt, en hugmyndirnar eru svo margar og ég þarf að koma þeim í form."

Gagnrýnendur hafa líkt bókum Kristínar Marju við verk ýmissa annarra rithöfunda. "Samanburður er svo leiðinlegur," segir hún og vill frekar tala um uppáhaldsrithöfunda sína. "Þau skáld sem eru í uppáhaldi hjá mér eru því miður ekki konur. Ég hef alltaf verið mjög hrifin af Federico García Lorca og Thomasi Mann. Ef ég á að nefna sögu eftir konu sem ég er mjög hrifin af þá er það Gestaboð Babettu eftir Karen Blixen.

Flestar bækur heims eru skrifaðar af körlum um karla. Líklega er ég mett, því nú sækist ég meira eftir skáldsögum kvenna, jafnt íslenskum sem erlendum. Mér finnst karlar hafa ríkari tilhneigingu til að skrifa sögulegar skáldsögur, en konur skapa oftar nýjan heim."

7.

Í sumum smásagnanna skrifar hún frá sjónarhóli karla. "Þótt karlar og konur hafi í grundvallaratriðum sömu viðhorf til lífsins og búi yfir áþekkum tilfinningum eru þau samt ólík. Ég held að ég myndi aldrei skrifa heila skáldsögu í orðastað karls, en í smásögu fannst mér ég geta sýnt brot af hugsunarhætti karlsins án þess að tefla mér í hættu. Þessir karlar eiga það hins vegar sameiginlegt að varpa ljósi á konurnar; þeir eru að skoða þær.

Ég hef aldrei fundið samkennd með kvenpersónum sem karlar hafa skapað, hversu frægar og dáðar sem þær nú eru í bókmenntasögunni. Hins vegar finnst mér þeim takast vel upp þegar þeir lýsa konum utan frá."

8.

Hún hefur engan sérstakan lesanda í huga þegar hún skrifar. "Mig langar til að opna glugga fyrir karla og ná til kvenna. Nokkur hlý orð frá lesendum hvetja mig til að halda áfram. Þá skiptir engu máli hvort það eru unglingar í skólum eða háaldrað fólk."

Hún hefur ekki velt því fyrir sér hvort bækur hennar séu séríslenskar á einhvern hátt og er svosem ekki viss um hvað það þýðir. "Mávahlátur gæti líklega ekki gerst hvar sem er. Ef til vill Kular af degi. En kannski er ég sú sem síst getur dæmt um það. Sjálf sækist ég mjög í að lesa bækur frá öðrum heimshlutum og er sólgin í að kynnast framandi menningarheimi. Ætli útlendingar séu ekki alveg eins til í að kynnast menningunni á lítilli eyju á norðurhjara veraldar?"

Mál og menning hefur gefið út smásagnasafnið Kvöldljósin eru kveikt eftir Kristínu Marju Baldursdóttur.